Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ferðir til Jerúsalem

Ferðir til Jerúsalem

Kafli 10

Ferðir til Jerúsalem

ÞAÐ er komið vor. Og þá er kominn tími fyrir fjölskyldu Jósefs til að fara í hina árlegu vorferð til Jerúsalem, ásamt vinum og ættingjum, til að halda páska. Allir hlakka til eins og venjulega þegar lagt er af stað í ferðina sem er um 100 kílómetra löng. Jesús er nú 12 ára og hlakkar sérstaklega til hátíðarinnar.

Páskarnir eru ekki bara eins dags hátíð fyrir Jesú og fjölskyldu hans. Þau dveljast áfram í Jerúsalem til að halda hátíð ósýrðu brauðanna, sem stendur í sjö daga, og þau líta á hana sem hluta páskanna. Ferðalagið frá Nasaret ásamt dvölinni í Jerúsalem tekur því um hálfan mánuð. En þetta ár verður ferðin lengri sökum atviks er tengist Jesú.

Á leiðinni heim frá Jerúsalem kemur í ljós að ekki er allt með felldu. Jósef og María gera ráð fyrir að Jesús sé með ættingjum og vinum sem þau ferðast með. En þegar þau koma á náttstað um kvöldið er hann hvergi sjáanlegur þótt þau leiti hans meðal samferðafólksins. Hann finnst hvergi. Jósef og María snúa því við alla leið til Jerúsalem til að leita hans.

Þau leita hans heilan dag án árangurs. Annar dagurinn líður án þess að þau finni hann. Að lokum fara þau í musterið á þriðja degi þar sem þau finna Jesú í einum salnum. Hann situr þar mitt á meðal lærifeðra Gyðinga, hlýðir á þá og spyr þá út úr.

„Barn, hví gjörðir þú okkur þetta?“ spyr María. „Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin.“

Jesús er hissa á því að þau skyldu ekki vita hvar hann væri og spyr: „Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki, að mér ber að vera í húsi föður míns?“

Jesús skilur ekki að foreldrar hans skuli ekki hafa vitað þetta. En hann fer heim með þeim og er þeim hlýðinn áfram. Hann þroskast að visku og vexti og náð hjá Guði og mönnum. Já, allt frá barnæsku er Jesús góð fyrirmynd með því að sækjast eftir því sem andlegt er og sýna foreldrum sínum virðingu. Lúkas 2:40-52; 22:7.

▪ Hvert fer Jesús með fjölskyldu sinni á hverju vori og hve löng ferð er þetta?

▪ Hvað gerist í páskaferðinni þegar Jesús er 12 ára?

▪ Hvernig er Jesús góð fyrirmynd fyrir unglinga nú á tímum?