Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hinir stoltu og hinir auðmjúku

Hinir stoltu og hinir auðmjúku

Kafli 39

Hinir stoltu og hinir auðmjúku

EFTIR að Jesús hefur lýst dyggðum Jóhannesar skírara beinir hann athygli sinni að hinu stolta og hverflynda fólki umhverfis sig. ‚Þessi kynslóð er lík börnum sem á torgum sitja og kallast á: „Vér lékum fyrir yður á flautu og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð, og ekki vilduð þér syrgja,“‘ segir hann.

Hvað á Jesús við? Hann útskýrir: „Jóhannes kom, át hvorki né drakk, og menn segja: ‚Hann hefur illan anda.‘ Mannssonurinn kom, át og drakk, og menn segja: ‚Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra!“

Það er engin leið að gera fólki til geðs. Því finnst ekkert nógu gott. Jóhannes hefur lifað fábrotnu lífi í sjálfsafneitun eins og nasírei, í samræmi við yfirlýsingu engilsins: „Aldrei mun hann drekka vín né áfengan drykk.“ Samt segir fólk að hann hafi illan anda. Á hinn bóginn lifir Jesús eins og hver annar maður, án allra meinlæta, og hann er sakaður um óhóf.

Það er sannarlega erfitt að gera fólkinu til hæfis! Það er eins og börn að leik sem vilja ekki dansa þegar leikfélagarnir leika á flautu, eða syrgja þegar leikfélagarnir syngja sorgarljóð. En Jesús segir: „Spekin sannast af verkum sínum.“ Já, ummerkin eða verkin sýna og sanna að ásakanirnar á hendur Jóhannesi og Jesú eru rangar.

Jesús heldur áfram og ávítar borgirnar Kórasín, Betsaídu og Kapernaum þar sem hann hefur unnið flest kraftaverkin. Ef hann hefði unnið þessi verk í fönikísku borgunum Týrus og Sídon hefðu þær iðrast í sekk og ösku. Hann fordæmir Kapernaum, sem virðist hafa verið starfsbækistöð hans meðan þjónusta hans hefur staðið yfir, og segir: „Landi Sódómu mun bærilegra á dómsdegi en þér.“

Því næst vegsamar Jesús himneskan föður sinn. Hann finnur sig knúinn til þess af því að Guð hylur dýrmæt, andleg sannindi fyrir spekingum og menntamönnum en opinberar þau auðmjúkum mönnum eða smælingjum.

Loks hvetur Jesús hlýlega: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“

Hvernig veitir Jesús hvíld? Með því að leysa menn úr fjötrum þjakandi erfikenninga sem trúarleiðtogarnir hafa íþyngt fólki með, þeirra á meðal hinna ströngu hvíldardagsákvæða. Einnig bendir hann þeim á undankomuleið sem eru að kikna undan yfirdrottnun pólitískra yfirvalda og þeim sem eru sakbitnir vegna synda sinna. Hann opinberar slíkum þjáðum mönnum hvernig þeir geti fengið syndafyrirgefningu og eignast dýrmætt samband við Guð.

Hið ljúfa ok Jesú er fólgið í hugheilli vígslu til Guðs, í þeim tilgangi að þjóna miskunnsömum og meðaumkunarsömum föður okkar á himnum. Og hin létta byrði, sem Jesús býður þeim er koma til hans, er sú að hlýða kröfum Guðs sem veita mönnum líf, það er að segja boðorðum hans sem skráð eru í Biblíunni. Og það er engin byrði að hlýða þeim. Matteus 11:16-30; Lúkas 1:15; 7:31-35; 1. Jóhannesarbréf 5:3.

▪ Á hvaða hátt er hin stolta og hverflynda kynslóð manna á dögum Jesú eins og börn?

▪ Af hverju finnur Jesús sig knúinn til að vegsama himneskan föður sinn?

▪ Hvað íþyngir fólki og hvaða létti býður Jesús?