Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Auðmýkt við síðustu páskana

Auðmýkt við síðustu páskana

Kafli 113

Auðmýkt við síðustu páskana

PÉTUR og Jóhannes eru komnir til Jerúsalem til að undirbúa páskahaldið eins og Jesús fól þeim. Sjálfur kemur hann síðar um daginn, eflaust með hinum postulunum tíu. Sólin er að hníga til viðar þegar Jesús og föruneyti hans ganga ofan af Olíufjallinu. Þetta er í síðasta sinn sem hann sér borgina af þessu fjalli að degi til fyrir upprisu sína.

Skömmu síðar er Jesús kominn inn í borgina ásamt félögum sínum og þeir ganga sem leið liggur til hússins þar sem þeir ætla að halda páska. Þeir ganga upp stigann að stóra loftsalnum þar sem allt er til reiðu fyrir þá til að halda páska einir saman. Jesús hefur hlakkað mjög til þessarar stundar eins og hann segir: „Hjartanlega hef ég þráð að neyta þessarar páskamáltíðar með yður, áður en ég líð.“

Siður er að drekka fjóra vínbikara við páskamáltíðina. Það er líklega eftir að Jesús hefur tekið við þriðja bikarnum sem hann færir þakkir og segir: „Takið þetta og skiptið með yður. Því ég segi yður: Héðan í frá mun ég eigi drekka af ávexti vínviðarins, fyrr en Guðs ríki kemur.“

Einhvern tíma meðan máltíðin stendur yfir rís Jesús á fætur, leggur frá sér yfirhöfnina, tekur handklæði og fyllir þvottaskál með vatni. Að öllu jöfnu er það gestgjafinn sem sér um að þvo fætur gesta. En nú er enginn gestgjafi viðstaddur svo að Jesús veitir þessa persónulegu þjónustu sjálfur. Hver sem er af postulunum hefði getað gripið tækifærið og gert þetta, en enginn gerir það, trúlega vegna þess að enn er einhver samkeppni milli þeirra. Nú verða þeir skömmustulegir þegar Jesús fer að þvo fætur þeirra.

Pétur mótmælir þegar röðin kemur að honum: „Aldrei að eilífu skaltu þvo fætur mína.“

„Ef ég þvæ þér ekki, áttu enga samleið með mér,“ segir Jesús.

„Herra, ekki aðeins fætur mína, líka hendurnar og höfuðið,“ svarar Pétur þá.

„Sá sem laugast hefur, þarf ekki að þvost nema um fætur,“ segir Jesús. „Hann er allur hreinn. Og þér eruð hreinir, þó ekki allir.“ Þetta segir hann af því að hann veit að Júdas Ískaríot hyggst svíkja hann.

Þegar Jesús hefur þvegið fætur tólfmenninganna, þar á meðal fætur Júdasar, svikara síns, fer hann aftur í yfirhöfnina og leggst að borði. Síðan spyr hann: „Skiljið þér, hvað ég hef gjört við yður? Þér kallið mig meistara og herra, og þér mælið rétt, því það er ég. Fyrst ég, sem er herra og meistari, hef nú þvegið yður um fæturna, þá ber yður einnig að þvo hver annars fætur. Ég hef gefið yður eftirdæmi, að þér breytið eins og ég breytti við yður. Sannlega, sannlega segi ég yður: Þjónn er ekki meiri en herra hans né sendiboði meiri þeim, er sendi hann. Þér vitið þetta, og þér eruð sælir, ef þér breytið eftir því.“

Þetta er fögur lexía í auðmýkt! Postularnir eiga ekki að sækjast eftir því að vera fremstir, ímynda sér að þeir séu svo merkilegir að aðrir eigi alltaf að þjóna þeim. Þeir þurfa að fylgja fordæmi Jesú. Hér er ekki um að ræða trúarlegan fótaþvott heldur vilja til að taka að sér hvaða verkefni sem er, hversu lítilmótlegt eða óþægilegt sem það kann að vera. Matteus 26:20, 21; Markús 14:17, 18; Lúkas 22:14-18; 7:44; Jóhannes 13:1-17.

▪ Hvað er sérstakt við aðkomu Jesú að borginni til að halda páska?

▪ Hvaða bikar lætur Jesús líklega ganga milli postulanna tólf eftir að hann færir þakkir?

▪ Hvaða persónulega þjónustu var venja að veita gestum á tímum Jesú, en hvers vegna var hún ekki veitt þegar hann hélt páska með postulum sínum?

▪ Í hvaða tilgangi veitti Jesús þá lítilmótlegu þjónustu að þvo fætur postula sinna?