Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Brauðið og súrdeigið

Brauðið og súrdeigið

Kafli 58

Brauðið og súrdeigið

MIKILL mannfjöldi hefur flykkst til Jesú í Dekapólis sem er að mestu leyti byggt fólki af þjóðunum. Margir eru komnir langan veg til að hlýða á hann og fá lækningu meina sinna. Þeir hafa tekið með sér stórar körfur undir vistir eins og venja er þegar ferðast er um lönd heiðingja.

Jesús kallar nú á lærisveinana og segir: „Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Þeir hafa nú hjá mér verið þrjá daga og hafa ekkert til matar. Láti ég þá fara fastandi heim til sín, örmagnast þeir á leiðinni, en sumir þeirra eru langt að.“

„Hvar er hægt að fá brauð til að metta þetta fólk hér í óbyggðum?“ spyrja lærisveinarnir.

Jesús spyr þá: „Hve mörg brauð hafið þér?“

„Sjö, og fáeina smáfiska,“ svara þeir.

Jesús segir fólkinu nú að setjast á jörðina, tekur brauðin og fiskana, biður til Guðs, brýtur þau og gefur lærisveinunum. Þeir bera síðan fólkinu og allir borða nægju sína. Þegar leifarnar eru teknar saman fylla þær sjö körfur, þótt um 4000 karlmenn hafi matast, auk kvenna og barna!

Jesús lætur mannfjöldann fara, fer um borð í bát með lærisveinunum og siglir yfir á vesturströnd Galíleuvatns. Þar reyna farísear og menn af sértrúarflokki saddúkea að freista Jesú með því að biðja hann að sýna sér tákn af himni.

Jesús veit að þeir eru að reyna að freista hans og svarar: „Að kvöldi segið þér: ‚Það verður góðviðri, því að roði er á lofti.‘ Og að morgni: ‚Illviðri í dag, himinninn er rauður og þungbúinn.‘ Útlit loftsins kunnið þér að ráða, en ekki tákn tímanna.“

Síðan kallar Jesús þá vonda og ótrúa kynslóð og varar þá við, eins og faríseana áður, að þeir fái ekkert tákn annað en Jónasartáknið. Hann fer svo með lærisveinunum á báti yfir til Betsaídu á norðausturströnd Galíleuvatns. Á leiðinni uppgötva lærisveinarnir að þeir hafa gleymt að taka með sér brauð, svo að þeir hafa ekki nema eitt brauð meðferðis.

Jesús hefur í huga nýafstaðinn fund sinn með faríseunum og saddúkeunum sem eru stuðningsmenn Heródesar. Hann áminnir þá: „Gætið yðar, varist súrdeig farísea og súrdeig Heródesar.“ Þegar lærisveinarnir heyra Jesú minnast á súrdeig halda þeir greinilega að hann sé að hugsa um brauðið sem þeir gleymdu að hafa meðferðis, og þeir taka að deila sín í milli. Jesús tekur eftir að þeir hafa misskilið hann og segir: „Hvað eruð þér að tala um, að þér hafið ekki brauð?“

Tvívegis áður hafði Jesús unnið það kraftaverk að gefa þúsundum manna brauð, síðast fyrir einum eða tveim dögum. Þeir ættu því að vita að hann hefur ekki áhyggjur af bókstaflegum brauðskorti. „Munið þér ekki?“ spyr hann. „Þegar ég braut brauðin fimm handa fimm þúsundum, hve margar körfur fullar af brauðbitum tókuð þér saman?“

„Tólf,“ svara þeir.

„Eða brauðin sjö handa fjórum þúsundunum, hve margar körfur fullar af brauðbitum tókuð þér þá saman?“

„Sjö,“ svara þeir.

„Skiljið þér ekki enn?“ spyr Jesús. „Hvernig má það vera, að þér skynjið ekki, að ég var ekki að tala um brauð við yður. Varist súrdeig farísea og saddúkea.“

Loksins skilja lærisveinarnir hvað hann á við. Súrdeig, sem er notað til að valda gerjun og láta brauð lyfta sér, táknar spillingu. Lærisveinarnir skilja nú að Jesús er að nota myndlíkingu, að hann er að hvetja þá til að vera á verði gegn „kenningu farísea og saddúkea“ sem er spillandi. Markús 8:1-21; Matteus 15:32–16:12.

▪ Hvers vegna hefur fólk stórar körfur meðferðis?

▪ Til hvaða staða fer Jesús á báti eftir að hann yfirgefur Dekapólis?

▪ Hvernig misskilja lærisveinarnir orð Jesú um súrdeig?

▪ Hvað á Jesús við með ‚súrdeigi farísea og saddúkea‘?