Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jóhannes undirbýr veginn

Jóhannes undirbýr veginn

Kafli 11

Jóhannes undirbýr veginn

SAUTJÁN ár eru liðin síðan Jesús var að spyrja kennarana í musterinu út úr, þá 12 ára gamall. Þetta er vorið 29, og allir virðast vera að tala um Jóhannes, frænda Jesú, sem er að prédika um alla byggðina umhverfis Jórdan.

Jóhannes er tilkomumikill, bæði í útliti og tali. Hann klæðist fötum úr úlfaldahári og er með leðurbelti um mittið. Til matar hefur hann engisprettur og villihunang. Og hver er boðskapur hans? „Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd.“

Þessi boðskapur hrífur áheyrendur hans. Margir skilja að þeir þurfa að iðrast, það er að segja að breyta hugarfari sínu og snúa baki við fyrra líferni sem var ekki eins og það átti að vera. Menn streyma því stórum hópum til Jóhannesar frá allri Jórdanbyggð og jafnvel frá Jerúsalem, og hann skírir þá niðurdýfingarskírn í ánni. Hvers vegna?

Með því að skírast hjá Jóhannesi er fólk að gefa tákn um eða viðurkenna að það iðrist í einlægni synda sinna gegn lagasáttmála Guðs. Þess vegna fordæmir Jóhannes farísea og saddúkea sem koma til hans að ánni Jórdan. „Þér nöðru kyn,“ segir hann. „Berið . . . ávöxt samboðinn iðruninni! Látið yður ekki til hugar koma, að þér getið sagt með sjálfum yður: ‚Vér eigum Abraham að föður.‘ Ég segi yður, að Guð getur vakið Abraham börn af steinum þessum. Öxin er þegar lögð að rótum trjánna, og hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað.“

Allur þessi áhugi manna á Jóhannesi verður til þess að Gyðingar senda til hans presta og levíta sem spyrja hann: „Hver ert þú?“

„Ekki er ég Kristur,“ segir Jóhannes.

„Hvað þá?“ spyrja þeir. „Ertu Elía?“

„Ekki er ég hann,“ svarar Jóhannes.

„Ertu spámaðurinn?“

Hann kveður nei við.

Þá krefjast þeir svars: „Hver ertu? Vér verðum að svara þeim, er sendu oss. Hvað segir þú um sjálfan þig?“

Jóhannes svarar: „Ég er rödd hrópanda í eyðimörk: Gjörið beinan veg [Jehóva], eins og Jesaja spámaður segir.“

„Hvers vegna skírir þú,“ spyrja þeir, „fyrst þú ert hvorki Kristur, Elía né spámaðurinn?“

„Ég skíri með vatni,“ svarar hann. „Mitt á meðal yðar stendur sá, sem þér þekkið ekki, hann, sem kemur eftir mig.“

Jóhannes er að undirbúa veginn með því að koma fólki í rétt hugarástand til að taka við Messíasi, hinum væntanlega konungi. Jóhannes segir um hann: „Sá sem kemur eftir mig, er mér máttugri, og er ég ekki verður að bera skó hans.“ Hann bætir meira að segja við: „Sá sem kemur eftir mig, var á undan mér, enda fyrri en ég.“

Þegar Jóhannes segir: „Himnaríki er í nánd,“ er hann því að tilkynna opinberlega að þjónusta hins útnefnda konungs Jehóva, Jesú Krists, sé í þann mund að hefjast. Jóhannes 1:6-8, 15-28; Matteus 3:1-12; Lúkas 3:1-18; Postulasagan 19:4.

▪ Hvers konar maður er Jóhannes?

▪ Hvers vegna skírir Jóhannes?

▪ Af hverju getur Jóhannes sagt að himnaríki sé í nánd?