Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað saurgar manninn?

Hvað saurgar manninn?

Kafli 56

Hvað saurgar manninn?

ANDSTAÐAN gegn Jesú færist í aukana. Hvort tveggja er að margir af lærisveinunum hafa yfirgefið hann og eins sitja Gyðingar í Júdeu um líf hans líkt og þeir gerðu þegar hann var í Jerúsalem um páskana árið 31.

Nú er komið að páskum árið 32. Líklega fer Jesús til Jerúsalem til að halda páska eins og lögmál Guðs kveður á um, en lætur lítið á sér bera því að líf hans er í hættu. Hann snýr svo aftur til Galíleu.

Jesús er ef til vill í Kapernaum þegar farísear og fræðimenn frá Jerúsalem koma til hans. Þeir eru að leita færis á að ákæra hann fyrir brot á trúarlögunum. „Hvers vegna brjóta lærisveinar þínir erfikenning forfeðranna?“ spyrja þeir. „Þeir taka ekki handlaugar, áður en þeir neyta matar.“ Lögmál Guðs krefst þess ekki að menn haldi þennan helgisið, sem felur meðal annars í sér að þvo sér upp fyrir olnboga, en farísearnir álíta það alvarlegt brot að gera það ekki.

Jesús svarar ekki ásökun þeirra heldur bendir á að þeir séu forhertir og brjóti lög Guðs vísvitandi. „Hvers vegna brjótið þér sjálfir boðorð Guðs sakir erfikenningar yðar?“ spyr hann. „Guð hefur sagt: ‚Heiðra föður þinn og móður,‘ og: ‚Hver sem formælir föður eða móður, skal dauða deyja.‘ En þér segið: Hver sem segir við föður sinn eða móður: ‚Það sem þér hefði getað orðið til styrktar frá mér, er musterisfé,‘ hann á ekki að heiðra föður sinn.“

Farísearnir kenna að lausafé, fasteignir eða annað, sem er helgað Guði, tilheyri musterinu og megi ekki nota til einhvers annars. En í rauninni heldur maðurinn sjálfur því sem hann hefur helgað Guði. Með þessum hætti getur sonur einfaldlega sagt að fjármunir sínir eða eignir séu „korban“ — það er að segja helgað Guði eða musterinu — og skotið sér undan ábyrgð sinni að hjálpa öldruðum foreldrum sem líða ef til vill skort.

Jesús er réttilega reiður yfir því hvernig farísearnir rangsnúa lögmáli Guðs og segir: „Þér ógildið orð Guðs með erfikenning yðar. Hræsnarar, sannspár var Jesaja um yður, er hann segir: Lýður þessi heiðrar mig með vörunum, en hjarta þeirra er langt frá mér. Til einskis dýrka þeir mig, er þeir kenna þá lærdóma, sem eru mannasetningar einar.“

Mannfjöldinn hefur kannski dregið sig í hlé til að gefa faríseunum færi á að spyrja Jesú. En núna, þegar farísearnir geta ekki svarað hörðum ákúrum Jesú, kallar hann mannfjöldann til sín. „Heyrið mig allir, og skiljið,“ segir hann. „Ekkert er það utan mannsins, er saurgi hann, þótt inn í hann fari. Hitt saurgar manninn, sem út frá honum fer.“

Síðar, þegar þeir eru komnir inn í hús, spyrja lærisveinarnir: „Veistu, að farísearnir hneyksluðust, þegar þeir heyrðu orð þín?“

„Sérhver jurt, sem faðir minn himneskur hefur eigi gróðursett, mun upprætt verða,“ svarar Jesús. „Látið þá eiga sig! Þeir eru blindir, leiðtogar blindra. Ef blindur leiðir blindan, falla báðir í gryfju.“

Jesús virðist undrandi þegar Pétur biður um skýringu fyrir hönd lærisveinanna á því hvað saurgi manninn. „Eruð þér líka skilningslausir ennþá?“ svarar Jesús. „Skiljið þér ekki, að allt sem inn kemur í munninn, fer í magann og lendir síðan í safnþrónni? En það sem út fer af munni, kemur frá hjartanu. Og slíkt saurgar manninn. Því að frá hjartanu koma illar hugsanir, manndráp, hórdómur, saurlifnaður, þjófnaður, ljúgvitni, lastmælgi. Þetta er það, sem saurgar manninn. En að eta með óþvegnum höndum saurgar engan mann.“

Jesús er ekki að gera lítið úr eðlilegu hreinlæti. Hann er ekki að halda því fram að maður þurfi ekki að þvo sér um hendurnar áður en hann matbýr eða matast. Hann er að fordæma hræsni trúarleiðtoganna sem reyna með undirferli að sniðganga réttlát lög Guðs með því að halda fram óbiblíulegum erfikenningum. Það eru vond verk sem saurga manninn og Jesús sýnir fram á að þau eigi upptök sín í hjartanu. Jóhannes 7:1; 5. Mósebók 16:16; Matteus 15:1-20; Markús 7:1-23; 2. Mósebók 20:12; 21:17; Jesaja 29:13.

▪ Hvaða andstöðu mætir Jesús núna?

▪ Hvaða ákæru bera farísearnir fram, en hvernig brjóta þeir lögmál Guðs vísvitandi að sögn Jesú?

▪ Hvað segir Jesús að saurgi manninn?