Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Í samkunduhúsinu í heimabæ Jesú

Í samkunduhúsinu í heimabæ Jesú

Kafli 21

Í samkunduhúsinu í heimabæ Jesú

EFLAUST ríkir mikil eftirvænting í Nasaret þegar Jesús kemur heim. Áður en hann fór til að skírast hjá Jóhannesi fyrir rúmlega ári var hann þekktur sem smiður en nú er hann alþekktur sem kraftaverkamaður. Bæjarbúar eru óðfúsir að sjá hann vinna einhver af þessum kraftaverkum í heimabæ sínum.

Eftirvæntingin vex þegar Jesús gengur inn í samkunduhúsið eins og hann er vanur. Hann stendur upp til að lesa og er fengin bók Jesaja spámanns. Hann finnur staðinn þar sem sagt er frá þeim sem er smurður með anda Jehóva, en það er í 61. kafla í biblíum okkar núna.

Jesús les hvernig þessi þjónn Jehóva á að boða bandingjum lausn og blindum sýn og kunngera náðarár hans. Síðan fær hann þjóninum bókina og sest. Allir einblína á hann. Þá tekur hann að tala og útskýrir, sennilega í alllöngu máli: „Í dag hefur rætst þessi ritning í áheyrn yðar.“

Fólk undrast hin „hugnæmu orð“ hans og segir hvert við annað: „Er hann ekki sonur Jósefs?“ En Jesús veit að fólk vill sjá hann vinna kraftaverk og heldur því áfram: „Eflaust munuð þér minna mig á orðtakið: ‚Læknir, lækna sjálfan þig!‘ Vér höfum heyrt um allt, sem gjörst hefur í Kapernaum. Gjör nú hið sama hér í ættborg þinni.“ Fyrrverandi nágrönnum Jesú finnst greinilega að hann ætti að hefja lækningarnar heima hjá sér til góðs fyrir samborgara sína. Þeim finnst Jesús því hafa lítilsvirt sig.

Jesús veit hvað þeir eru að hugsa og rifjar upp viðeigandi sögubrot. Hann bendir á að margar ekkjur hafi verið í Ísrael á dögum Elía, en að Elía hafi ekki verið sendur til neinnar þeirra. Hann fór til ekkju í Sídon, sem var ekki ísraelsk, og vann þar kraftaverk henni til lífsbjargar. Og á dögum Elísa voru margir holdsveikir en hann hreinsaði engan nema Naaman Sýrlending.

Þeir sem staddir eru í samkunduhúsinu reiðast þessum óhagstæða samanburði við forna sögu. Þeir afhjúpa eigingirni sína og trúleysi er þeir spretta á fætur og hrekja Jesú út úr bænum. Þeir reyna síðan að hrinda honum fram af brún fjallsins sem Nasaret stendur á. En Jesús sleppur frá þeim og kemst óhultur undan. Lúkas 4:16-30; 1. Konungabók 17:8-16; 2. Konungabók 5:8-14.

▪ Hvers vegna eru Nasaretbúar fullir eftirvæntingar?

▪ Hvað finnst mönnum um ræðu Jesú en hverju reiðast þeir síðan heiftarlega?

▪ Hvað reynir fólkið að gera við Jesú?