Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Dæmisögur um víngarðinn afhjúpa þá

Dæmisögur um víngarðinn afhjúpa þá

Kafli 106

Dæmisögur um víngarðinn afhjúpa þá

JESÚS er í musterinu. Hann er nýbúinn að stinga upp í trúarleiðtogana sem heimtuðu að fá að vita með hvaða valdi hann gerði það sem hann gerði. En áður en þeir ná áttum spyr Jesús: „Hvað virðist yður?“ Síðan segir hann dæmisögu til að sýna fram á hvers konar menn þeir séu í raun og veru.

„Maður nokkur átti tvo sonu,“ segir Jesús. „Hann gekk til hins fyrra og sagði: ‚Sonur minn, far þú og vinn í dag í víngarði mínum.‘ Hann svaraði: ‚Það vil ég ekki.‘ En eftir á sá hann sig um hönd og fór. Þá gekk hann til hins síðara og mælti á sömu leið. Hann svaraði: ‚Já, herra,‘ en fór hvergi. Hvor þeirra tveggja gjörði vilja föðurins?“

„Sá fyrri,“ svara andstæðingarnir.

Þá segir Jesús: „Sannlega segi ég yður: Tollheimtumenn og skækjur verða á undan yður inn í Guðs ríki.“ Segja má að tollheimtumenn og skækjur hafi í fyrstu neitað að þjóna Guði en síðan iðrast og þjónað honum líkt og fyrri sonurinn. Trúarleiðtogarnir sögðust hins vegar þjóna Guði líkt og síðari sonurinn, svo Jesús segir við þá: „Jóhannes [skírari] kom til yðar og vísaði veg réttlætis, og þér trúðuð honum ekki, en tollheimtumenn og skækjur trúðu honum. Það sáuð þér, en snerust samt ekki síðar og trúðuð honum.“

Því næst sýnir hann fram á að trúarleiðtogarnir hafi ekki aðeins vanrækt að þjóna Guði heldur séu þeir bæði illir og óguðlegir. Hann segir: „Landeigandi nokkur plantaði víngarð. Hann hlóð garð um hann, gróf fyrir vínþröng og reisti turn, seldi hann síðan vínyrkjum á leigu og fór úr landi. Þegar ávaxtatíminn nálgaðist, sendi hann þjóna sína til vínyrkjanna að fá ávöxt sinn. En vínyrkjarnir tóku þjóna hans, börðu einn, drápu annan og grýttu hinn þriðja. Aftur sendi hann aðra þjóna, fleiri en þá fyrri, og eins fóru þeir með þá.“

‚Þjónarnir‘ eru spámennirnir sem ‚landeigandinn,‘ Jehóva Guð, sendi til „vínyrkjanna“ í ‚víngarði‘ sínum. Þessir vínyrkjar eru fulltrúar og leiðtogar Ísraelsþjóðarinnar sem Biblían kallar „víngarð“ Guðs.

„Vínyrkjarnir“ misþyrma og drepa ‚þjónana‘ svo Jesús heldur áfram: „Síðast sendi [landeigandinn] til þeirra son sinn og sagði: ‚Þeir munu virða son minn.‘ Þegar vínyrkjarnir sáu soninn, sögðu þeir sín á milli: ‚Þetta er erfinginn. Förum og drepum hann, og náum arfi hans.‘ Og þeir tóku hann, köstuðu honum út fyrir víngarðinn og drápu hann.“

Síðan spyr Jesús trúarleiðtogana: „Hvað mun nú eigandi víngarðsins gjöra við vínyrkja þessa, þegar hann kemur?“

Þeir svara: „Þeim vondu mönnum mun hann vægðarlaust tortíma og selja víngarðinn öðrum vínyrkjum á leigu, sem gjalda honum ávöxtinn á réttum tíma.“

Trúarleiðtogarnir eru þannig óafvitandi búnir að dæma sjálfa sig því að þeir teljast til „vínyrkjanna“ í ‚víngarði‘ Jehóva sem var Ísraelsþjóðin. Ávöxturinn, sem Jehóva ætlast til af þessum vínyrkjum, er trú á son hans, hinn sanna Messías. En þeir bera ekki slíkan ávöxt svo að Jesús varar þá við: „Hafið þér aldrei lesið í ritningunum [í Sálmi 118:22, 23]: Sá steinn, sem smiðirnir höfnuðu, er orðinn hyrningarsteinn. Þetta er verk [Jehóva], og undursamlegt er það í augum vorum. Þess vegna segi ég yður: Guðs ríki verður frá yður tekið og gefið þeirri þjóð, sem ber ávexti þess. Sá sem fellur á þennan stein, mun sundur molast, og þann sem hann fellur á, mun hann sundur merja.“

Nú skilja fræðimennirnir og æðstuprestarnir að Jesús á við þá og vilja drepa hann, hinn réttmæta ‚erfingja.‘ Þau sérréttindi að vera stjórnendur í ríki Guðs verða því tekin frá þeim sem þjóð og ný þjóð ‚vínyrkja‘ mynduð sem ber góðan ávöxt.

Trúarleiðtogarnir óttast fólkið, sem telur Jesú vera spámann, og reyna ekki að drepa hann að þessu sinni. Matteus 21:28-46; Markús 12:1-12; Lúkas 20:9-19; Jesaja 5:1-7.

▪ Hverja tákna synirnir tveir í fyrri dæmisögu Jesú?

▪ Hvern táknar ‚landeigandinn,‘ ‚víngarðurinn,‘ „vínyrkjarnir,“ ‚þjónarnir‘ og „erfinginn“ í síðari dæmisögunni?

▪ Hvað verður um ‚vínyrkjana‘ og hverjir koma í þeirra stað?