Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Forsmekkur að dýrð Krists í ríki hans

Forsmekkur að dýrð Krists í ríki hans

Kafli 60

Forsmekkur að dýrð Krists í ríki hans

JESÚS er kominn í byggðir Sesareu Filippí og er þar að kenna stórum hópi manna, þeirra á meðal postulum sínum. Þá segir hann óvænt: „Sannlega segi ég yður: Nokkrir þeirra, sem hér standa, munu eigi dauða bíða, fyrr en þeir sjá Mannssoninn koma í ríki sínu.“

Lærisveinarnir hljóta að velta fyrir sér hvað Jesús eigi við. Um viku síðar tekur Jesús þá Pétur, Jakob og Jóhannes með sér upp á hátt fjall. Hugsanlegt er að það sé um nótt því að lærisveinarnir eru syfjaðir. Meðan Jesús er að biðjast fyrir ummyndast hann fyrir augum þeirra. Andlit hans tekur að skína sem sól og föt hans verða björt eins og ljós.

Síðan birtast tvær mannverur, nefndar „Móse og Elía,“ og byrja að tala við Jesú um ‚brottför hans í Jerúsalem.‘ Með þessari brottför er greinilega átt við dauða Jesú og upprisu. Þessar samræður sanna að Jesús komist ekki hjá því að deyja smánarlegum dauða, eins og Pétur vildi.

Lærisveinarnir glaðvakna og fylgjast furðu lostnir með því sem fram fer. Enda þótt þetta sé sýn er hún svo raunveruleg að Pétur lifir sig inn í hana og segir: „Herra, gott er, að vér erum hér. Ef þú vilt, skal ég gjöra hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“

Meðan Pétur er að tala ber yfir þá bjart ský og rödd úr skýinu segir: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“ Þegar lærisveinarnir heyra röddina falla þeir fram á andlitið, en Jesús segir: „Rísið upp, og óttist ekki.“ Þeir gera það og sjá þá engan nema Jesú.

Á leiðinni ofan af fjallinu næsta dag fyrirskipar Jesús: „Segið engum frá sýninni, fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum.“ Að Elía skyldi birtast í sýninni vekur spurningu í hugum lærisveinanna: „Hví segja fræðimennirnir, að Elía eigi fyrst að koma?“

„Elía er þegar kominn, og menn þekktu hann ekki,“ svarar Jesús. Hann er að tala um Jóhannes skírara sem gegndi svipuðu hlutverki og Elía. Jóhannes undirbjó veginn fyrir Krist eins og Elía undirbjó veginn fyrir Elísa.

Þessi sýn er afar styrkjandi bæði fyrir Jesú og lærisveinana. Hún er eins og forsmekkur að dýrð Krists í ríki hans. Í reynd hafa þeir séð „Mannssoninn koma í ríki sínu“ eins og Jesús hafði heitið þeim viku áður. Eftir dauða Krists skrifaði Pétur að þeir hefðu orðið ‚sjónarvottar að hátign hans þegar þeir voru með honum á fjallinu helga.‘

Farísearnir höfðu krafist þess að Jesús sýndi þeim tákn til að sanna að hann væri hinn útvaldi konungur Guðs sem átti að koma samkvæmt Ritningunni. Þeir fengu ekkert slíkt tákn. Á hinn bóginn er nánustu lærisveinum Jesú leyft að sjá hann ummyndast til að staðfesta spádómana um Guðsríki. Þess vegna skrifaði Pétur síðar: „Enn þá áreiðanlegra er oss því nú hið spámannlega orð.“ Matteus 16:13, 28–17:13; Markús 9:1-13; Lúkas 9:27-37; 2. Pétursbréf 1:16-19.

▪ Hvernig sjá sumir Krist koma í ríki sínu áður en þeir deyja?

▪ Um hvað tala Móse og Elía við Jesú í sýninni?

▪ Hvers vegna er þessi sýn svona styrkjandi fyrir lærisveinana?