Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Angist í garðinum

Angist í garðinum

Kafli 117

Angist í garðinum

EFTIR að Jesús hefur beðið bænar syngur hann lofsöng til Jehóva ásamt ellefu trúföstum postulum sínum. Þeir yfirgefa svo loftsalinn, fara út í svala og myrka nóttina og ganga þvert yfir Kedrondal í átt til Betaníu. En á leiðinni koma þeir við á stað sem er þeim kær, Getsemanegarðinum sem er á Olíufjallinu eða við rætur þess. Jesús og postularnir hafa oft hist þar inn á milli olíutrjánna.

Hann skilur átta af postulunum eftir, kannski við innganginn í garðinn, og segir þeim: „Setjist hér, meðan ég fer og biðst fyrir þarna.“ Hinir þrír — Pétur, Jakob og Jóhannes — fara með honum lengra inn í garðinn. Mikla hryggð og angist setur nú að Jesú. „Sál mín er hrygg allt til dauða,“ segir hann þeim. „Bíðið hér og vakið með mér.“

Jesús gengur lítið eitt áfram, fellur fram með andlitið til jarðar og biður innilega: „Faðir minn, ef verða má, þá fari þessi kaleikur fram hjá mér. Þó ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt.“ Hvað á hann við? Af hverju er hann ‚hryggur allt til dauða‘? Er hann að guggna á því að deyja og greiða lausnargjaldið?

Alls ekki! Jesús er ekki að biðja um að komast hjá dauða. Jafnvel tilhugsunin að koma sér undan því að deyja fórnardauða, eins og Pétur stakk einu sinni upp á, er honum ógeðfelld. Angist hans stafar af því að hann óttast að dauði hans — eins og fyrirlitlegs glæpamanns — kasti rýrð á nafn föður hans. Hann veit að eftir fáeinar klukkustundir verður hann hengdur upp á staur eins og versti afbrotamaður — guðlastari! Það er þetta sem veldur honum angist.

Eftir alllanga bæn kemur Jesús aftur til postulanna þriggja og finnur þá sofandi. Hann segir við Pétur: „Þér gátuð þá ekki vakað með mér eina stund? Vakið og biðjið, að þér fallið ekki í freistni.“ En sökum þess hve framorðið er og álagið á þeim hefur verið mikið segir hann: „Andinn er reiðubúinn, en holdið veikt.“

Jesús fer afsíðis í annað sinn og biður Guð að taka „þennan kaleik“ frá sér, það er að segja það hlutskipti sem Guð hefur falið honum. Hann kemur aftur til postulanna þriggja og finnur þá sofandi þótt þeir ættu að vera að biðja þess að falla ekki í freistni. Þeir vita ekki hvað segja skal þegar Jesús talar við þá.

Jesús fer nú í þriðja sinn steinsnar frá þeim, krýpur og biðst fyrir með sárum kveinstöfum og tárum: „Faðir, ef þú vilt, þá tak þennan kaleik frá mér!“ Jesús finnur til nístandi sársauka vegna þeirrar smánar sem það kallar yfir nafn föður hans að hann skuli eiga að deyja eins og glæpamaður. Að vera ákærður fyrir guðlast — að formæla Guði — er næstum óbærileg tilhugsun!

Samt sem áður biður Jesús áfram: „Þó ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt.“ Jesús beygir sig fúslega undir vilja Guðs. Þá birtist honum engill af himni sem styrkir hann með nokkrum hughreystingarorðum. Trúlega segir engillinn honum að hann njóti velþóknunar föður síns.

En það er þung byrði sem hvílir á Jesú! Eilíft líf hans sjálfs og alls mannkyns er í húfi. Tilfinningaálagið er gífurlegt. Hann biðst því enn ákafar fyrir og sviti hans verður eins og blóðdropar sem falla á jörðina. „Þótt blóðsviti . . . sé afar sjaldgæft fyrirbrigði getur hann brotist fram undir gríðarlegu tilfinningaálagi,“ segir tímaritið The Journal of the American Medical Association.

Jesús kemur nú að postulunum sofandi í þriðja sinn. Þeir eru örmagna af hryggð. „Sofið þér enn og hvílist?“ segir hann. „Nú er nóg. Stundin er komin. Mannssonurinn er framseldur í hendur syndugra manna. Standið upp, förum! Sá er í nánd, er mig svíkur.“

Hann er enn að tala þegar Júdas Ískaríot kemur ásamt fjölmennum flokki manna með blys, lampa og vopn. Matteus 26:30, 36-47; 16:21-23; Markús 14:26, 32-43; Lúkas 22:39-47; Jóhannes 18:1-3; Hebreabréfið 5:7.

▪ Hvert fer Jesús með postulunum þegar þeir yfirgefa loftsalinn, og hvað gerir hann þar?

▪ Hvað gera postularnir meðan Jesús biðst fyrir?

▪ Af hverju er Jesús angistarfullur og um hvað biður hann Guð?

▪ Hvað má ráða af því að sviti Jesú skuli vera eins og blóðdropar?