Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jóhannes minnkar, Jesús vex

Jóhannes minnkar, Jesús vex

Kafli 18

Jóhannes minnkar, Jesús vex

JESÚS og lærisveinar hans yfirgefa Jerúsalem eftir páska vorið 30. En þeir halda ekki heimleiðis til Galíleu heldur fara til Júdeu þar sem þeir skíra niðurdýfingarskírn. Jóhannes skírari hefur einnig skírt í um það bil ár og er enn með lærisveina með sér.

Jesús skírir reyndar ekki sjálfur heldur gera lærisveinarnir það undir leiðsögn hans. Þessi skírn felur í sér hið sama og skírn Jóhannesar; hún er tákn um iðrun Gyðinga vegna synda þeirra gegn lagasáttmála Guðs. En eftir upprisu sína felur Jesús lærisveinunum að skíra skírn sem hefur aðra merkingu. Kristin skírn nú á dögum er tákn þess að maður hafi vígst til að þjóna Jehóva Guði.

En núna, snemma á þjónustutíma Jesú, eru bæði hann og Jóhannes að kenna iðrunarfullum mönnum og skíra þá, þótt þeir starfi hvor í sínu lagi. Lærisveinar Jóhannesar verða hins vegar öfundsjúkir og kvarta undan Jesú við Jóhannes: „Rabbí, . . . hann er að skíra, og allir koma til hans.“

En Jóhannes er ekki öfundsjúkur heldur gleðst yfir velgengni Jesú og vill að lærisveinar sínir gleðjist líka. Hann segir þeim: „Þér getið sjálfir vitnað um, að ég sagði: ‚Ég er ekki Kristur, heldur er ég sendur á undan honum.‘“ Síðan kemur hann með fallega samlíkingu: „Sá er brúðguminn, sem á brúðina, en vinur brúðgumans, sem stendur hjá og hlýðir á hann, gleðst mjög við rödd hans. Þessi gleði er nú mín að fullu.“

Jóhannes er vinur brúðgumans og hann fagnaði um sex mánuðum áður þegar hann leiddi lærisveina sína til Jesú. Sumir þeirra urðu síðar hluti af himneskum brúðarhópi Krists sem myndaður er af andasmurðum kristnum mönnum. Jóhannes vill að núverandi lærisveinar sínir fylgi Jesú líka, því að verkefni hans er að undirbúa veginn fyrir árangursríka þjónustu Krists. Eins og Jóhannes skírari segir: „Hann á að vaxa, en ég að minnka.“

Jóhannes, nýr lærisveinn Jesú sem hafði áður verið lærisveinn Jóhannesar skírara, skrifar um uppruna Jesú og þýðingarmikið hlutverk hans í hjálpræði mannkyns: „Sá sem kemur að ofan, er yfir öllum. . . . Faðirinn elskar soninn og hefur lagt allt í hönd honum. Sá sem trúir á soninn, hefur eilíft líf, en sá sem óhlýðnast syninum, mun ekki sjá líf, heldur varir reiði Guðs yfir honum.“

Skömmu eftir að Jóhannes skírari talar um að starf sitt eigi að minnka lætur Heródes konungur handtaka hann. Heródes hefur tekið sér fyrir eiginkonu, Heródías, konu Filippusar bróður síns, og þegar Jóhannes lýsir opinberlega yfir að það sé rangt lætur Heródes hneppa hann í fangelsi. Er Jesús fréttir af handtöku Jóhannesar yfirgefur hann Júdeu og heldur ásamt lærisveinum sínum til Galíleu. Jóhannes 3:22–4:3; Postulasagan 19:4; Matteus 28:19; 2. Korintubréf 11:2; Markús 1:14; 6:17-20.

▪ Hvað merkir skírnin sem gerð er undir handleiðslu Jesú fyrir upprisu hans? En skírnin eftir upprisu hans?

▪ Hvernig sýnir Jóhannes fram á að kvörtun lærisveina hans sé tilefnislaus?

▪ Af hverju er Jóhannes hnepptur í fangelsi?