Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jesús kennir samverskri konu

Jesús kennir samverskri konu

Kafli 19

Jesús kennir samverskri konu

ÁLEIÐ sinni frá Júdeu til Galíleu fara Jesús og lærisveinar hans um Samaríu. Þeir eru þreyttir eftir langa ferð og staðnæmast um hádegisbil við brunn nálægt borginni Síkar. Það var Jakob sem gróf þennan brunn öldum áður og hann er til enn þann dag í dag nálægt bænum Nablus.

Lærisveinarnir fara inn í borgina til að kaupa vistir en Jesús hvílist á meðan. Þegar samversk kona kemur til að sækja vatn biður hann hana að gefa sér að drekka.

Sökum djúpstæðra fordóma eiga Gyðingar og Samverjar yfirleitt ekkert saman að sælda. Konan spyr því undrandi: „Hverju sætir, að þú, sem ert Gyðingur, biður mig um að drekka, samverska konu?“

„Ef þú þekktir . . . hver sá er, sem segir við þig: ‚Gef mér að drekka,‘ þá mundir þú biðja hann, og hann gæfi þér lifandi vatn,“ svarar Jesús.

„Herra, þú hefur enga skjólu að ausa með, og brunnurinn er djúpur. Hvaðan hefur þú þetta lifandi vatn? Ertu meiri en Jakob forfaðir vor, sem gaf oss brunninn og drakk sjálfur úr honum og synir hans og fénaður?“ spyr konan.

„Hvern sem drekkur af þessu vatni mun aftur þyrsta,“ svarar Jesús, „en hvern sem drekkur af vatninu, er ég gef honum, mun aldrei þyrsta að eilífu. Því vatnið, sem ég gef honum, verður í honum að lind, sem streymir fram til eilífs lífs.“

„Herra, gef mér þetta vatn, svo að mig þyrsti ekki og ég þurfi ekki að fara hingað að ausa,“ segir konan.

Jesús segir þá við hana: „Farðu, kallaðu á manninn þinn, og komdu hingað.“

„Ég á engan mann,“ svarar hún.

Jesús tekur undir orð hennar. „Rétt er það, að þú eigir engan mann, því þú hefur átt fimm menn, og sá sem þú átt nú, er ekki þinn maður.“

„Herra, nú sé ég, að þú ert spámaður,“ segir konan forviða. Hún lætur í ljós áhuga sinn á andlegum málum og segir að Samverjar hafi „tilbeðið Guð á þessu fjalli [Garísímfjalli sem er í grenndinni], en þér [Gyðingar] segið, að í Jerúsalem sé sá staður, þar sem tilbiðja skuli.“

En Jesús bendir á að tilbeiðslustaðurinn skipti ekki máli. „Sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika,“ segir hann. „Faðirinn leitar slíkra, er þannig tilbiðja hann. Guð er andi, og þeir, sem tilbiðja hann, eiga að tilbiðja í anda og sannleika.“

Konan er djúpt snortin. „Ég veit, að Messías kemur — það er Kristur. Þegar hann kemur, mun hann kunngjöra oss allt,“ svarar hún.

„Ég er hann, ég sem við þig tala,“ segir Jesús. Hugsaðu þér. Jesús sýnir þessari konu sérstaka velvild, en hún kemur um miðjan dag til að sækja vatn, kannski til að forðast að hitta hinar konurnar í borginni sem fyrirlíta hana vegna lífernis hennar. Hann segir henni berum orðum það sem hann hefur engum öðrum sagt. Og með hvaða afleiðingum?

Margir Samverjar trúa

Þegar lærisveinarnir koma aftur frá Síkar með vistirnar finna þeir Jesú við Jakobsbrunninn þar sem þeir skildu við hann, og hann er að tala við samverska konu. Hún skilur vatnskrúsina eftir þegar lærisveinarnir koma og heldur til borgarinnar.

Hún hefur brennandi áhuga á því sem Jesús sagði henni og segir við borgarmenn: „Komið og sjáið mann, er sagði mér allt, sem ég hef gjört.“ Síðan bætir hún við til að vekja forvitni þeirra: „Skyldi hann vera Kristur?“ Spurningin ber tilætlaðan árangur — mennirnir fara til að sjá með eigin augum.

Meðan á þessu stendur hvetja lærisveinarnir Jesú til að borða matinn sem þeir komu með úr borginni, en hann svarar: „Ég hef mat að eta, sem þér vitið ekki um.“

„Skyldi nokkur hafa fært honum að eta?“ spyrja lærisveinarnir hver annan. Jesús útskýrir: „Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans. Segið þér ekki: Enn eru fjórir mánuðir, þá kemur uppskera?“ En Jesús hefur andlegu uppskeruna í huga og segir: „Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru hvítir til uppskeru. Sá sem upp sker, tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs, svo að sá gleðjist, er sáir, og með honum hinn, sem upp sker.“

Jesús sér kannski fyrir hin góðu áhrif af fundi sínum við konuna — að margir trúi á hann vegna vitnisburðar hennar. Hún vitnar fyrir borgarbúum að hann hafi sagt sér allt sem hún hafi gert. Þegar mennirnir í Síkar koma til hans við brunninn biðja þeir hann að staldra við og segja sér meira. Jesús þiggur boðið og dvelst þar í tvo daga.

Margir fleiri Samverjar trúa þegar þeir hlusta á Jesú. Síðan segja þeir konunni: „Það er ekki lengur sakir orða þinna, að vér trúum, því að vér höfum sjálfir heyrt hann og vitum, að hann er sannarlega frelsari heimsins.“ Samverska konan er ágætt dæmi um það hvernig við getum borið vitni um Krist með því að vekja forvitni þannig að áheyrendur okkar vilji vita meira.

Eins og þú manst eru fjórir mánuðir til uppskerunnar. Þarna er greinilega átt við bygguppskeruna sem er að vori í Palestínu. Þetta er því sennilega í nóvember eða desember. Það þýðir að eftir páska árið 30 hafa Jesús og lærisveinar hans kennt og skírt í Júdeu um átta mánaða skeið. Þeir halda nú heim til Galíleu. Hvað bíður þeirra þar? Jóhannes 4:3-43.

▪ Hvers vegna verður samverska konan undrandi að Jesús skuli tala við hana?

▪ Hvað kennir Jesús henni um lifandi vatn og hvar skuli tilbiðja?

▪ Hvernig segir Jesús henni hver hann sé og hvers vegna er þessi opinberun svona furðuleg?

▪ Hvað ber samverska konan vitni um og með hvaða árangri?

▪ Hvaða samband er milli matar Jesú og uppskerunnar?

▪ Af hverju má sjá hve lengi Jesús hefur starfað í Júdeu eftir páska árið 30?