Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Góðverk á hvíldardegi

Góðverk á hvíldardegi

Kafli 29

Góðverk á hvíldardegi

VORIÐ 31 er runnið upp. Fáeinir mánuðir eru liðnir síðan Jesús talaði við konuna við brunninn í Samaríu á leiðinni frá Júdeu til Galíleu.

Eftir umfangsmikla prédikun út um alla Galíleu heldur Jesús nú aftur til Júdeu þar sem hann prédikar í samkunduhúsunum. Í samanburði við það sem Biblían segir um þjónustu Jesú í Galíleu er hún fáorð um starf hans í Júdeu þessu sinni og eins þá mánuði sem hann dvaldi þar eftir páskahátíðina árið áður. Greinilega var þjónustu hans ekki eins vel tekið í Júdeu og í Galíleu.

Innan skamms er Jesús á leið til Jerúsalem, helstu borgar Júdeu, til að halda páska. Skammt frá Sauðahliðinu í Jerúsalem er laug sem kallast Betesda. Þangað koma margir sjúkir, blindir og haltir. Þeir trúa að fólk geti læknast ef það kemst í laugina þegar hreyfing kemst á vatnið.

Þetta er á hvíldardegi og Jesús sér mann við laugina sem hefur verið veikur í 38 ár. Jesús veit hve lengi maðurinn hefur verið sjúklingur og spyr: „Viltu verða heill?“

Hann svarar: „Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina, þegar vatnið hrærist, og meðan ég er að komast, fer annar ofan í á undan mér.“

Jesús segir við hann: „Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“ Maðurinn verður alheill þegar í stað, tekur upp börurnar, sem hann hvílir á, og fer að ganga!

En þegar Gyðingar sjá manninn segja þeir: „Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna.“

Maðurinn svarar þeim: „Sá sem læknaði mig, sagði við mig: ‚Tak rekkju þína og gakk!‘“

„Hver er sá maður, sem sagði þér: ‚Tak hana og gakk‘?“ spyrja þeir. Jesús hefur vikið til hliðar vegna mannfjöldans og sá sem læknaðist veit ekki hvað hann heitir. En síðar hittast Jesús og maðurinn í musterinu, og maðurinn kemst að raun um hver læknaði hann.

Maðurinn fer þá til Gyðinganna til að segja þeim að það hafi verið Jesús sem læknaði hann. Gyðingarnir leita Jesú þá uppi. Til hvers? Til að kanna hvernig hann geti unnið þessi dásemdarverk? Nei, heldur til að finna að því að hann vinni þessi góðverk á hvíldardegi. Og þeir taka jafnvel að ofsækja hann! Lúkas 4:44; Jóhannes 5:1-16.

▪ Hve langt er liðið síðan Jesús kom síðast til Júdeu?

▪ Af hverju er Betesdalaug svona vinsæl?

▪ Hvaða kraftaverk vinnur Jesús við laugina og hvernig taka Gyðingar því?