Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jesús ávítar faríseana

Jesús ávítar faríseana

Kafli 42

Jesús ávítar faríseana

EF ÞAÐ er með valdi Satans sem Jesús rekur út illa anda, þá er Satan að berjast gegn sjálfum sér. „Annaðhvort er tréð gott og ávöxturinn góður eða tréð vont og ávöxturinn vondur. Því af ávextinum þekkist tréð,“ heldur Jesús áfram.

Það er heimskulegt að halda því fram að hinn góði ávöxtur að reka út illa anda stafi af því að Jesús þjóni Satan. Ef ávöxturinn er góður getur tréð ekki verið vont. Vondur ávöxtur faríseanna, það er að segja fáránlegar ásakanir þeirra og tilhæfulaus andstaða þeirra gegn Jesú, sannar hins vegar að þeir eru sjálfir vondir. „Þér nöðru kyn,“ segir Jesús, „hvernig getið þér, sem eruð vondir, talað gott? Af gnægð hjartans mælir munnurinn.“

Þar eð orð okkar endurspegla hjartalagið má dæma okkur af orðunum. „Ég segi yður: Hvert ónytjuorð, sem menn mæla, munu þeir verða að svara fyrir á dómsdegi,“ segir Jesús. „Því af orðum þínum muntu sýknaður, og af orðum þínum muntu sakfelldur verða.“

Þrátt fyrir öll máttarverk Jesú biðja fræðimennirnir og farísearnir: „Meistari, vér viljum sjá þig gjöra tákn.“ Þessir sömu menn frá Jerúsalem hafa kannski ekki sjálfir séð hann vinna kraftaverk sín, en fyrir því er óhrekjandi vitnisburður sjónarvotta. Jesús svarar því þessum leiðtogum Gyðinga: „Vond og ótrú kynslóð heimtar tákn, en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar spámanns.“

Jesús heldur áfram og útskýrir hvað hann á við: „Jónas var í kviði stórhvelisins þrjá daga og þrjár nætur, og eins mun Mannssonurinn vera þrjá daga og þrjár nætur í skauti jarðar.“ Eftir að fiskurinn gleypti Jónas slapp hann út úr honum eins og upprisinn. Jesús er því að segja fyrir að hann eigi eftir að deyja og verða reistur upp á þriðja degi. En leiðtogar Gyðinga hafna ‚tákni Jónasar,‘ jafnvel síðar þegar Jesús er reistur upp frá dauðum.

Jesús segir að Nínívemenn, sem iðruðust við prédikun Jónasar, rísi upp í dóminum til að sakfella Gyðingana sem hafna Jesú. Hann bendir einnig á drottninguna af Saba sem kom frá endimörkum jarðar til að heyra speki Salómons og undraðist það sem hún sá og heyrði. „Og hér er meira en Salómon,“ bendir Jesús á.

Jesús kemur síðan með líkingu um mann sem óhreinn andi fer út af. En maðurinn fyllir ekki tómið með neinu góðu þannig að sjö illir andar til viðbótar taka sér bólfestu í honum. „Eins mun fara fyrir þessari vondu kynslóð,“ segir Jesús. Ísraelsþjóðin hafði verið hreinsuð og siðbætt — líkt og óhreinn andi færi út af henni um stund. En með því að hafna spámönnum Guðs, og loks með andstöðu sinni gegn Kristi sjálfum, sýnir hún að hún er miklu verri en áður.

Meðan Jesús er að tala koma móðir hans og bræður og taka sér stöðu í útjaðri mannfjöldans. Einhver segir: „Móðir þín og bræður standa hér úti og vilja tala við þig.“

„Hver er móðir mín, og hverjir eru bræður mínir?“ spyr Jesús. Hann réttir út höndina í átt til lærisveinanna og segir: „Hér er móðir mín og bræður mínir. Hver sem gjörir vilja föður míns, sem er á himnum, sá er bróðir minn, systir og móðir.“ Þannig bendir Jesús á að samband hans við lærisveinana sé honum enn dýrmætara en þau bönd sem binda hann ættingjum sínum, þótt sterk séu. Matteus 12:33-50; Markús 3:31-35; Lúkas 8:19-21.

▪ Hvernig er bæði „tréð“ og „ávöxturinn“ hjá faríseunum?

▪ Hvert er „tákn Jónasar“ og hvernig er því síðar hafnað?

▪ Hvað er líkt með Ísraelsþjóð fyrstu aldar og manninum sem óhreinn andi kom út af?

▪ Hvernig leggur Jesús áherslu á náið samband sitt við lærisveinana?