Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Barnið fyrirheitna

Barnið fyrirheitna

Kafli 6

Barnið fyrirheitna

JÓSEF og María dveljast áfram í Betlehem í stað þess að snúa aftur heim til Nasaret. Og þegar Jesús er átta daga gamall láta þau umskera hann eins og kveðið er á um í Móselögunum. Ljóst er að það var líka venja að gefa drengjum nafn á áttunda degi. Þau nefna drenginn Jesú eins og engillinn Gabríel hafði mælt fyrir um.

Meira en mánuður líður og Jesús er orðinn 40 daga. Hvert fara foreldrar hans með hann núna? Til musterisins í Jerúsalem sem er aðeins nokkurra kílómetra leið frá dvalarstað þeirra. Samkvæmt lögmáli Guðs á móðir að færa hreinsunarfórn í musterinu 40 dögum eftir að hún elur son.

María gerir það og færir tvo smáfugla að fórn. Það segir okkur sitthvað um fjárhag Jósefs og Maríu. Lögmál Móse kveður á um að fórna skuli ungum hrút sem er auðvitað miklu verðmætari en tveir fuglar. En hefði móðirin ekki efni á því nægðu tvær turtildúfur eða tvær dúfur.

Í musterinu er gamall maður sem tekur Jesú í faðm sér. Hann heitir Símeon. Jehóva Guð hefur opinberað honum að hann deyi ekki fyrr en hann hafi séð hinn fyrirheitna Krist eða Messías. Þegar Símeon kemur í musterið þennan dag leiðir heilagur andi hann til barnsins sem Jósef og María halda á.

Símeon þakkar Guði með Jesú í fanginu og segir: „Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara, eins og þú hefur heitið mér, því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt, sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða, ljós til opinberunar heiðingjum og til vegsemdar lýð þínum Ísrael.“

Jósef og María undrast er þau heyra þetta. Síðan blessar Símeon þau og segir Maríu að sonur hennar sé „settur til falls og til viðreisnar mörgum í Ísrael“ og bætir við að sjálf verði hún sverði níst í sálu sinni af sorg.

Þarna er einnig stödd spákonan Anna sem er 84 ára. Reyndar er hún öllum stundum í musterinu. Hún nálgast á sömu stundu og tekur að þakka Guði og tala um Jesú við alla sem heyra vilja.

Jósef og María gleðjast mjög yfir þessum atburðum í musterinu. Allt staðfestir þetta fyrir þeim að barnið sé sá sem Guð hafði fyrirheitið. Lúkas 2:21-38; 3. Mósebók 12:1-8.

▪ Hvenær var greinilega venja að gefa ísraelskum drengjum nafn?

▪ Hvað þurfti ísraelsk móðir að gera þegar sonur hennar var 40 daga gamall, og hvað getum við ráðið um fjárhag Maríu af því hvernig hún uppfyllir þetta ákvæði?

▪ Hverjir bera kennsl á Jesú við þetta tækifæri og með hvaða hætti?