Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Grafinn á föstudegi, tóm gröf á sunnudegi

Grafinn á föstudegi, tóm gröf á sunnudegi

Kafli 127

Grafinn á föstudegi, tóm gröf á sunnudegi

LANGT er liðið á föstudag og hvíldardagurinn 15. nísan hefst við sólsetur. Líkami Jesú hangir lífvana á staurnum en ræningjarnir tveir við hlið hans eru enn á lífi. Föstudagssíðdegi er kallað „aðfangadagur“ því að þá er matbúið og lokið öllum öðrum aðkallandi verkum sem ekki geta beðið fram yfir hvíldardag.

Hvíldardagurinn, sem nú er að hefjast, er ekki venjulegur hvíldardagur (sjöundi dagur vikunnar) heldur tvöfaldur eða ‚mikill‘ hvíldardagur. Hann er svo nefndur af því að 15. nísan, sem er fyrsti dagur hinnar sjö daga hátíðar ósýrðu brauðanna (og er alltaf hvíldardagur óháð vikudegi), ber upp á sama dag og hinn venjulega hvíldardag.

Samkvæmt lögmáli Guðs má lík ekki hanga á tré næturlangt. Gyðingar biðja Pílatus því að fótbrjóta þá sem verið er að lífláta til að flýta dauða þeirra. Hermennirnir brjóta því fótleggi ræningjanna tveggja. En þar eð Jesús virðist látinn eru fætur hans ekki brotnir. Þar með rætist ritningargreinin: „Ekkert bein hans skal brotið.“

En til að ganga fyllilega úr skugga um að Jesús sé virkilega látinn stingur einn af hermönnunum spjóti í síðu hans. Spjótið stingst inn við hjartað og jafnskjótt rennur út blóð og vatn. Jóhannes postuli, sem er sjónarvottur að þessu, segir að þar með rætist önnur ritningargrein: „Þeir munu horfa til hans, sem þeir stungu.“

Jósef nokkur frá Arímaþeu, virtur meðlimur æðstaráðsins, er einnig viðstaddur aftökuna. Hann hafði neitað að greiða atkvæði með ranglátum dómi hæstaréttarins yfir Jesú. Jósef er raunar lærisveinn hans þótt hann hafi ekki þorað að gera það uppskátt. En nú sýnir hann hugrekki og fer til Pílatusar og biður um líkama Jesú. Pílatus kallar á liðsforingjann, sem sér um aftökuna, og lætur afhenda líkið eftir að hafa fengið staðfest að Jesús sé látinn.

Jósef tekur líkið og sveipar það hreinu línklæði til greftrunar. Nikódemus, annar meðlimur æðstaráðsins, aðstoðar hann. Nikódemus hefur ekki heldur játað trú sína á Jesú af ótta við að missa stöðuna. En nú kemur hann með blöndu af myrru og dýrri alóe, um hundrað rómversk pund (33 kílógrömm). Líkami Jesú er vafinn í línblæjur með þessum ilmjurtum eins og Gyðingar eru vanir að búa lík til greftrunar.

Jósef á nýja gröf sem höggvin er í klett í grasgarðinum þar í grennd. Lík Jesú er lagt í gröfina. Loks er stórum steini velt fyrir grafarmunnann. Menn þurfa að hafa hraðar hendur við að búa líkið til greftrunar til að ljúka henni fyrir hvíldardaginn. María Magdalena og María móðir Jakobs yngri, sem hafa ef til vill aðstoðað við undirbúninginn, hraða sér því heim til að útbúa meiri ilmjurtir og smyrsl. Eftir hvíldardaginn ætla þær að meðhöndla lík Jesú frekar til að það varðveitist lengur.

Næsta dag, sem er laugardagur (hvíldardagurinn), ganga æðstuprestarnir og farísearnir á fund Pílatusar og segja: „Herra, vér minnumst þess, að svikari þessi sagði í lifanda lífi: ‚Eftir þrjá daga rís ég upp.‘ Bjóð því, að grafarinnar sé vandlega gætt allt til þriðja dags, ella gætu lærisveinar hans komið og stolið honum og sagt fólkinu: ‚Hann er risinn frá dauðum.‘ Þá verða síðari svikin verri hinum fyrri.“

„Hér hafið þér varðmenn,“ svarar Pílatus, „farið og búið svo tryggilega um sem best þér kunnið.“ Þeir fara því og ganga tryggilega frá gröfinni með því að innsigla steininn og láta rómversku hermennina standa þar vörð.

Árla morguns á sunnudegi koma María Magdalena og María móðir Jakobs, ásamt þeim Salóme, Jóhönnu og fleiri konum, til grafarinnar með ilmsmyrsl til að meðhöndla lík Jesú. Á leiðinni segja þær sín á milli: „Hver mun velta fyrir oss steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær koma á staðinn uppgötva þær að jarðskjálfti hefur orðið og engill Jehóva velt steininum frá. Verðirnir eru farnir og gröfin tóm! Matteus 27:57–28:2; Markús 15:42–16:4; Lúkas 23:50–24:3, 10; Jóhannes 19:14; 19:31–20:1; 12:42; 3. Mósebók 23:5-7; 5. Mósebók 21:22, 23; Sálmur 34:21; Sakaría 12:10.

▪ Af hverju er föstudagur kallaður „aðfangadagur“ og hvað er ‚mikill‘ hvíldardagur?

▪ Hvaða ritningargreinar rætast í sambandi við líkama Jesú?

▪ Hvað gera Jósef og Nikódemus í tengslum við greftrun Jesú og hvert er samband þeirra við hann?

▪ Um hvað biðja æðstuprestarnir Pílatus og hverju svarar hann?

▪ Hvað gerist snemma á sunnudagsmorgni?