Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hún snerti klæði hans

Hún snerti klæði hans

Kafli 46

Hún snerti klæði hans

ÞAÐ fréttist í Kapernaum að Jesús sé kominn aftur frá Dekapólis og mikill mannfjöldi safnast saman við vatnið til að fagna honum. Eflaust hafa menn frétt hvernig hann lægði storminn og læknaði menn haldna illum öndum. Fólk safnast kringum hann, ákaft og eftirvæntingarfullt, þegar hann stígur á land.

Einum manni er mikið í mun að hitta Jesú, en það er Jaírus, forstöðumaður samkundunnar. Hann fellur til fóta Jesú og þrábiður hann: „Dóttir mín litla er að dauða komin. Kom og legg hendur yfir hana, að hún læknist og lifi.“ Hún er einkabarn Jaírusar og aðeins tólf ára þannig að honum þykir sérstaklega vænt um hana.

Jesús fer með Jaírusi og heldur til heimilis hans ásamt mannfjöldanum. Við getum ímyndað okkur hve eftirvæntingarfullt fólkið er því það býst við að sjá enn eitt kraftaverk. En kona ein í mannþrönginni er með hugann við sitt eigið vandamál.

Í tólf löng ár hefur þessi kona haft stöðugar blæðingar. Hún hefur leitað til eins læknis eftir annan og kostað aleigunni í læknismeðferð án þess að fá bata. Henni hefur aðeins versnað.

Þú getur rétt ímyndað þér hve sjúkdómurinn hefur dregið úr henni þróttinn, að ekki sé talað um óþægindin og auðmýkinguna sem fylgir honum. Fólk talar yfirleitt ekki á almannafæri um slíkan sjúkdóm. Og samkvæmt Móselögunum er kona óhrein meðan hún hefur tíðablæðingar, og hver sá sem snertir hana eða óhrein föt hennar þarf að baða sig og vera óhreinn til kvölds.

Konan hefur frétt af kraftaverkum Jesú og leitað hann uppi. Sökum þess að hún telst óhrein reynir hún að láta sem minnst á sér bera þegar hún smeygir sér gegnum mannþröngina, og hún segir við sjálfa sig: „Ef ég fæ aðeins snert klæði hans, mun ég heil verða.“ Um leið og hún gerir það finnur hún að blæðingarnar hafa stöðvast!

„Hver var það, sem snart mig?“ spyr Jesús. Henni hlýtur að bregða við orð hans! Hvernig gat hann vitað það? ‚Meistari,‘ andmælir Pétur,‘ ‚mannfjöldinn treðst að þér og þrýstir á, og þó spyrð þú: „Hver snart mig?“‘

Jesús litast um eftir konunni og segir: „Einhver snart mig, því að ég fann, að kraftur fór út frá mér.“ Þetta var engin venjuleg snerting því að lækningin, sem hún olli, dró kraft frá Jesú.

Konan sér nú að hún fær ekki dulist svo að hún fellur skjálfandi og óttaslegin að fótum Jesú. Að öllum áheyrandi segir hún allan sannleikann um sjúkdóm sinn og hvernig hún hafi nú læknast.

Jesús er snortinn af játningu hennar, hughreystir hana hlýlega og segir: „Dóttir, trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði, og ver heil meina þinna.“ Það er gott til þess að vita að sá sem Guð hefur valið til að stjórna jörðinni er svona hlýlegur og meðaumkunarsamur, og ber bæði umhyggju fyrir fólki og hefur vald og mátt til að hjálpa því! Matteus 9:18-22; Markús 5:21-34; Lúkas 8:40-48; 3. Mósebók 15:25-27.

▪ Hver er Jaírus og hvers vegna kemur hann til Jesú?

▪ Hvað hrjáir konu eina og hvers vegna er mjög erfitt fyrir hana að leita hjálpar hjá Jesú?

▪ Hvernig læknast konan og hvernig hughreystir Jesús hana?