Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna Jesús kom til jarðar

Hvers vegna Jesús kom til jarðar

Kafli 24

Hvers vegna Jesús kom til jarðar

JESÚS hefur átt annasaman dag í Kapernaum með lærisveinum sínum fjórum. Um kvöldið komu Kapernaumbúar til hans með alla sjúka ástvini sína til að hann læknaði þá. Hann hefur ekki haft næði til að vera einn.

Jesús fer snemma á fætur næsta morgun, löngu fyrir dögun, og fer einsamall út. Hann fer á afskekktan stað þar sem hann getur beðið til föður síns í einrúmi. En hann fær ekki að vera lengi í næði því að Pétur og hinir fara að leita að honum þegar þeir uppgötva að hann er horfinn.

Þegar þeir finna hann segir Pétur: „Allir eru að leita að þér.“ Kapernaumbúar vilja að Jesús sé um kyrrt hjá sér. Þeir kunna vel að meta það sem hann hefur gert fyrir þá! En kom Jesús til jarðar fyrst og fremst til að vinna kraftaverk og lækna fólk? Hvað segir hann um það?

Samkvæmt einni af frásögum Biblíunnar svarar Jesús lærisveinunum: „Vér skulum fara annað, í þorpin hér í grennd, svo að ég geti einnig prédikað þar, því að til þess er ég kominn.“ Þótt fólkið hvetji Jesú til að vera um kyrrt segir hann: „Mér ber og að flytja hinum borgunum fagnaðarerindið um Guðs ríki, því að til þess var ég sendur.“

Já, Jesús kom fyrst og fremst til jarðar til að prédika Guðsríki sem mun réttlæta nafn föður hans og lækna öll mannanna mein fyrir fullt og allt. En Jesús læknar fólk á undraverðan hátt til að sýna að hann sé sendur af Guði. Móse hafði öldum áður unnið kraftaverk til að staðfesta að hann væri þjónn Guðs.

Jesús fer nú frá Kapernaum til að prédika í öðrum borgum, og lærisveinarnir fjórir með honum. Þetta eru bræðurnir Pétur og Andrés ásamt bræðrunum Jóhannesi og Jakobi. Þú manst að það er bara vika síðan Jesús bauð þeim fyrstum að ferðast með sér sem starfsfélagar.

Prédikunarferð Jesú um Galíleu með lærisveinunum fjórum ber frábæran árangur! Fregnirnar af starfi hans berast meira að segja um allt Sýrland. Mikill mannfjöldi kemur frá Galíleu, Júdeu og landinu handan Jórdanar, og fylgir Jesú og lærisveinum hans. Markús 1:35-39; Lúkas 4:42, 43; Matteus 4:23-25; 2. Mósebók 4:1-9, 30, 31.

▪ Hvað gerist morguninn eftir annasaman dag í Kapernaum?

▪ Hvers vegna var Jesús sendur til jarðar og hvaða tilgangi þjóna kraftaverk hans?

▪ Hverjir ferðast með Jesú er hann prédikar í Galíleu og hvernig bregst fólk við starfi hans?