Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jesús kennir í dæmisögum

Jesús kennir í dæmisögum

Kafli 43

Jesús kennir í dæmisögum

JESÚS er að öllum líkindum staddur í Kapernaum þegar hann ávítar faríseana. Síðar sama dag gengur hann að heiman og niður að Galíleuvatni sem er þar rétt hjá. Mikill mannfjöldi safnast þar saman og Jesús fer út í bát, leggur frá landi og tekur að kenna fólkinu á ströndinni um himnaríkið. Hann segir margar dæmisögur eða líkingar byggðar á kunnuglegum hlutum eða aðstæðum.

Fyrst segir Jesús frá sáðmanni sem sáir. Sumt af sæðinu fellur hjá götunni þar sem fuglar éta það. Annað fellur í grunnan jarðveg ofan á klöpp. Þar eð ræturnar standa grunnt skrælna nýju plönturnar í brennandi sólinni. Sumt af sæðinu fellur meðal þyrna sem vaxa og kæfa plönturnar. En sumt af sæðinu fellur í góða jörð og gefur af sér hundraðfalt, sextugfalt eða þrítugfalt.

Í annarri dæmisögu líkir Jesús Guðsríki við mann sem sáir sæði. Dagarnir líða og sæðið vex meðan maðurinn sefur og meðan hann vakir. Hann veit ekki hvernig. Það vex alveg af sjálfu sér og ber hveiti. Þegar hveitið er orðið þroskað uppsker maðurinn.

Þriðja dæmisagan fjallar um mann sem sáir góðu sæði í akur sinn en „er menn voru í svefni“ kemur óvinur og sáir illgresi meðal hveitisins. Þjónar mannsins spyrja hvort þeir eigi að reyta illgresið en hann svarar: ‚Nei, þá gætuð þið slitið upp hveitið um leið. Látið hvort tveggja vaxa saman fram að kornskurði. Þá segi ég kornskurðarmönnunum að skilja illgresið frá og brenna því en hirða hveitið í hlöðuna.‘

Jesús segir tvær dæmisögur í viðbót meðan hann talar við mannfjöldann á ströndinni. Hann segir að „himnaríki“ sé líkt mustarðskorni sem maður sáir. Þótt það sé allra fræja smæst verður plantan, sem af því vex, allra jurta stærst. Það verður að tré og fuglar himinsins finna sér skjól í greinum þess.

Sumir benda á að til séu smærri fræ en mustarðsfræið. En Jesús er ekki að kenna grasafræði. Mustarðsfræið er virkilega smæsta fræið sem Galíleubúar þess tíma þekkja. Þeir skilja því mætavel að Jesús er að lýsa gríðarlegum vexti.

Loks líkir Jesús „himnaríki“ við súrdeig sem kona tekur og blandar í þrjá mæla mjöls. Smám saman sýrir það allt deigið, segir hann.

Jesús lætur mannfjöldann fara eftir að hann hefur sagt þessar fimm dæmisögur og gengur aftur inn í húsið þar sem hann dvelst. Fljótlega eru postularnir tólf komnir til hans ásamt fleirum.

Lærisveinarnir læra af dæmisögunum

Lærisveinarnir koma til Jesú eftir að hann hefur talað til mannfjöldans á ströndinni, til að forvitnast um hina nýju kennsluaðferð hans. Auðvitað hafa þeir heyrt hann segja dæmisögur og líkingar áður, en aldrei í slíkum mæli. Þeir spyrja því: „Hvers vegna talar þú til þeirra í dæmisögum?“

Ein ástæðan er sú að hann er að uppfylla orð spámannsins: „Ég mun opna munn minn í dæmisögum, mæla fram það, sem hulið var frá grundvöllun heims.“ En það er líka önnur ástæða fyrir því að tala í dæmisögum — það stuðlar að því að draga fram hvað býr í hjörtum manna.

Sannleikurinn er sá að flestir vilja hlusta á Jesú fyrst og fremst af því að hann er frábær sögumaður og kraftaverkamaður, en hafa ekki áhuga á að fylgja honum í óeigingirni sem Drottni. Þeir vilja ekki láta koma róti á líf sitt eða lífsviðhorf. Þeir vilja ekki láta boðskapinn hafa slík áhrif á sig.

Jesús segir því: „Þess vegna tala ég til þeirra í dæmisögum, að sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja. Á þeim rætist spádómur Jesaja: . . . Því að hjarta lýðs þessa er sljótt orðið.“

„En sæl eru augu yðar, að þau sjá, og eyru yðar, að þau heyra,“ heldur Jesús áfram. „Sannlega segi ég yður: Margir spámenn og réttlátir þráðu að sjá það, sem þér sjáið, en sáu það ekki, og heyra það, sem þér heyrið, en heyrðu það ekki.“

Já, postularnir tólf og þeir sem með þeim eru hafa næm hjörtu. Þess vegna segir Jesús: „Yður er gefið að þekkja leynda dóma himnaríkis, hinum er það ekki gefið.“ Skilningsþrá postulanna er svo sterk að Jesús skýrir dæmisöguna um sáðmanninn fyrir þeim.

„Sæðið er Guðs orð,“ segir Jesús, og jarðvegurinn er hjartað. Um sæðið sem féll hjá götunni segir hann: ‚Djöfullinn kemur og tekur það burt úr hjarta þeirra, til þess að þeir trúi ekki og verði hólpnir.‘

Sæðið sem féll í grunnan jarðveg ofan á klöpp merkir fólk sem tekur við orðinu með fögnuði í hjarta. En orðið getur ekki fest djúpar rætur í slíku hjarta og þetta fólk fellur frá þegar á það reynir eða ofsóknir verða.

Sæðið sem féll meðal þyrna merkir þá sem heyra orðið, segir Jesús, en kafna undir áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins þannig að þeir bera ekki þroskaðan ávöxt.

Sæðið sem féll í góða jörð er hins vegar þeir sem heyra orðið, geyma það í göfugu og góðu hjarta og bera svo ávöxt með stöðuglyndi, segir hann.

Það er mikil blessun fyrir lærisveinana að þeir skuli hafa leitað Jesú uppi til að fá skýringu á því sem hann var að kenna. Jesús ætlast til að dæmisögur hans skiljist til að þær miðli öðrum sannleika. „Ekki bera menn ljós inn og setja það undir mæliker eða bekk?“ spyr hann. „Er það ekki sett á ljósastiku?“ Svo bætir hann við: „Gætið því að, hvernig þér heyrið.“

Meiri fræðsla

Lærisveinana fýsir að vita meira eftir að Jesús hefur skýrt fyrir þeim dæmisöguna um sáðmanninn. Þeir biðja hann að skýra fyrir sér dæmisöguna um illgresið á akrinum.

Lærisveinarnir hugsa sannarlega öðruvísi en mannfjöldinn á ströndinni. Þetta fólk langar ekki raunverulega til að skilja merkinguna að baki dæmisögunum heldur lætur sér nægja yfirborðsþekkingu. Jesús ber saman forvitna lærisveina sína og áheyrendurna á ströndinni og segir:

„Með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður mælt verða og við yður bætt.“ Það er eins og lærisveinarnir séu að ‚mæla‘ áhuga sinn og athygli og Jesús veitir þeim meiri fræðslu. Hann svarar því fyrirspurn þeirra:

„Sá er sáir góða sæðinu, er Mannssonurinn, akurinn er heimurinn, góða sæðið merkir börn ríkisins, en illgresið börn hins vonda. Óvinurinn, sem sáði því, er djöfullinn. Kornskurðurinn er endir veraldar og kornskurðarmennirnir englar.“

Eftir að hafa skýrt dæmisöguna lið fyrir lið lýsir Jesús niðurstöðunni. Við endalok heimskerfisins munu uppskerumennirnir, sem eru englar, skilja illgresið, það er að segja gervikristna menn, frá hinum sönnu ‚börnum ríkisins.‘ Þá verða „börn hins vonda“ send til eyðingar en börn eða synir Guðsríkis, sem nefndir eru „réttlátir,“ munu skína skært í ríki föður síns.

Síðan hljóta spurulir lærisveinar Jesú þá blessun að heyra þrjár dæmisögur í viðbót. Fyrst segir hann: „Líkt er himnaríki fjársjóði, sem fólginn var í jörðu og maður fann og leyndi. Í fögnuði sínum fór hann, seldi allar eigur sínar og keypti akur þann.“

„Enn er himnaríki líkt kaupmanni, sem leitaði að fögrum perlum,“ segir hann. „Og er hann fann eina dýrmæta perlu, fór hann, seldi allt, sem hann átti, og keypti hana.“

Sjálfur er Jesús eins og maðurinn sem finnur falinn fjársjóð og eins og kaupmaðurinn sem finnur dýrmæta perlu. Hann seldi allt ef svo má segja er hann afsalaði sér virðingarstöðu á himni til að verða lágt settur maður. Og sem maður á jörð má hann þola háðung og hatrammar ofsóknir til að sanna sig verðugan þess að verða konungur Guðsríkis.

Sú áskorun blasir líka við fylgjendum Jesú að selja allt til að hljóta þau stórkostlegu laun að verða annaðhvort meðstjórnendur Krists eða jarðneskir þegnar Guðsríkis. Lítum við á hlutdeild í Guðsríki sem verðmætari en allt annað í lífinu, sem ómetanlegan fjársjóð eða dýrmæta perlu?

Að lokum líkir Jesús „himnaríki“ við net sem safnar alls konar fiski. Fiskurinn er flokkaður og óætum fiski hent en góða fiskinum haldið. Þannig verður það við endalok heimskerfisins, segir Jesús, því að englarnir munu skilja vonda menn frá réttlátum og senda hina vondu til eyðingar.

Sjálfur hóf Jesús þessar fiskveiðar og kallaði fyrstu lærisveina sína til að ‚veiða menn.‘ Fiskveiðarnar halda áfram öld fram af öld undir umsjón engla. Loks kemur að því að draga ‚netið,‘ sem táknar allar stofnanir og samtök á jörð er segjast vera kristin, þeirra á meðal söfnuð smurðra kristinna manna.

Óæta fiskinum er eytt en sem betur fer er ‚góða fiskinum‘ haldið. Ef við þráum þekkingu og skilning jafnákaft og lærisveinar Jesú hljótum við þá blessun að fá meiri fræðslu og eilíft líf frá Guði að auki. Matteus 13:1-52; Markús 4:1-34; Lúkas 8:4-18; Sálmur 78:2; Jesaja 6:9, 10.

▪ Hvar og hvenær talar Jesús í dæmisögum og líkingum til mannfjöldans?

▪ Hvaða fimm dæmisögur segir Jesús mannfjöldanum?

▪ Af hverju segir Jesús að mustarðsfræ sé smæst allra fræja?

▪ Af hverju talar Jesús í dæmisögum?

▪ Hvernig sýna lærisveinar Jesú að þeir eru frábrugðnir fjöldanum?

▪ Hvernig skýrir Jesús dæmisöguna um sáðmanninn?

▪ Hvernig eru lærisveinarnir ólíkir mannfjöldanum á ströndinni?

▪ Hvern eða hvað táknar sáðmaðurinn, akurinn, góða sæðið, óvinurinn, kornskurðurinn og kornskurðarmennirnir?

▪ Hvaða þrjár aðrar líkingar notar Jesús og hvað getum við lært af þeim?