Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jesús birtist aftur

Jesús birtist aftur

Kafli 129

Jesús birtist aftur

LÆRISVEINARNIR eru enn daprir. Þeir skilja ekki þýðingu tómu grafarinnar og trúa ekki orðum kvennanna. Síðar um daginn, sem er sunnudagur, fara Kleófas og annar lærisveinn frá Jerúsalem til Emmaus sem er um 11 kílómetra leið.

Þeir eru að ræða saman á leiðinni um atburði dagsins þegar ókunnur maður slæst í för með þeim. „Hvað er það, sem þið ræðið svo mjög á göngu ykkar?“ spyr hann.

Lærisveinarnir nema staðar daprir í bragði og Kleófas svarar: „Þú ert víst sá eini aðkomumaður í Jerúsalem, sem veist ekki, hvað þar hefur gjörst þessa dagana.“ Hann spyr: „Hvað þá?“

„Þetta um Jesú frá Nasaret,“ svara þeir. „Höfuðprestar okkar og höfðingjar framseldu hann til dauðadóms og staurfestu hann. En við vonuðum að þessi maður væri sá sem leysa myndi Ísrael.“

Kleófas og félagi hans skýra frá undraverðum atburðum dagsins — frásögninni af því að englar hafi sést í sýn og að gröfin sé tóm — en viðurkenna síðan að þeir skilji ekki hvað þetta merki. Ókunni maðurinn ávítar þá: „Ó, þér heimskir og tregir í hjarta til þess að trúa öllu því, sem spámennirnir hafa talað! Átti ekki Kristur að líða þetta og ganga svo inn í dýrð sína?“ Síðan skýrir hann fyrir þeim ritningargreinar úr hinum helga texta sem fjalla um Krist.

Þeir nálgast nú Emmaus en ókunni maðurinn lætur sem hann ætli að halda ferð sinni áfram. Lærisveinana langar til að heyra meira og hvetja hann: „Vertu hjá oss, því að kvölda tekur og degi hallar.“ Hann staldrar því við og matast með þeim. Þegar hann fer með bæn, brýtur brauðið og fær þeim þekkja þeir að þetta er virkilega Jesús í holdguðum mannslíkama, en þá hverfur hann.

Nú skilja þeir af hverju ókunni maðurinn vissi svona mikið! „Brann ekki hjartað í okkur, meðan hann talaði við okkur á veginum og lauk upp fyrir okkur ritningunum?“ spyrja þeir. Tafarlaust standa þeir upp og hraða sér aftur alla leið til Jerúsalem þar sem þeir finna postulana og hina samankomna með þeim. Áður en Kleófas og félagi hans geta sagt aukatekið orð segja hinir þeim þessi tíðindi mjög ákafir: „Sannarlega er Drottinn upp risinn og hefur birst Símoni.“ Tvímenningarnir segja nú frá hvernig Jesús birtist þeim líka. Hann hefur því birst ýmsum lærisveinum fjórum sinnum þennan dag.

Skyndilega birtist Jesús í fimmta sinn. Hann er allt í einu kominn inn og stendur mitt á meðal þeirra enda þótt þeir hafi læst dyrunum af ótta við Gyðinga. „Friður sé með yður!“ segir hann. Þeir eru skelfingu lostnir því að þeir halda sig sjá anda. Jesús útskýrir þá fyrir þeim að þetta sé ekki sýn og segir: „Hví eruð þér óttaslegnir og hvers vegna vakna efasemdir í hjarta yðar? Lítið á hendur mínar og fætur, að það er ég sjálfur. Þreifið á mér, og gætið að. Ekki hefur andi hold og bein eins og þér sjáið að ég hef.“ Samt eru þeir tregir til að trúa.

Til að auðvelda þeim að skilja að hann sé í raun og veru Jesús spyr hann: „Hafið þér hér nokkuð til matar?“ Eftir að hafa þegið stykki af steiktum fiski og borðað segir hann: „Þessi er merking orða minna, sem ég talaði við yður, meðan ég var enn meðal yðar [fyrir dauða minn], að rætast ætti allt það, sem um mig er ritað í lögmáli Móse, spámönnunum og sálmunum.“

Jesús heldur áfram að kenna þeim og segir: „Svo er skrifað, að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi, og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum iðrun til fyrirgefningar synda og byrja í Jerúsalem. Þér eruð vottar þessa.“

Af einhverri ástæðu er Tómas ekki viðstaddur þessa mikilvægu kvöldsamkomu. Næstu daga segja hinir honum glaðir í bragði: „Vér höfum séð Drottin.“

„Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa,“ andmælir Tómas.

Átta dögum síðar eru lærisveinarnir aftur saman innandyra. Nú er Tómas með þeim. Dyrnar eru læstar en Jesús stendur aftur á meðal þeirra og segir: „Friður sé með yður!“ Síðan snýr hann sér að Tómasi og segir: „Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar, og kom með hönd þína og legg í síðu mína, og vertu ekki vantrúaður.“

„Drottinn minn og Guð minn!“ kallar Tómas upp yfir sig.

„Þú trúir, af því þú hefur séð mig,“ segir Jesús. „Sælir eru þeir, sem hafa ekki séð og trúa þó.“ Lúkas 24:11, 13-48, vers 20, 21 samkvæmt NW; Jóhannes 20:19-29.

▪ Um hvað spyr ókunnur maður tvo lærisveina á veginum til Emmaus?

▪ Hvað segir ókunni maðurinn sem veldur því að hjartað brennur í lærisveinunum?

▪ Á hverju þekkja lærisveinarnir ókunna manninn?

▪ Hvaða spennandi fréttir fá Kleófas og félagi hans þegar þeir koma aftur til Jerúsalem?

▪ Hvernig og hvenær birtist Jesús lærisveinunum í fimmta sinn og hvað gerist þá?

▪ Hvað gerist átta dögum eftir að Jesús birtist í fimmta sinn og hvernig sannfærist Tómas að lokum um að Jesús sé á lífi?