Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ófrísk en ógift

Ófrísk en ógift

Kafli 4

Ófrísk en ógift

MARÍA er komin nokkuð á þriðja mánuð á leið. Þú manst að hún dvaldist hjá Elísabetu á fyrsta hluta meðgöngunnar, en nú er hún komin heim aftur til Nasaret. Bráðlega verður á hvers manns vitorði í heimabæ hennar hvernig ástatt er fyrir henni. Hún er sannarlega í óþægilegri aðstöðu!

Það gerir illt verra að María er trúlofuð smiðnum Jósef. Og hún veit að samkvæmt lögmáli Guðs í Ísrael ber að grýta til dauða þá konu sem er heitbundin manni en hefur kynmök við annan. Hvernig getur hún útskýrt fyrir Jósef að hún sé barnshafandi?

Jósef brennur áreiðanlega í skinninu að hitta Maríu því að hún hefur verið í burtu í þrjá mánuði. María segir honum líklega fréttirnar strax og þau hittast. Hún gerir eflaust sitt besta til að útskýra fyrir honum að það sé fyrir atbeina heilags anda Guðs sem hún sé barnshafandi. En þú getur rétt ímyndað þér að Jósef á erfitt með að trúa því.

Jósef veit að María hefur mjög gott mannorð og honum þykir greinilega ákaflega vænt um hana. Samt sem áður virðist einsýnt að hún sé barnshafandi eftir annan mann, hvað sem hún segir. En Jósef vill ekki að hún sé grýtt til bana eða hljóti opinbera skömm. Hann ákveður því að skilja við hana í kyrrþey. Á þeim tíma var trúlofun álitin jafngilda giftingu, og fólk þurfti að skilja til að binda enda á trúlofun.

Jósef er enn að velta þessu fyrir sér þegar hann leggst til svefns. Þá birtist honum engill Jehóva í draumi sem segir við hann: „Jósef, sonur Davíðs, óttastu ekki að taka til þín Maríu, heitkonu þína. Barnið, sem hún gengur með, er af heilögum anda. Hún mun son ala, og hann skaltu láta heita Jesú, því að hann mun frelsa lýð sinn frá syndum þeirra.“

Jósef er innilega þakklátur þegar hann vaknar. Hann gerir tafarlaust eins og engillinn sagði og tekur Maríu inn á heimili sitt. Þessi opinbera athöfn jafngildir giftingu og sýnir öllum að Jósef og María séu formlega gift. En Jósef hefur ekki kynmök við Maríu meðan hún gengur með Jesú.

Sjáðu! María er komin langt á leið en Jósef hefur sett hana upp á asna sinn. Hvert eru þau að fara og hvers vegna eru þau að leggja land undir fót þegar María er að því komin að ala barnið? Lúkas 1:39-41, 56; Matteus 1:18-25; 5. Mósebók 22:23, 24.

▪ Hvað hugsar Jósef þegar hann kemst að raun um að María er barnshafandi, og hvers vegna?

▪ Hvernig getur Jósef skilið við Maríu fyrst þau eru enn ekki gift?

▪ Hvaða opinber athöfn er eins og hjónavígsla fyrir Jósef og Maríu?