Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fyrstu lærisveinar Jesú

Fyrstu lærisveinar Jesú

Kafli 14

Fyrstu lærisveinar Jesú

EFTIR 40 daga í eyðimörkinni fer Jesús aftur til Jóhannesar sem skírði hann. Er hann nálgast bendir Jóhannes á hann og segir við nærstadda: „Sjá, Guðs lamb, sem ber synd heimsins. Þar er sá er ég sagði um: ‚Eftir mig kemur maður, sem var á undan mér, því hann er fyrri en ég.‘“ Þótt Jóhannes sé eldri en Jesús frændi hans veit hann að Jesús var til á undan honum sem andi á himnum.

Fáeinum vikum áður, þegar Jesús kom til hans til að láta skírast, virðist Jóhannes þó ekki hafa vitað með vissu að Jesús ætti að vera Messías. „Sjálfur þekkti ég hann ekki,“ segir hann. „En til þess kom ég og skíri með vatni, að hann opinberist Ísrael.“

Jóhannes útskýrir síðan fyrir áheyrendum hvað gerðist þegar hann skírði Jesú: „Ég sá andann koma af himni ofan eins og dúfu, og hann nam staðar yfir honum. Sjálfur þekkti ég hann ekki, en sá er sendi mig að skíra með vatni, sagði mér: ‚Sá sem þú sérð andann koma yfir og nema staðar á, hann er sá sem skírir með heilögum anda.‘ Þetta sá ég, og ég vitna, að hann er sonur Guðs.“

Daginn eftir er Jóhannes með tveim af lærisveinum sínum þegar Jesús nálgast. Þá segir hann aftur: „Sjá, Guðs lamb.“ Þegar lærisveinarnir tveir heyra þetta fylgja þeir Jesú. Annar þeirra er Andrés og hinn er greinilega sá sem skrifaði frásöguna, en hann heitir líka Jóhannes. Þessi Jóhannes er einnig frændi Jesú að því er best verður séð, sonur Salóme systur Maríu.

Jesús snýr sér við, sér þá Andrés og Jóhannes fylgja sér og spyr: „Hvers leitið þið?“

„Rabbí,“ spyrja þeir, „hvar dvelst þú?“

„Komið og sjáið,“ svarar Jesús.

Þetta er um klukkan fjögur síðdegis, og Andrés og Jóhannes eru með Jesú það sem eftir er dagsins. Andrés er svo spenntur að hann flýtir sér eftir á að finna bróður sinn Pétur. „Við höfum fundið Messías!“ segir hann og fer með Pétur til Jesú. Kannski finnur Jóhannes Jakob bróður sinn um svipað leyti og fer með hann til Jesú, en það er dæmigert fyrir Jóhannes að segja sem minnst um sjálfan sig í guðspjalli sínu.

Daginn eftir finnur Jesús Filippus sem er frá Betsaídu, sömu borg og þeir Andrés og Pétur. Hann segir við hann: „Fylg þú mér!“

Filippus finnur síðan Natanael, sem er einnig kallaður Bartólómeus, og segir: „Vér höfum fundið þann, sem Móse skrifar um í lögmálinu og spámennirnir, Jesú frá Nasaret, son Jósefs.“ Natanael er efins og spyr: „Getur nokkuð gott komið frá Nasaret?“

„Kom þú og sjá,“ hvetur Filippus. Þegar þeir nálgast segir Jesús um Natanael: „Hér er sannur Ísraelíti, sem engin svik eru í.“

„Hvaðan þekkir þú mig?“ spyr Natanael.

„Ég sá þig undir fíkjutrénu, áður en Filippus kallaði á þig,“ svarar Jesús.

Natanael er furðu lostinn. „Rabbí [sem merkir kennari], þú ert sonur Guðs, þú ert konungur Ísraels,“ segir hann.

„Trúir þú, af því að ég sagði við þig: ‚Ég sá þig undir fíkjutrénu‘?“ spyr Jesús. „Þú munt sjá það, sem þessu er meira.“ Síðan lofar hann: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð sjá himininn opinn og engla Guðs stíga upp og stíga niður yfir Mannssoninn.“

Skömmu síðar yfirgefur Jesús Jórdandalinn ásamt hinum nýju lærisveinum og heldur til Galíleu. Jóhannes 1:29-51.

▪ Hverjir eru fyrstu lærisveinar Jesú?

▪ Hvernig eru Pétur og líklega Jakob kynntir fyrir Jesú?

▪ Hvað sannfærir Natanael um að Jesús sé sonur Guðs?