Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Örlagaríkur dagur rennur upp

Örlagaríkur dagur rennur upp

Kafli 105

Örlagaríkur dagur rennur upp

JESÚS fer til Betaníu í austurhlíð Olíufjallsins þegar hann yfirgefur Jerúsalem á mánudagskvöldi. Tveir dagar eru liðnir af lokaþjónustu hans í Jerúsalem. Eflaust gistir hann aftur hjá vini sínum Lasarusi um nóttina. Hann kom frá Jeríkó á föstudegi svo að þetta er fjórða nóttin hans í Betaníu.

Árla morguns þriðjudaginn 11. nísan er hann aftur á leið til Jerúsalem ásamt lærisveinunum. Þessi dagur á eftir að reynast örlagaríkur og sá annasamasti í þjónustu Jesú fram til þessa. Þetta er síðasti dagurinn sem hann sýnir sig í musterinu og síðasti dagurinn sem hann prédikar meðal almennings fyrir réttarhöld sín og aftöku.

Jesús og lærisveinarnir fara sömu leið yfir Olíufjallið til Jerúsalem og áður. Pétur kemur auga á fíkjutréð sem Jesús formælti við veginn frá Betaníu morguninn áður. „Rabbí, sjáðu! fíkjutréð, sem þú formæltir, er visnað,“ segir hann.

Af hverju drap Jesús tréð? Það kemur fram í svari hans: „Sannlega segi ég yður: Ef þér eigið trú og efist ekki, getið þér ekki aðeins gjört slíkt sem fram kom við fíkjutréð. Þér gætuð enda sagt við fjall þetta [Olíufjallið sem þeir standa á]: ‚Lyft þér upp, og steyp þér í hafið,‘ og svo mundi fara. Allt sem þér biðjið í bæn yðar, munuð þér öðlast, ef þér trúið.“

Með því að láta fíkjutréð visna er Jesús því að kenna lærisveinunum hve mikilvægt sé að trúa á Guð. Hann segir: „Hvers sem þér biðjið í bæn yðar, þá trúið, að þér hafið öðlast það, og yður mun það veitast.“ Þetta er þýðingarmikill lærdómur, einkum í ljósi þeirra erfiðu prófrauna sem þeir eiga í vændum. En það er líka annað samband milli trúarstaðfestu og fíkjutrésins sem visnaði.

Ísraelsþjóðin villir á sér heimildir líkt og fíkjutréð. Enda þótt þjóðin sé í sáttmálasambandi við Guð og virðist á yfirborðinu halda boð hans hefur hún sýnt að hún hefur enga trú og ber ekki góðan ávöxt. Vegna trúleysis er hún jafnvel í þann mund að hafna Guðs eigin syni! Með því að láta ófrjóa fíkjutréð visna er Jesús að sýna skýrt og greinilega fram á hvernig fari að lokum fyrir þessari trúlausu þjóð sem engan ávöxt ber.

Stuttu síðar eru Jesús og lærisveinarnir komnir til Jerúsalem og halda eins og venjulega til musterisins þar sem Jesús tekur að kenna. Æðstuprestarnir og öldungarnir skora á hann, eflaust minnugir þess sem hann gerði daginn áður gagnvart víxlurunum: „Með hvaða valdi gjörir þú þetta? Hver gaf þér þetta vald?“

Jesús svarar: „Ég vil og leggja eina spurningu fyrir yður. Ef þér svarið mér, mun ég segja yður, með hvaða valdi ég gjöri þetta. Hvaðan var skírn Jóhannesar? Frá himni eða frá mönnum?“

Prestarnir og öldungarnir ráðgast hver við annan hvernig þeir eigi að svara. „Ef vér svörum: ‚Frá himni,‘ spyr hann: ‚Hví trúðuð þér honum þá ekki?‘ Ef vér segjum: ‚Frá mönnum,‘ megum vér óttast lýðinn, því að allir telja Jóhannes spámann.“

Leiðtogarnir vita ekki hverju þeir eiga að svara svo þeir segja: „Vér vitum það ekki.“

Jesús svarar þá: „Ég segi yður þá ekki heldur, með hvaða valdi ég gjöri þetta.“ Matteus 21:19-27; Markús 11:19-33; Lúkas 20:1-8.

▪ Hvað er sérstakt við þriðjudaginn 11. nísan?

▪ Hvað er Jesús að kenna með því að láta fíkjutréð visna?

▪ Hvernig svarar Jesús þeim sem spyrja með hvaða valdi hann geri það sem hann gerir?