Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Frá heimili Jaírusar og aftur til Nasaret

Frá heimili Jaírusar og aftur til Nasaret

Kafli 48

Frá heimili Jaírusar og aftur til Nasaret

JESÚS á erfiðan dag að baki. Hann hefur siglt yfir vatnið frá Dekapólis, læknað konuna með blæðingarnar og reist dóttur Jaírusar upp frá dauðum. En dagurinn er ekki á enda. Tveir blindir menn fylgja Jesú, trúlega þegar hann yfirgefur heimili Jaírusar, og hrópa: „Miskunna þú okkur, sonur Davíðs.“

Með því að ávarpa Jesú ‚son Davíðs‘ eru þessir menn að láta í ljós þá trú að Jesús sé erfinginn að hásæti Davíðs og þar með hinn fyrirheitni Messías. Jesús virðist láta sem hann heyri ekki köll þeirra, kannski til að láta reyna á þrautseigju þeirra. En mennirnir gefast ekki upp. Þeir fylgja Jesú þangað sem hann dvelst og elta hann inn í húsið.

Þegar þangað kemur spyr Jesús: „Trúið þið, að ég geti gjört þetta?“

„Já, herra,“ svara þeir vongóðir.

Jesús snertir þá augu þeirra og segir: „Verði ykkur að trú ykkar.“ Allt í einu fá þeir sjónina! Jesús segir við þá: „Gætið þess, að enginn fái að vita þetta.“ En þeir eru svo glaðir að þeir sinna því ekki heldur tala um hann út um alla sveitina.

Rétt í þann mund sem mennirnir fara er komið með mállausan mann haldinn illum anda. Jesús rekur illa andann út af manninum og hann fær málið samstundis. Mannfjöldinn undrast þessi kraftaverk og segir: „Aldrei hefur þvílíkt sést í Ísrael.“

Farísear eru einnig viðstaddir. Þeir geta ekki afneitað kraftaverkunum, en í vonsku sinni og vantrú endurtaka þeir ásökunina um það hver standi að baki kraftaverkum Jesú: „Með fulltingi höfðingja illra anda rekur hann út illu andana.“

Skömmu eftir þetta snýr Jesús aftur til heimabæjar síns Nasaret, nú í fylgd lærisveina sinna. Um ári áður hafði hann heimsótt samkunduhúsið þar og kennt. Þótt fólk hafi í fyrstu undrast geðfelld orð hans hneykslaðist það síðar á því sem hann kenndi og reyndi að drepa hann. Í miskunn sinni reynir Jesús nú aftur að hjálpa fyrrverandi nágrönnum sínum.

Annars staðar hópast fólk að Jesú en ekki hér. Hann fer því í samkunduhúsið á hvíldardeginum til að kenna. Flestir sem hlýða á hann undrast stórum. „Hvaðan kemur honum þessi speki og kraftaverkin?“ spyrja þeir. „Er þetta ekki sonur smiðsins? Heitir ekki móðir hans María og bræður hans Jakob, Jósef, Símon og Júdas? Og eru ekki systur hans allar hjá oss? Hvaðan kemur honum þá allt þetta?“

‚Jesús er bara heimamaður eins og við,‘ hugsa þeir. ‚Við sáum hann alast upp og þekkjum fjölskyldu hans. Hvernig getur hann verið Messías?‘ Þrátt fyrir öll sönnunargögnin — hina miklu visku hans og kraftaverkin — hafna þeir honum. Jafnvel ættingjar Jesú, sem þekkja hann þó vel, hneykslast á honum svo hann segir: „Hvergi er spámaður minna metinn en í landi sínu og með heimamönnum.“

Jesús undrast virkilega trúleysi þeirra. Hann vinnur því engin kraftaverk þar nema hann leggur hendur yfir nokkra sjúka og læknar þá. Matteus 9:27-34; 13:54-58; Markús 6:1-6; Jesaja 9:7.

▪ Hvað sýna blindu mennirnir með því að ávarpa Jesú ‚son Davíðs‘?

▪ Hvaða skýringu á kraftaverkum Jesú hafa farísearnir ákveðið að hafa?

▪ Hvers vegna er það miskunn af hálfu Jesú að koma aftur til að hjálpa Nasaretbúum?

▪ Hvaða viðtökur fær Jesús í Nasaret og hvers vegna?