Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fjórir lærisveinar kallaðir

Fjórir lærisveinar kallaðir

Kafli 22

Fjórir lærisveinar kallaðir

EFTIR morðtilraunina á Jesú í heimabæ hans, Nasaret, fer hann til borgarinnar Kapernaum við Galíleuvatn. Þar með uppfyllist annar spádómur Jesaja. Það er spádómurinn um að Galíleubúar við vatnið skyldu sjá mikið ljós.

Þegar Jesús gengur þar um sem ljósberi og prédikar Guðsríki finnur hann fjóra lærisveina sína. Þeir höfðu ferðast með honum áður en snúið sér aftur að fiskveiðum þegar þeir komu aftur frá Júdeu með Jesú. Trúlega leitar Jesús þá uppi því að það er kominn tími til að þeir verði fastir hjálparmenn hans og hann þjálfi þá til að halda þjónustunni áfram eftir dauða sinn.

Jesús er á gangi meðfram ströndinni þegar hann sér Símon Pétur og félaga hans þvo net sín. Hann gengur til þeirra, stígur um borð í bát Péturs og biður hann að leggja frá landi. Þeir eru komnir spölkorn út á vatnið þegar hann sest niður í bátinn og tekur að kenna mannfjöldanum á ströndinni.

Eftir það segir Jesús við Pétur: „Legg þú út á djúpið, og leggið net yðar til fiskjar.“

„Meistari,“ svarar Pétur, „vér höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið, en fyrst þú segir það, skal ég leggja netin.“

Þeir leggja netin og fá svo mikinn fisk að netin taka að rifna. Í ofboði benda mennirnir félögum sínum á nærstöddum báti að koma og hjálpa. Innan skamms eru bátarnir svo drekkhlaðnir að þeir eru að því komnir að sökkva. Þegar Pétur sér það fellur hann á kné frammi fyrir Jesú og segir: „Far þú frá mér, herra, því að ég er syndugur maður.“

„Óttast þú ekki,“ svarar Jesús, „héðan í frá skalt þú menn veiða.“

Jesús býður líka Andrési, bróður Péturs, að koma. „Komið og fylgið mér,“ hvetur hann þá, „og mun ég láta yður menn veiða.“ Félögum þeirra, Jakobi og Jóhannesi Sebedeussonum, er líka boðið og þeir þiggja það án þess að hika. Fjórmenningarnir hætta því fiskveiðum og eru þeir fyrstu sem fylgja Jesú stöðuglega. Lúkas 5:1-11; Matteus 4:13-22; Markús 1:16-20; Jesaja 9:1, 2.

▪ Hvers vegna býður Jesús lærisveinum sínum að fylgja sér og hverjir eru það?

▪ Hvaða kraftaverk skelfir Pétur?

▪ Hvers konar veiðar býður Jesús lærisveinunum að stunda?