Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þeim mistekst að handtaka hann

Þeim mistekst að handtaka hann

Kafli 67

Þeim mistekst að handtaka hann

TRÚARLEIÐTOGARNIR senda lögregluþjóna til að handtaka Jesú meðan laufskálahátíðin stendur yfir. Hann heldur áfram að kenna opinberlega og reynir ekki að fela sig. „Enn verð ég hjá yður skamma stund,“ segir hann, „og þá fer ég aftur til þess, sem sendi mig. Þér munuð leita mín og eigi finna. Þér getið ekki komist þangað sem ég er.“

Gyðingarnir skilja þetta ekki og segja sín á milli: „Hvert skyldi hann ætla að fara, svo að vér finnum hann ekki? Hann ætlar þó ekki að fara til Gyðinga, sem dreifðir eru meðal Grikkja og kenna Grikkjum? Hvað var hann að segja: ‚Þér munuð leita mín og eigi finna, og þér getið ekki komist þangað sem ég er‘?“ Jesús er auðvitað að tala um komandi dauða sinn og upprisu til lífs á himnum þangað sem óvinir hans geta ekki elt hann.

Sjöundi og síðasti dagur hátíðarinnar rennur upp. Á hverjum morgni hátíðarinnar hefur prestur hellt niður vatni úr Sílóamlaug þannig að það renni að grunni altarisins. Jesús er líklega að minna fólk á þessa daglegu athöfn þegar hann kallar: „Ef nokkurn þyrstir, þá komi hann til mín og drekki. Sá sem trúir á mig, — frá hjarta hans munu renna lækir lifandi vatns, eins og ritningin segir.“

Jesús er reyndar að tala um stórkostlegar afleiðingar þess að heilögum anda verður úthellt. Það gerist árið eftir á hvítasunnunni. Þá streymir fram lifandi vatn þegar 120 lærisveinar taka að kenna mannfjöldanum. En þangað til er enginn andi gefinn í þeim skilningi að enginn af lærisveinum Krists er smurður heilögum anda og kallaður til lífs á himnum.

Sumir segja þegar þeir heyra Jesú kenna: „Þessi er sannarlega spámaðurinn“ og eiga þá greinilega við spámanninn meiri en Móse sem koma átti. Aðrir segja: „Hann er Kristur.“ En sumir mótmæla: „Mundi Kristur þá koma frá Galíleu? Hefur ekki ritningin sagt, að Kristur komi af kyni Davíðs og frá Betlehem, þorpinu þar sem Davíð var?“

Menn greinir á um Jesú. Sumir vilja láta handtaka hann en enginn leggur hendur á hann. Þegar lögregluþjónarnir snúa aftur tómhentir spyrja æðstu prestarnir og farísearnir: „Hvers vegna komuð þér ekki með hann?“

„Aldrei hefur nokkur maður talað þannig,“ svara þeir.

Trúarleiðtogarnir eru ævareiðir, gera gys að lögregluþjónunum, skamma þá og rangfæra staðreyndir. Þeir segja hæðnislega: „Létuð þér þá einnig leiðast afvega? Ætli nokkur af höfðingjunum hafi farið að trúa á hann, eða þá af faríseum? Þessi almúgi, sem veit ekkert í lögmálinu, hann er bölvaður!“

Þá tekur Nikódemus til máls og vogar sér að tala máli Jesú, en hann er farísei og ráðsherra meðal Gyðinga (það er að segja á sæti í æðstaráðinu). Þú manst kannski að tveim og hálfu ári áður kom hann til Jesú að næturlagi og lét í ljós trú á hann. Nikódemus segir: „Mundi lögmál vort dæma mann, nema hann sé yfirheyrður áður og að því komist, hvað hann hefur aðhafst?“

Farísearnir reiðast enn meir við það að einn úr þeirra hópi skuli verja Jesú. „Ert þú nú líka frá Galíleu?“ segja þeir meinlega. „Gáðu að og sjáðu, að enginn spámaður kemur úr Galíleu.“

Enda þótt Ritningin segi ekki beint að spámaður skuli koma frá Galíleu bendir hún á að Kristur komi þaðan þegar hún segir að „mikið ljós“ skuli sjást þar um slóðir. Auk þess fæddist Jesús í Betlehem og er afkomandi Davíðs. Farísearnir vita það sennilega en að öllum líkindum hafa þeir breitt út þær ranghugmyndir sem menn hafa um Jesú. Jóhannes 7:32-52; Jesaja 9:1, 2; Matteus 4:13-17.

▪ Hvað er gert á hverjum morgni hátíðarinnar og hvernig vekur Jesús líklega athygli á því?

▪ Af hverju handtaka lögregluþjónarnir ekki Jesú og hvernig bregðast trúarleiðtogarnir við því?

▪ Hver er Nikódemus, hvernig lítur hann á Jesú og hvernig koma hinir farísearnir fram við hann?

▪ Hvaða rök eru fyrir því að Kristur eigi að koma frá Galíleu?