Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fyrirrennarinn fæðist

Fyrirrennarinn fæðist

Kafli 3

Fyrirrennarinn fæðist

ELÍSABET er að því komin að fæða barnið. María hefur dvalist hjá henni undanfarna þrjá mánuði. En nú er kominn tími fyrir Maríu til að kveðja og halda heimleiðis alla leið til Nasaret. Eftir um sex mánuði á hún sjálf von á barni.

Elísabet fæðir skömmu eftir að María fer. Allir gleðjast þegar fæðingin gengur vel og Elísabetu og barninu heilsast prýðilega! Nágrannar og ættingjar Elísabetar samfagna henni þegar hún sýnir þeim barnið.

Á áttunda degi eftir fæðingu á að umskera drengi í Ísrael samkvæmt lögmáli Guðs. Ættingjar og vinir koma í heimsókn af því tilefni. Þeir segja að nefna eigi drenginn Sakaría í höfuðið á föður sínum. En Elísabet segir: „Eigi skal hann svo heita, heldur Jóhannes.“ Eins og þú manst sagði engillinn Gabríel að drengurinn skyldi nefndur því nafni.

En vinafólkið mótmælir: „Enginn er í ætt þinni, sem heitir því nafni.“ Síðan er faðir hans spurður með bendingum hvað drengurinn skuli heita. Sakaría biður um spjald og ritar öllum til undrunar: „Jóhannes er nafn hans.“

Um leið fær Sakaría málið aftur á undraverðan hátt. Eins og þú manst missti hann málið þegar hann trúði ekki orðum engilsins um að Elísabet myndi eignast barn. Þegar Sakaría fær málið á ný undrast allir nágrannarnir stórlega og segja hver við annan: „Hvað mun barn þetta verða?“

Sakaría fyllist nú heilögum anda og segir fagnandi: „Lofaður sé [Jehóva], Guð Ísraels, því að hann hefur vitjað lýðs síns og búið honum lausn. Hann hefur reist oss horn hjálpræðis í húsi Davíðs þjóns síns.“ Þetta „horn hjálpræðis“ er auðvitað hinn ófæddi Drottinn Jesús. Fyrir hans atbeina mun Guð „hrífa oss úr höndum óvina og veita oss að þjóna sér óttalaust í heilagleik og réttlæti fyrir augum hans alla daga vora,“ segir Sakaría.

Síðan spáir Sakaría um son sinn, Jóhannes: „Og þú, sveinn! munt nefndur verða spámaður hins hæsta, því að þú munt ganga fyrir [Jehóva] að greiða vegu hans og veita lýð hans þekkingu á hjálpræðinu, sem er fyrirgefning synda þeirra. Þessu veldur hjartans miskunn Guðs vors. Hún lætur upp renna sól af hæðum að vitja vor og lýsa þeim, sem sitja í myrkri og skugga dauðans, og beina fótum vorum á friðar veg.“

Þegar hér er komið sögu er María komin heim til Nasaret, en hún er enn ógift. Hvað verður um hana þegar ljóst verður að hún er barnshafandi? Lúkas 1:56-80; 3. Mósebók 12:2, 3.

▪ Hvaða aldursmunur er á Jóhannesi og Jesú?

▪ Hvað gerist þegar Jóhannes er átta daga gamall?

▪ Hvernig hefur Guð vitjað fólks síns?

▪ Hvaða verk er spáð að Jóhannes vinni?