Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Frá Pílatusi til Heródesar og aftur til baka

Frá Pílatusi til Heródesar og aftur til baka

Kafli 122

Frá Pílatusi til Heródesar og aftur til baka

JESÚS reynir alls ekki að dylja Pílatus þess að hann sé konungur en útskýrir að Róm stafi engin hætta af ríki hans. „Mitt ríki er ekki af þessum heimi,“ segir hann. „Væri mitt ríki af þessum heimi, hefðu þjónar mínir barist, svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum. En nú er ríki mitt ekki þaðan.“ Jesús viðurkennir þannig þrívegis að hann eigi sér ríki þótt ekki sé það jarðneskt.

En Pílatus spyr aftur: „Þú ert þá konungur?“ það er að segja, ertu konungur þótt ríki þitt sé ekki af þessum heimi?

Jesús svarar því til að Pílatus hafi dregið rétta ályktun og segir: „Þú segir að ég sé konungur. Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni. Hver sem er af sannleikanum, heyrir mína rödd.“

Tilgangurinn með veru Jesú á jörðinni er sá að bera „sannleikanum“ vitni, einkum sannleikanum um ríki sitt. Hann er tilbúinn til að vera trúr þessum sannleika, jafnvel þótt það kosti hann lífið. Pílatus bíður ekki nánari skýringar þótt hann spyrji: „Hvað er sannleikur?“ Hann hefur heyrt nóg til að fella dóm.

Hann gengur aftur út til mannfjöldans sem bíður fyrir utan höllina. Jesús stendur greinilega við hlið hans þegar hann segir æðstuprestunum og föruneyti þeirra: „Enga sök finn ég hjá þessum manni.“

Mannfjöldinn reiðist þessum úrskurði og heldur fast við sitt: „Hann æsir upp lýðinn með því, sem hann kennir í allri Júdeu, hann byrjaði í Galíleu og er nú kominn hingað.“

Pílatus hlýtur að undrast glórulaust ofstæki Gyðinga. Æðstuprestarnir og öldungarnir halda áfram hrópum sínum en hann snýr sér að Jesú og spyr: „Heyrir þú ekki, hve mjög þeir vitna gegn þér?“ En Jesús svarar engu. Pílatus undrast stillingu hans andspænis þessum hörðu ásökunum.

Þegar Pílatus kemst að raun um að Jesús er frá Galíleu eygir hann möguleika á að skjóta sér undan ábyrgð. Fjórðungsstjóri Galíleu, Heródes Antípas (sonur Heródesar mikla), er í Jerúsalem að halda páska svo að Pílatus sendir Jesú til hans. Heródes Antípas hafði látið hálshöggva Jóhannes skírara fyrir nokkru en varð hræddur þegar hann frétti af kraftaverkum Jesú því að hann óttaðist að Jesús væri Jóhannes upprisinn frá dauðum.

Heródes er himinlifandi að fá tækifæri til að sjá Jesú. Ekki svo að skilja að honum sé annt um velferð hans eða vilji virkilega komast að raun um hvort ásakanirnar gegn honum séu sannar eða ekki, heldur er hann einfaldlega forvitinn og langar til að sjá Jesú vinna eitthvert kraftaverk.

En Jesús neitar að svala forvitni Heródesar. Hann segir ekki orð þótt Heródes spyrji hann. Vonsviknir spotta Heródes og hermenn hans Jesú. Þeir klæða hann í skínandi klæði og hæðast að honum. Síðan senda þeir hann aftur til Pílatusar. Eftir þetta verða Heródes og Pílatus góðir vinir en áður höfðu þeir verið óvinir.

Þegar Jesús kemur aftur til Pílatusar kallar hann æðstuprestana, höfðingja Gyðinga og fólkið saman og segir: „Þér hafið fært mér þennan mann og sagt hann leiða fólkið afvega. Nú hef ég yfirheyrt manninn í yðar viðurvist, en enga þá sök fundið hjá honum, er þér ákærið hann um. Ekki heldur Heródes, því hann sendi hann aftur til vor. Ljóst er, að hann hefur ekkert það drýgt, er dauða sé vert. Ætla ég því að hirta hann og láta lausan.“

Pílatus hefur nú tvisvar lýst Jesú saklausan. Hann vill gjarnan láta hann lausan því að honum er ljóst að prestarnir hafa framselt hann sökum öfundar. Og Pílatus fær enn sterkari ástæðu til að láta Jesú lausan því að eiginkona hans gerir honum boð meðan hann situr á dómstólnum og hvetur hann: „Láttu þennan réttláta mann vera, þungir hafa draumar mínir [greinilega frá Guði] verið í nótt hans vegna.“

En hvernig getur Pílatus látið þennan saklausa mann lausan eins og hann veit að honum ber? Jóhannes 18:36-38, vers 37 neðanmáls; Lúkas 23:4-16; Matteus 27:12-14, 18, 19; 14:1, 2; Markús 15:2-5.

▪ Hvernig svarar Jesús spurningunni um konungdóm sinn?

▪ Hver er ‚sannleikurinn‘ sem Jesús notaði jarðlíf sitt til að bera vitni um?

▪ Hver er dómur Pílatusar, hver eru viðbrögð fólksins og hvað gerir Pílatus við Jesú?

▪ Hver er Heródes Antípas, hvers vegna er hann himinlifandi að fá að sjá Jesú og hvað gerir hann við hann?

▪ Af hverju vill Pílatus gjarnan láta Jesú lausan?