Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þriðja boðunarferðin um Galíleu

Þriðja boðunarferðin um Galíleu

Kafli 49

Þriðja boðunarferðin um Galíleu

ÆTLI Jesús fari að slaka á og taka lífinu með ró eftir hér um bil tveggja ára öfluga prédikun? Alls ekki, heldur eykur hann prédikunarstarfið með því að leggja upp í enn eina boðunarferð, þá þriðju um Galíleu. Hann fer um allar borgir og þorp á svæðinu, kennir í samkundunum og prédikar fagnaðarerindið um ríkið. Það sem hann sér á þessari ferð sannfærir hann enn betur um þörfina á því að efla prédikunarstarfið.

Hvarvetna sér Jesús fólk sem þarfnast andlegrar lækningar og hughreystingar. Það er hrjáð og umkomulaust eins og sauðir án hirðis, og hann kennir í brjósti um það. Hann segir lærisveinunum: „Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir. Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“

Jesús hefur gert starfsáætlun. Hann kallar til sín postulana tólf sem hann valdi fyrir næstum ári og skiptir þeim niður svo að tveir og tveir starfi saman. Hann gefur þeim eftirfarandi fyrirmæli: „Haldið ekki til heiðinna manna og farið ekki í samverska borg. Farið heldur til týndra sauða af Ísraelsætt. Farið og prédikið: ‚Himnaríki er í nánd.‘“

Þetta himnaríki, sem þeir eiga að prédika, er ríkið sem Jesús kenndi þeim að biðja um í fyrirmyndarbæninni. Það er í nánd í þeim skilningi að tilnefndur konungur Guðs, Jesús Kristur, er nærstaddur. Jesús gefur lærisveinunum mátt til að lækna sjúka og jafnvel að reisa upp dána til að staðfesta að þeir séu fulltrúar þessarar ofurmannlegu stjórnar. Hann segir þeim að veita þessa þjónustu ókeypis.

Lærisveinarnir eiga ekki að taka með sér neinar vistir eða fé til fararinnar. „Takið ekki gull, silfur né eir í belti,“ segir hann, „eigi mal til ferðar eða tvo kyrtla og hvorki skó né staf. Verður er verkamaðurinn fæðis síns.“ Þeir sem kunna að meta boðskapinn munu sjá þeim fyrir fæði og húsaskjóli. Eins og Jesús segir: „Hvar sem þér komið í borg eða þorp, spyrjist þá fyrir um, hver þar sé verðugur, og þar sé aðsetur yðar, uns þér leggið upp að nýju.“

Jesús segir þeim síðan hvernig þeir eigi að koma boðskapnum um ríkið á framfæri við fólk: „Þegar þér komið í hús, þá árnið því góðs, og sé það verðugt, skal friður yðar koma yfir það, en sé það ekki verðugt, skal friður yðar aftur hverfa til yðar. Og taki einhver ekki við yður né hlýði á orð yðar, farið þá úr því húsi eða þeirri borg og hristið dustið af fótum yðar.“

Jesús segir að harður dómur bíði þeirrar borgar sem hafni boðskap þeirra: „Bærilegra mun landi Sódómu og Gómorru á dómsdegi en þeirri borg.“ Matteus 9:35–10:15; Markús 6: 6-12; Lúkas 9:1-5.

▪ Hvenær hefur Jesús þriðju boðunarferðina um Galíleu og hvað sannfærist hann um?

▪ Hvaða fyrirmæli gefur Jesús postulunum tólf þegar hann sendir þá út að prédika?

▪ Hvers vegna er rétt af lærisveinunum að kenna að himnaríki sé í nánd?