Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Hið sanna brauð af himni“

„Hið sanna brauð af himni“

Kafli 54

„Hið sanna brauð af himni“

GÆRDAGURINN hafði verið viðburðaríkur. Jesús vann það kraftaverk að metta þúsundir manna og komst síðan hjá því að fólkið gerði hann að konungi. Um nóttina gekk hann í stormi á Galíleuvatni, bjargaði Pétri sem tók að sökkva þegar hann gekk á ólgandi vatninu og lægði öldurnar til að forða lærisveinunum frá skipbroti.

Fólkið, sem Jesús hafði mettað með kraftaverki norðaustur af Galíleuvatni, finnur hann nú í grennd við Kapernaum og spyr: ‚Hvenær komstu hingað?‘ Jesús ávítar fólkið fyrir að leita sín aðeins af því að það vonast eftir annarri ókeypis máltíð. Hann hvetur það til að afla sér ekki þeirrar fæðu sem eyðist heldur þeirrar sem varir til eilífs lífs. Fólkið spyr því: „Hvað eigum vér að gjöra, svo að vér vinnum verk Guðs?“

Jesús nefnir aðeins eitt verk sem er öðru mikilvægara og segir: „Þetta er verk Guðs, að þér trúið á þann, sem hann sendi.“

En fólkið trúir ekki á Jesú þrátt fyrir öll kraftaverkin sem hann hefur unnið. Eftir allt sem hann hefur gert spyr fólkið þótt ótrúlegt sé: „Hvaða tákn gjörir þú, svo að vér sjáum og trúum þér? Hvað afrekar þú? Feður vorir átu manna í eyðimörkinni, eins og ritað er: ‚Brauð af himni gaf hann þeim að eta.‘“

Jesús svarar beiðni fólksins um tákn með því að taka skýrt fram hvaðan þessar undraverðu gjafir séu: „Móse gaf yður ekki brauðið af himni, heldur gefur faðir minn yður hið sanna brauð af himni. Brauð Guðs er sá, sem stígur niður af himni og gefur heiminum líf.“

„Herra, gef oss ætíð þetta brauð,“ segir fólkið.

„Ég er brauð lífsins,“ útskýrir Jesús. „Þann mun ekki hungra, sem til mín kemur, og þann aldrei þyrsta, sem á mig trúir. En ég hef sagt við yður: Þér hafið séð mig og trúið þó ekki. Allt sem faðirinn gefur mér, mun koma til mín, og þann sem kemur til mín, mun ég alls eigi brott reka. Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gjöra vilja minn, heldur vilja þess, er sendi mig. En sá er vilji þess, sem sendi mig, að ég glati engu af öllu því, sem hann hefur gefið mér, heldur reisi það upp á efsta degi. Því sá er vilji föður míns, að hver sem sér soninn og trúir á hann, hafi eilíft líf.“

Þegar Jesús segir: „Ég er brauðið, sem niður steig af himni,“ kemur upp kurr meðal Gyðinga. Í augum þeirra er hann bara sonur mennskra foreldra og þeir andmæla því alveg eins og Nasaretbúar áður: „Er þetta ekki hann Jesús, sonur Jósefs? Vér þekkjum bæði föður hans og móður. Hvernig getur hann sagt, að hann sé stiginn niður af himni?“

„Verið ekki með kurr yðar á meðal,“ segir Jesús. „Enginn getur komið til mín, nema faðirinn, sem sendi mig, dragi hann, og ég mun reisa hann upp á efsta degi. Hjá spámönnunum er skrifað: ‚Þeir munu allir verða af [Jehóva] fræddir.‘ Hver sem hlýðir á föðurinn og lærir af honum, kemur til mín. Ekki er það svo, að nokkur hafi séð föðurinn. Sá einn, sem er frá Guði, hefur séð föðurinn. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir, hefur eilíft líf.“

Jesús endurtekur: „Ég er brauð lífsins. Feður yðar átu manna í eyðimörkinni, en þeir dóu. Þetta er brauðið, sem niður stígur af himni. Sá sem etur af því, deyr ekki. Ég er hið lifandi brauð, sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði, mun lifa að eilífu.“ Já, með því að trúa á Jesú, sem Guð sendi, geta menn hlotið eilíft líf. Ekkert manna og ekkert annað brauð getur veitt mönnum slíkt!

Orðaskiptin um brauðið af himni hófust greinilega skömmu eftir að fólkið fann Jesú í nánd við Kapernaum. En umræðan heldur áfram og nær hámarki síðar þegar Jesús kennir í samkunduhúsi í Kapernaum. Jóhannes 6:25-51, 59; Sálmur 78:24; Jesaja 54:13; Matteus 13:55-57.

▪ Hvað átti sér stað áður en Jesús ræðir um brauðið af himni?

▪ Hvers vegna er mjög óviðeigandi að fólkið skuli biðja um tákn, í ljósi þess sem Jesús hefur gert skömmu áður?

▪ Af hverju kemur upp kurr meðal Gyðinga þegar Jesús segist vera hið sanna brauð af himni?

▪ Hvar áttu orðaskiptin um brauðið af himni sér stað?