Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fyrir æðstaráðið og Pílatus

Fyrir æðstaráðið og Pílatus

Kafli 121

Fyrir æðstaráðið og Pílatus

NÓTTIN er næstum liðin. Pétur hefur afneitað Jesú í þriðja sinn, æðstaráðið hefur lokið sýndarréttarhöldunum og hver farið sína leið. En í dagrenningu á föstudegi hittist ráðið aftur, nú í ráðssalnum. Eflaust er tilgangurinn sá að gefa næturréttarhöldunum einhvers konar löglegt yfirbragð. Þegar Jesús er leiddur fyrir ráðið er sagt við hann eins og um nóttina: „Ef þú ert Kristur, þá seg oss það.“

„Þótt ég segi yður það, munuð þér ekki trúa,“ svarar Jesús, „og ef ég spyr yður, svarið þér ekki.“ En Jesús segir hugrakkur hver hann sé: „Upp frá þessu mun Mannssonurinn sitja til hægri handar Guðs kraftar.“

„Ert þú þá sonur Guðs?“ spyrja þeir allir.

„Þér segið, að ég sé sá,“ svarar Jesús.

Mennirnir eru í morðhug svo að þetta svar nægir þeim. Þeir telja það guðlast. „Hvað þurfum vér nú framar vitnis við?“ spyrja þeir. „Vér höfum sjálfir heyrt það af munni hans.“ Þeir láta því binda Jesú, leiða hann burt og framselja hann rómverska landshöfðingjanum Pontíusi Pílatusi.

Júdas, sem sveik Jesú, hefur fylgst með framvindu mála. Þegar hann kemst að raun um að Jesús hefur verið dæmdur sekur sér hann eftir öllu saman. Hann fer til æðstuprestanna og öldunganna til að skila silfurpeningunum 30 og segir: „Ég drýgði synd, ég sveik saklaust blóð.“

„Hvað varðar oss um það? Það er þitt að sjá fyrir því,“ svara þeir harðneskjulega. Júdas fleygir þá silfrinu inn í musterið, fer burt og reynir að hengja sig. En greinin, sem Júdas reynir að binda reipið í, brotnar bersýnilega svo að hann fellur á grjótið fyrir neðan og brestur í sundur.

Æðstuprestarnir vita ekki hvað gera skal við silfrið. „Ekki má láta það í guðskistuna, því þetta eru blóðpeningar,“ segja þeir. Þeir verða ásáttir um að kaupa fyrir það akur leirkerasmiðsins sem grafreit handa útlendingum. Akurinn er því kallaður „Blóðreitur.“

Það er enn árla morguns þegar komið er með Jesú til hallar landshöfðingjans. En Gyðingarnir, sem fylgja honum, vilja ekki fara sjálfir inn í höllina því að þeir álíta að þeir saurgist af svo nánum samskiptum við heiðingja. Pílatus kemur því út til fundar við þá. „Hvaða ákæru berið þér fram gegn þessum manni?“ spyr hann.

„Ef þetta væri ekki illvirki, hefðum vér ekki selt hann þér í hendur,“ svara þeir.

Pílatus vill helst ekki blanda sér í málið og svarar: „Takið þér hann, og dæmið hann eftir yðar lögum.“

Gyðingarnir afhjúpa þá morðhug sinn og segja: „Oss leyfist ekki að taka neinn af lífi.“ Ef þeir tækju Jesú af lífi á páskahátíðinni myndi það líklega valda almennu uppþoti því að margir hafa Jesú í hávegum. En auðnist þeim að fá Rómverja til að taka hann af lífi fyrir pólitískar sakir gætu þeir hugsanlega firrt sig ábyrgð frammi fyrir fólkinu.

Trúarleiðtogarnir minnast því ekki á að þeir hafi réttað í málinu um nóttina og dæmt Jesú fyrir guðlast, heldur spinna upp aðrar ásakanir. Þeir saka Jesú um þrennt: „Vér höfum komist að raun um, að þessi maður [1] leiðir þjóð vora afvega, [2] hann bannar að gjalda keisaranum skatt og [3] segist sjálfur vera Kristur, konungur.“

Það er helst sú ákæra að Jesús segist vera konungur sem veldur Pílatusi áhyggjum. Hann gengur því aftur inn í höllina, kallar Jesú fyrir sig og spyr: „Ert þú konungur Gyðinga?“ Með öðrum orðum, hefurðu brotið lög með því að lýsa sjálfan þig konung í andstöðu við keisarann?

Jesú fýsir að vita hve mikið Pílatus hefur heyrt um hann og spyr: „Mælir þú þetta af sjálfum þér, eða hafa aðrir sagt þér frá mér?“

Pílatus lætur sem hann viti ekki neitt og þykist vilja fá að vita staðreyndirnar. „Er ég þá Gyðingur?“ svarar hann. „Þjóð þín og æðstu prestarnir hafa selt þig mér í hendur. Hvað hefur þú gjört?“

Jesús reynir ekki að skjóta sér undan spurningunni hvort hann sé konungur en svarið kemur Pílatusi eflaust á óvart. Lúkas 22:66–23:3; Matteus 27:1-11; Markús 15:1; Jóhannes 18:28-35; Postulasagan 1:16-20.

▪ Í hvaða tilgangi kemur æðstaráðið aftur saman um morguninn?

▪ Hvernig deyr Júdas og hvað er gert við silfurpeningana 30?

▪ Af hverju vilja Gyðingar ekki lífláta Jesú sjálfir heldur fá Rómverja til þess?

▪ Um hvað saka Gyðingar Jesú?