Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Grátur breytist í fögnuð

Grátur breytist í fögnuð

Kafli 47

Grátur breytist í fögnuð

TRAUST Jaírusar á undraverðan mátt Jesú eykst vafalaust þegar hann sér konuna læknast af blæðingunum. Fyrr um daginn hafði Jaírus beðið Jesú að koma og hjálpa dauðvona dóttur sinni sem er tólf ára. En nú gerist það sem Jaírus óttast mest. Meðan Jesús er enn að tala við konuna koma menn og segja Jaírusi hljóðlega að dóttir hans sé dáin svo að hann þurfi ekki að ónáða meistarann lengur.

Þetta er reiðarslag. Hugsaðu þér: Þessi virti maður í samfélaginu er nú algerlega hjálparvana þegar hann fréttir að dóttir hans sé dáin. En Jesús heyrir á tal þeirra. Hann snýr sér að Jaírusi og segir hvetjandi: „Óttast ekki, trú þú aðeins.“

Jesús fylgir harmi lostnum föðurnum heim til hans. Þegar þangað kemur er allt í uppnámi og mikið grátið. Fjöldi fólks hefur safnast þar saman til að syrgja og harma. Jesús gengur inn og spyr: „Hví hafið þér svo hátt og grátið? Barnið er ekki dáið, það sefur.“

Fólkið hlær að Jesú þegar það heyrir þetta, því að það veit að stúlkan er raunverulega dáin. Jesús segir hins vegar að hún sé aðeins sofandi. Með því að beita krafti frá Guði ætlar hann að sýna að það sé jafnauðvelt að reisa fólk upp frá dauðum og að vekja það af djúpum svefni.

Jesús lætur nú vísa öllum út nema Pétri, Jakobi, Jóhannesi og foreldrum látnu stúlkunnar. Síðan fer hann með þau þangað sem stúlkan liggur. Hann tekur í hönd hennar og segir: „Talíþa kúm!“ sem merkir „Stúlka litla, ég segi þér, rís upp!“ Og stúlkan rís jafnskjótt upp og fer að ganga um! Foreldrarnir eru frá sér numdir af gleði.

Jesús segir Jaírusi og konu hans að gefa stúlkunni að borða og fyrirskipar þeim að segja engum frá því sem gerst hafi. En þrátt fyrir það berast tíðindin út um allt héraðið. Þetta er í annað sinn sem Jesús reisir upp frá dauðum. Matteus 9:18-26; Markús 5:35-43; Lúkas 8:41-56.

▪ Hvaða tíðindi fær Jaírus og hvernig uppörvar Jesús hann?

▪ Hvernig er ástatt á heimili Jaírusar þegar þeir koma þangað?

▪ Af hverju segir Jesús að barnið sofi aðeins þótt það sé dáið?

▪ Hverjir fimm eru með Jesú og verða vitni að upprisunni?