Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Aftur í musterinu

Aftur í musterinu

Kafli 103

Aftur í musterinu

JESÚS og lærisveinarnir hafa verið þrjár nætur í Betaníu eftir komuna frá Jeríkó. Þeir eru nú á leið til Jerúsalem í morgunskímunni mánudaginn 10. nísan. Jesús er svangur. Hann kemur auga á laufgað fíkjutré og gengur að því til að gá hvort hann finni fíkjur.

Tréð hefur laufgast langt fyrir tímann því að fíkjutíminn er ekki fyrr en í júní en þetta er að áliðnum marsmánuði. En Jesús álítur greinilega að fíkjurnar ættu að vera snemma á ferðinni fyrst laufið er það. Hann verður fyrir vonbrigðum. Tréð villir á sér heimildir með laufinu. Jesús formælir því trénu og segir: „Enginn neyti framar ávaxtar af þér að eilífu!“ Morguninn eftir sést hvaða afleiðingar orð hans hafa og hvað það þýðir.

Jesús og lærisveinarnir halda áfram för sinni og koma til Jerúsalem skömmu síðar. Hann gengur í musterið sem hann hafði skoðað síðdegis daginn áður. En núna lætur hann hendur standa fram úr ermum líkt og hann gerði þrem árum áður þegar hann kom til páskahátíðarinnar árið 30. Jesús rekur út þá sem selja og kaupa í musterinu og hrindir um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna. Hann leyfir ekki einu sinni að nokkur beri nokkuð um musterið.

Hann fordæmir þá sem víxla peningum eða selja dýr í musterinu og segir: „Er ekki ritað: ‚Hús mitt á að vera bænahús fyrir allar þjóðir?‘ En þér hafið gjört það að ræningjabæli.“ Þeir eru ræningjar af því að þeir heimta okurverð af þeim sem eiga um lítið annað að velja en að kaupa af þeim dýr til fórnar. Jesús lítur því á þessi viðskipti sem nokkurs konar fjárkúgun eða rán.

Þegar æðstuprestarnir, fræðimennirnir og fyrirmenn þjóðarinnar frétta hvað Jesús hefur gert leita þeir aftur leiða til að láta drepa hann. Þar með sanna þeir að þeir séu óforbetranlegir. En þeir finna enga leið til að ryðja Jesú úr vegi því að fólkið eltir hann á röndum til að heyra hann tala.

Auk innfæddra Gyðinga eru menn af öðrum þjóðum komnir til að halda páska. Þetta eru trúskiptingar sem merkir að þeir hafa tekið Gyðingatrú. Nokkrir Grikkir, greinilega trúskiptingar, koma nú að máli við Filippus og biðja um að fá að sjá Jesú. Filippus fer til Andrésar, kannski til að spyrja hvort það sé viðeigandi að koma á slíkum fundi. Jesús er greinilega enn í musterinu þar sem Grikkirnir geta séð hann.

Jesús veit að hann á aðeins fáeina daga ólifaða svo að hann lýsir stöðu sinni með góðu dæmi: „Stundin er komin, að Mannssonurinn verði gjörður dýrlegur. Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr, verður það áfram eitt. En ef það deyr, ber það mikinn ávöxt.“

Eitt hveitikorn er lítils virði. En hvað gerist ef því er sáð í jörð og það „deyr“ með því að ljúka ævinni sem fræ? Það spírar og loks vex upp af því stöngull sem ber mörg hveitikorn. Jesús er aðeins einn fullkominn maður, en ef hann deyr trúfastur Guði opnar hann trúföstum mönnum leiðina til eilífs lífs, þeim sem sýna sömu fórnfýsi og hann. Þess vegna segir hann: „Sá sem elskar líf sitt, glatar því, en sá sem hatar líf sitt í þessum heimi, mun varðveita það til eilífs lífs.“

Jesús er greinilega ekki að hugsa aðeins um sjálfan sig því hann heldur áfram: „Sá sem þjónar mér, fylgi mér eftir, og hvar sem ég er, þar mun og þjónn minn vera. Þann sem þjónar mér, mun faðirinn heiðra.“ Hvílík umbun fyrir að fylgja Jesú og þjóna honum! Faðirinn heiðrar þá með því að leyfa þeim að vera með Kristi í ríkinu.

Jesús er með hugann við hinar miklu þjáningar og kvalafulla dauða sem bíður hans og bætir við: „Nú er sál mín skelfd, og hvað á ég að segja? Faðir, frelsa mig frá þessari stundu?“ Það væri óskandi að hann gæti umflúið það sem bíður hans! En svo er ekki og hann segir: „Til þessa er ég kominn að þessari stundu.“ Jesús er sammála fyrirkomulagi Guðs í heild, meðal annars fórnardauða sínum. Matteus 21:12, 13, 18, 19; Markús 11:12-18; Lúkas 19:45-48; Jóhannes 12:20-27.

▪ Af hverju reiknar Jesús með að finna fíkjur utan fíkjutímans?

▪ Hvers vegna kallar Jesús þá ‚ræningja‘ sem selja í musterinu?

▪ Á hvaða hátt er Jesús eins og hveitikorn sem deyr?

▪ Hvernig lítur Jesús á þjáningarnar og dauðann sem bíður hans?