Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jesús kennir í Jeríkó

Jesús kennir í Jeríkó

Kafli 99

Jesús kennir í Jeríkó

STUTTU síðar kemur Jesús og mannfjöldinn, sem er í för með honum, til Jeríkó, borgar sem er um eina dagleið frá Jerúsalem. Jeríkóborg skiptist að því er virðist í tvo hluta. Nýi rómverski borgarhlutinn er í um það bil hálfs annars kílómetra fjarlægð frá hinni gömlu borg Gyðinga. Hópurinn er á leið frá gamla borgarhlutanum til hins nýja þegar tveir blindir beiningamenn eða betlarar heyra að fólk er á ferð. Annar þeirra heitir Bartímeus.

Þegar Bartímeus og félagi hans komast að raun um að það er Jesús sem á leið hjá taka þeir að hrópa: „Herra, miskunna þú okkur, sonur Davíðs!“ Fólkið hastar á þá en þeir hækka róminn og hrópa enn meir: „Herra, miskunna þú okkur, sonur Davíðs!“

Jesús nemur staðar þegar hann heyrir lætin. Hann biður þá sem með honum eru að kalla á mennina sem hrópa. Þeir fara til blindu betlaranna og segja við annan þeirra: „Vertu hughraustur, statt upp, hann kallar á þig.“ Ákafur kastar blindi maðurinn frá sér yfirhöfninni, sprettur á fætur og gengur til Jesú.

„Hvað viljið þið að ég gjöri fyrir ykkur?“ spyr Jesús.

„Herra, lát augu okkar opnast,“ biðja blindu mennirnir tveir.

Jesús kennir í brjósti um þá og snertir augu þeirra. Að sögn Markúsar segir Jesús við annan þeirra: „Far þú, trú þín hefur bjargað þér.“ Blindu betlararnir fá sjónina þegar í stað og eflaust taka þeir báðir að lofa Guð. Þegar mannfjöldinn sér hvað gerst hefur taka allir að vegsama Guð. Bartímeus og félagi hans fylgja Jesú þegar í stað.

Gífurlegur mannfjöldi er á leið Jesú gegnum Jeríkó. Allir vilja sjá manninn sem læknaði blindu mennina. Fólkið þrengir svo að Jesú úr öllum áttum að sumir koma ekki einu sinni auga á hann. Einn þeirra er Sakkeus, yfirtollheimtumaður í Jeríkó og nágrenni. Hann er svo lítill vexti að hann sér ekki hvað fram fer.

Sakkeus hleypur því á undan og klifrar upp í mórberjatré þar sem leið Jesú liggur. Þaðan hefur hann góða yfirsýn yfir allt sem fram fer. Þegar mannfjöldinn nálgast kallar Jesús upp í tréð: „Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu.“ Sakkeus klifrar glaður ofan úr trénu og flýtir sér heim til að taka á móti þessum virta gesti.

En þegar fólkið sér hvað er á seyði tekur það að mögla. Því finnst óviðeigandi að Jesús skuli vera gestur í húsi slíks manns. Sakkeus hefur nefnilega auðgast af því að hafa fé ranglega af fólki við skattheimtuna.

Margt manna fylgir Jesú og þegar hann fer inn á heimili Sakkeusar kvarta þeir: „Hann fer til að gista hjá bersyndugum manni.“ Jesús eygir hins vegar möguleika á að Sakkeus iðrist gerða sinna, og hann verður ekki fyrir vonbrigðum því að Sakkeus stendur upp og tilkynnir: „Herra, helming eigna minna gef ég fátækum, og hafi ég haft nokkuð af nokkrum, gef ég honum ferfalt aftur.“

Sakkeus sannar að iðrun hans sé einlæg með því að gefa fátækum helming eigna sinna og nota hinn helminginn til að endurgreiða þeim sem hann hefur svikið fé af. Ætla má að hann geti reiknað út eftir skattaskrám sínum hve mikið hann skuldar þessu fólki. Hann heitir því að endurgjalda það ferfalt í samræmi við lög Guðs sem segja: ‚Ef maður stelur sauð, þá gjaldi hann aftur fjóra sauði fyrir einn sauð.‘

Jesús gleðst yfir því að Sakkeus skuli heita að útbýta eigum sínum því hann segir: „Í dag hefur hjálpræði hlotnast húsi þessu, enda er þessi maður líka Abrahams sonur. Því að Mannssonurinn er kominn að leita að hinu týnda og frelsa það.“

Skömmu áður lýsti Jesús stöðu ‚hinna týndu‘ með dæmisögunni um glataða soninn. Nú höfum við áþreifanlegt dæmi um týndan mann sem fannst. Enda þótt trúarleiðtogarnir og fylgismenn þeirra mögli og kvarti yfir því að Jesús skuli sinna fólki eins og Sakkeusi heldur hann áfram að leita þessara týndu sona Abrahams og reisa þá við. Matteus 20:29-34; Markús 10:46-52; Lúkas 18:35–19:10; 2. Mósebók 22:1.

▪ Hvar hittir Jesús blindu betlarana tvo að því er virðist og hvað gerir hann fyrir þá?

▪ Hver er Sakkeus og hvers vegna klifrar hann upp í tré?

▪ Hvernig sannar Sakkeus iðrun sína?

▪ Hvaða lærdóm getum við dregið af framkomu Jesú við Sakkeus?