Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Aftur reynt að drepa Jesú

Aftur reynt að drepa Jesú

Kafli 81

Aftur reynt að drepa Jesú

NÚ ER kominn vetur og Jesús er á gangi um yfirbyggt svæði meðfram musterinu er kallast súlnagöng Salómons. Þar safnast Gyðingar kringum hann og segja: „Hve lengi lætur þú oss í óvissu? Ef þú ert Kristur, þá seg oss það berum orðum.“

„Ég hef sagt yður það, en þér trúið ekki,“ svarar Jesús. Hann hefur ekki sagt þeim beint að hann sé Kristur eins og hann sagði samversku konunni við brunninn. Samt var hann í raun búinn að segja hver hann væri þegar hann útskýrði fyrir þeim að hann væri ofan að og hefði verið til á undan Abraham.

Jesús vill hins vegar að fólk dragi sjálft þá ályktun að hann sé Kristur, með því að bera saman verk hans og það sem Biblían sagði fyrir að Kristur ætti að gera. Þess vegna hafði hann áður lagt ríkt á við lærisveinana að segja engum að hann væri Kristur. Og það er þess vegna sem hann segir við þessa fjandsamlegu Gyðinga: „Verkin, sem ég gjöri í nafni föður míns, þau vitna um mig, en þér trúið ekki.“

Af hverju trúa þeir ekki? Skortir sannanir fyrir því að Jesús sé Kristur? Nei, Jesús segir hver ástæðan er: „Þér eruð ekki úr hópi sauða minna. Mínir sauðir heyra raust mína, og ég þekki þá, og þeir fylgja mér. Ég gef þeim eilíft líf, og þeir skulu aldrei að eilífu glatast, og enginn skal slíta þá úr hendi minni. Faðir minn, sem hefur gefið mér þá, er meiri en allir, og enginn getur slitið þá úr hendi föðurins.“

Jesús lýsir síðan nánu sambandi sínu við föðurinn og segir: „Ég og faðirinn erum eitt.“ Þar eð Jesús er á jörðinni og faðir hans á himnum er hann greinilega ekki að segja að hann og faðirinn séu bókstaflega og líkamlega eitt. Hann á við það að þeir séu eitt í tilgangi, að þeir séu sameinaðir.

Gyðingarnir reiðast Jesú fyrir það sem hann segir og taka upp steina til að grýta hann eins og þeir höfðu gert á laufskálahátíðinni. Jesús horfist hugrakkur í augu við Gyðingana sem ætla að drepa hann og segir: „Ég hef sýnt yður mörg góð verk frá föður mínum. Fyrir hvert þeirra verka viljið þér grýta mig?“

„Vér grýtum þig ekki fyrir góð verk,“ svara þeir, „heldur fyrir guðlast, að þú, sem ert maður, gjörir sjálfan þig að Guði.“ Hvers vegna segja Gyðingarnir þetta fyrst Jesús hefur aldrei sagst vera guð?

Það er greinilega vegna þess að Jesús eignar sjálfum sér vald sem þeir telja að Guð einn hafi. Til dæmis er hann rétt búinn að segjast munu ‚gefa sauðunum eilíft líf‘ sem enginn maður getur gert. En Gyðingunum yfirsést sú staðreynd að Jesús segist fá vald sitt frá föður sínum.

Til að sýna fram á að hann sé Guði lægri spyr hann: „Er ekki skrifað í lögmáli yðar [í Sálmi 82:6]: ‚Ég hef sagt: Þér eruð guðir‘? Ef það nefnir þá guði, sem Guðs orð kom til, . . . segið þér þá við mig, sem faðirinn helgaði og sendi í heiminn, að ég guðlasti, af því ég sagði: ‚Ég er sonur Guðs‘?“

Hvernig geta þessir Gyðingar fundið að því að Jesús skuli segjast vera „sonur Guðs“ fyrst Ritningin kallar jafnvel rangláta, mennska dómara ‚guði‘? Jesús bætir við: „Ef ég vinn ekki verk föður míns, trúið mér þá ekki, en ef ég vinn þau, þá trúið verkunum, þótt þér trúið mér ekki, svo að þér skiljið og vitið, að faðirinn er í mér og ég í föðurnum.“

Þegar Jesús segir þetta reyna Gyðingar aftur að grípa hann, en hann kemst undan eins og hann gerði á laufskálahátíðinni. Hann fer frá Jerúsalem yfir um Jórdan þangað sem Jóhannes hafði verið að skíra næstum fjórum árum áður. Staðurinn er líklega skammt frá suðurströnd Galíleuvatns, um tvær dagleiðir frá Jerúsalem.

Margir koma þangað til Jesú og segja við hann: „Víst gjörði Jóhannes ekkert tákn, en allt er það satt, sem hann sagði um þennan mann.“ Margir taka því trú á Jesú á þessum stað. Jóhannes 10:22-42; 4:26; 8:23, 58; Matteus 16:20.

▪ Hvernig vill Jesús að fólk komist að raun um að hann sé Kristur?

▪ Hvernig eru Jesús og faðir hans eitt?

▪ Hver er greinilega ástæðan fyrir því að Gyðingar segja að Jesús sé að gera sig að guði?

▪ Hvernig sýnir tilvitnun Jesú í Sálmana að hann segist ekki vera jafn Guði?