Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jesús fer aftur til Jerúsalem

Jesús fer aftur til Jerúsalem

Kafli 82

Jesús fer aftur til Jerúsalem

JESÚS er aftur á ferðalagi. Hann fer um borgir og þorp og kennir. Hann er á leið til Jerúsalem en fer að því er virðist um Pereu sem er hérað austan Jórdanar gegnt Júdeu.

Gyðingar hafa þá kenningu að einungis takmarkaður fjöldi manna verðskuldi hjálpræði, og það kann að vera ástæðan fyrir því að maður nokkur spyr: „Herra, eru þeir fáir, sem hólpnir verða?“ Með svari sínu neyðir Jesús fólk til að hugsa um hvað sé nauðsynlegt til að öðlast hjálpræði: „Kostið kapps um [það er að segja leggið hart að ykkur, pínið ykkur] að komast inn um þröngu dyrnar.“

Það er mikilvægt að leggja hart að sér vegna þess að „margir,“ segir Jesús, „munu reyna að komast inn og ekki geta.“ Af hverju geta þeir það ekki? Hann útskýrir að ‚þegar húsbóndinn sé staðinn upp og hafi lokað dyrum og fólk standi fyrir utan og knýi á dyr og segi: „Herra, ljúk þú upp fyrir oss!“ þá svari hann: „Ég veit ekki, hvaðan þér eruð, farið frá mér allir illgjörðamenn!“‘

Þeir sem lokaðir eru úti koma greinilega þegar þeim einum hentar, en þá er búið að loka dyrum tækifærisins kirfilega. Þeir hefðu átt að koma fyrr til að komast inn fyrir, jafnvel þótt það hefði kannski verið óþægilegt fyrir þá. Það fer mjög illa fyrir þeim sem fresta því að gera tilbeiðsluna á Jehóva að æðsta markmiði lífsins!

Gyðingarnir, sem Jesús er sendur til að þjóna, hafa fæstir gripið hið stórkostlega tækifæri að þiggja hjálpræðisráðstöfun Guðs. Jesús segir því að þeir muni gráta og gnísta tönnum þegar þeir verði reknir út. Hins vegar mun koma fólk „frá austri og vestri, frá norðri og suðri,“ já, frá öllum þjóðum, „og sitja til borðs í Guðs ríki.“

Jesús heldur áfram: „Til eru síðastir [undirokaðir Gyðingar og fyrirlitnir menn af öðrum þjóðum], er verða munu fyrstir, og til eru fyrstir [efnislega ríkir og trúarlega vel settir Gyðingar], er verða munu síðastir.“ Að svona latir og vanþakklátir menn skuli vera síðastir merkir að þeir erfa alls ekki Guðsríki.

Farísearnir koma nú til Jesú og segja: „Far þú og hald á brott héðan, því að Heródes [Antípas] vill drepa þig.“ Vera má að Heródes hafi sjálfur komið þessum orðrómi af stað til að fá Jesú til að forða sér af svæðinu. Hugsanlegt er að Heródes sé hræddur við að valda dauða annars spámanns Guðs eins og hann olli dauða Jóhannesar skírara. En Jesús segir faríseunum: „Farið og segið ref þeim: ‚Í dag og á morgun rek ég út illa anda og lækna og á þriðja degi mun ég marki ná.‘“

Eftir að hafa lokið verki sínu þarna heldur Jesús áfram ferð sinni til Jerúsalem því að „eigi hæfir, að spámaður bíði dauða annars staðar en í Jerúsalem,“ eins og hann útskýrir. Hvers vegna er viðbúið að Jesús verði drepinn í Jerúsalem? Vegna þess að Jerúsalem er höfuðborgin þar sem 71 manns hæstiréttur Gyðinga, æðstaráðið, hefur aðsetur, og það er þar sem dýrum er fórnað. Það væri því ótækt að „Guðs lamb“ yrði drepið annars staðar en í Jerúsalem.

„Jerúsalem, Jerúsalem! Þú, sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til þín!“ segir Jesús harmþrunginn. „Hversu oft vildi ég safna börnum þínum eins og hænan ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi. Hús yðar verður í eyði látið.“ Þjóðin er dauðadæmd fyrir að hafna syni Guðs!

Á leiðinni til Jerúsalem er Jesú boðið í hús eins af höfðingjum farísea. Það er hvíldardagur og fólk gefur honum gætur því að viðstaddur er vatnssjúkur maður, sennilega með bjúg í handleggjum og fótleggjum. Jesús ávarpar faríseana og lögvitringana, sem eru viðstaddir, og spyr: „Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?“

Enginn segir orð. Jesús læknar því manninn og lætur hann fara. Síðan spyr hann: „Nú á einhver yðar asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp, þótt hvíldardagur sé?“ Sem fyrr svarar honum enginn. Lúkas 13:22–14:6; Jóhannes 1:29.

▪ Hvað er nauðsynlegt til að öðlast hjálpræði eins og Jesús bendir á, og hvers vegna eru margir lokaðir úti?

▪ Hverjir eru þeir ‚síðustu,‘ sem verða fyrstir, og þeir ‚fyrstu‘ sem verða síðastir?

▪ Hver kann að vera ástæðan fyrir þeim orðrómi að Heródes vilji drepa Jesú?

▪ Af hverju hæfir ekki að spámaður sé drepinn annars staðar en í Jerúsalem?