Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað er leyfilegt á hvíldardegi?

Hvað er leyfilegt á hvíldardegi?

Kafli 32

Hvað er leyfilegt á hvíldardegi?

Á ÖÐRUM hvíldardegi kemur Jesús í samkunduhús nálægt Galíleuvatni. Þar er maður með visna hægri hönd. Fræðimenn og farísear fylgjast grannt með því hvort Jesús lækni manninn. Loks spyrja þeir: „Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi?“

Trúarleiðtogar Gyðinga telja að það megi einungis lækna á hvíldardegi ef maður er í lífshættu. Þeir kenna til dæmis að ekki megi setja saman brotið bein eða binda um tognaðan útlim á hvíldardegi. Fræðimennirnir og farísearnir eru því að spyrja Jesú í þeim tilgangi að geta ákært hann.

Jesús veit hvað þeir eru að hugsa. En honum er líka ljóst að þeir hafa mjög öfgafulla og óbiblíulega skoðun á því hvað sé brot á banninu gegn því að vinna á hvíldardegi. Hann býður þeim því birginn og segir manninum með visnu höndina: „Statt upp og kom hér fram!“

Síðan snýr Jesús sér að fræðimönnunum og faríseunum og spyr: „Nú á einhver yðar eina sauðkind, og hún fellur í gryfju á hvíldardegi. Mundi hann ekki taka hana og draga upp úr?“ Þar eð sauðkind er verðmæt fjárfesting myndu þeir ekki láta hana liggja í gryfjunni til næsta dags því hún gæti veikst og þeir orðið fyrir tjóni. Auk þess segir Ritningin: „Hinn réttláti er nærgætinn um þörf skepna sinna.“

Jesús heldur áfram að útskýra líkinguna: „Hve miklu er þó maðurinn sauðkindinni fremri! Það er því leyfilegt að gjöra góðverk á hvíldardegi.“ Trúarleiðtogarnir þegja enda geta þeir ekki hrakið þessi rök sem bera vott um miskunn og meðaumkun.

Jesús lítur í kringum sig, reiður og hryggur yfir heimskulegri þrjósku þeirra. Síðan segir hann manninum: „Réttu fram hönd þína.“ Og hann réttir fram höndina og hún verður heil.

Í stað þess að gleðjast yfir því að maðurinn skuli læknast ganga farísearnir út og bindast þegar í stað samtökum við Heródesarsinna um að ráða Jesú af dögum. Í þessum stjórnmálaflokki eru líka saddúkear. Að jafnaði eru Heródesarsinnar og farísear fjandmenn, en þeir eru hins vegar einhuga í andstöðu sinni gegn Jesú. Matteus 12:9-14; Markús 3:1-6; Lúkas 6:6-11; Orðskviðirnir 12:10; 2. Mósebók 20:8-10.

▪ Hvernig skerst í odda með Jesú og trúarleiðtogum Gyðinga?

▪ Hvaða skoðun hafa þessir trúarleiðtogar á því að lækna á hvíldardegi?

▪ Hvaða líkingu notar Jesús til að hrekja rangar skoðanir þeirra?