Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þeim tekst ekki að veiða Jesú í orðum

Þeim tekst ekki að veiða Jesú í orðum

Kafli 108

Þeim tekst ekki að veiða Jesú í orðum

FARÍSEARNIR eru ævareiðir yfir því að Jesús skuli hafa verið að kenna í musterinu, en hann er nýbúinn að segja trúarlegum óvinum sínum þrjár dæmisögur sem afhjúpa illsku þeirra. Þeir taka því saman ráð sín hvernig þeir geti fengið hann til að segja eitthvað sem hægt sé að handtaka hann fyrir og þeir senda lærisveina sína ásamt Heródesarsinnum til að leggja gildru fyrir hann.

„Meistari,“ segja þeir, „vér vitum, að þú ert sannorður og kennir Guðs veg í sannleika, þú hirðir ekki um álit neins, enda gjörir þú þér engan mannamun. Seg oss því, hvað þér líst? Leyfist að gjalda keisaranum skatt eða ekki?“

Jesús lætur ekki blekkjast af fagurgala þeirra. Hann veit að ef hann svarar: ‚Nei það er óleyfilegt eða rangt að gjalda þennan skatt,‘ þá gerir hann sig sekan um undirróður gegn Róm. En ef hann segir: ‚Já, það á að greiða skattinn,‘ þá kallar hann yfir sig hatur Gyðinga sem hafa andstyggð á kúgun Rómar. Hann svarar þess vegna: „Hví freistið þér mín, hræsnarar? Sýnið mér peninginn, sem goldinn er í skatt.“

Þeir færa honum pening og hann spyr: „Hvers mynd og yfirskrift er þetta?“

„Keisarans,“ svara þeir.

„Gjaldið þá keisaranum það, sem keisarans er, og Guði það, sem Guðs er.“ Mennirnir undrast snilldarsvar Jesú og ganga burt.

Þegar saddúkear, sem neita að upprisa sé til, sjá að faríseunum mistekst að finna nokkuð gegn Jesú koma þeir að máli við hann og spyrja: „Meistari, Móse segir: ‚Deyi maður barnlaus, þá skal bróðir hans ganga að eiga konu bróður síns og vekja honum niðja.‘ Hér voru með oss sjö bræður. Sá fyrsti kvæntist og dó. Hann átti engan niðja og eftirlét því bróður sínum konuna. Eins varð um næsta og þriðja og þá alla sjö. Síðast allra dó konan. Kona hvers þeirra sjö verður hún í upprisunni? Allir höfðu þeir átt hana.“

Jesús svarar: „Er það ekki þetta, sem veldur því, að þér villist: Þér þekkið ekki ritningarnar né mátt Guðs? Þegar menn rísa upp frá dauðum, kvænast þeir hvorki né giftast. Þeir eru sem englar á himnum. En um þá dauðu, að þeir rísa upp, hafið þér ekki lesið það í bók Móse, í sögunni um þyrnirunninn? Guð segir við Móse: ‚Ég er Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.‘ Ekki er hann Guð dauðra heldur lifenda. Þér villist stórlega.“

Enn á ný undrast mannfjöldinn svar Jesú. Jafnvel nokkrir fræðimenn viðurkenna: „Vel mælt, meistari.“

Þegar farísearnir komast að raun um að Jesús hefur gert saddúkeana orðlausa koma þeir til hans í einum hóp. Til að reyna hann enn frekar spyr einn fræðimaður úr hópnum: „Meistari, hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?“

Jesús svarar: „Æðst er þetta: ‚Heyr, Ísrael! [Jehóva], Guð vor, hann einn er [Jehóva]. Og þú skalt elska [Jehóva], Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.‘ Annað er þetta: ‚Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.‘ Ekkert boðorð annað er þessum meira.“ Hann bætir við: „Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“

„Rétt er það, meistari,“ samsinnir fræðimaðurinn, „satt sagðir þú, að einn er hann og enginn er annar en hann. Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira.“

Jesús heyrir að fræðimaðurinn svarar viturlega og segir honum: „Þú ert ekki fjarri Guðs ríki.“

Jesús hefur nú kennt í musterinu í þrjá daga — sunnudag, mánudag og þriðjudag. Fólkið hefur hlustað á hann með ánægju en trúarleiðtogarnir vilja drepa hann en hefur ekki tekist það enn. Matteus 22:15-40; Markús 12:13-34; Lúkas 20:20-40.

▪ Hvernig reyna farísearnir að veiða Jesú í orðum og hvaða afleiðingar hefði það ef hann svaraði játandi eða neitandi?

▪ Hvernig ónýtir Jesús tilraunir saddúkeanna til að veiða hann í orðum?

▪ Hvernig reyna farísearnir enn að leiða Jesú í gildru og hvernig fer?

▪ Hve marga daga kennir Jesús í musterinu á þessari síðustu ferð sinni til Jerúsalem og með hvaða árangri?