Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jesús læknar mann sem er blindur frá fæðingu

Jesús læknar mann sem er blindur frá fæðingu

Kafli 70

Jesús læknar mann sem er blindur frá fæðingu

ÞÓTT Gyðingar reyni að grýta Jesú fer hann ekki frá Jerúsalem. Hann er á gangi um borgina með lærisveinunum á hvíldardegi nokkru síðar þegar þeir koma auga á mann sem hefur verið blindur frá fæðingu. Lærisveinarnir spyrja Jesú: „Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans, fyrst hann fæddist blindur?“

Lærisveinarnir trúa kannski, eins og sumir rabbínar, að maður geti syndgað í móðurkviði, en Jesús svarar: „Hvorki er það af því, að hann hafi syndgað eða foreldrar hans, heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum.“ Maðurinn er ekki blindur vegna þess að hann eða foreldrar hans hafi drýgt einhverja ákveðna synd. Synd fyrsta mannsins Adams varð til þess að allir menn eru ófullkomnir og þar af leiðandi undirorpnir göllum svo sem meðfæddri blindu. Þessi fæðingargalli mannsins gefur Jesú nú tækifæri til að opinbera verk Guðs.

Jesús leggur áherslu á að það sé áríðandi að vinna þessi verk. „Oss ber að vinna verk þess, er sendi mig, meðan dagur er,“ segir hann. „Það kemur nótt, þegar enginn getur unnið. Meðan ég er í heiminum, er ég ljós heimsins.“ Innan skamms mun dauðinn kasta Jesú ofan í myrkur grafarinnar þar sem hann getur ekkert gert lengur. Þangað til á hann að upplýsa heiminn.

Að svo mæltu skyrpir Jesús á jörðina og gerir leðju úr munnvatninu. Hann ber hana á augu blinda mannsins og segir: „Farðu og þvoðu þér í lauginni Sílóam.“ Maðurinn gerir það og fær sjónina um leið! Hann er himinlifandi að sjá nú í fyrsta sinn á ævinni!

Nágrannar mannsins og aðrir sem þekkja hann eru forviða. „Er þetta ekki sá, er setið hefur og beðið sér ölmusu?“ spyrja þeir. „Sá er maðurinn,“ segja sumir, en aðrir trúa því ekki: „Nei, en líkur er hann honum.“ Sjálfur segir maðurinn: „Ég er sá.“

„Hvernig opnuðust augu þín?“ spyrja menn þá.

„Maður að nafni Jesús gjörði leðju og smurði á augu mín og sagði mér að fara til Sílóam og þvo mér. Ég fór og fékk sjónina, þegar ég var búinn að þvo mér.“

„Hvar er hann?“ spyrja þeir.

„Það veit ég ekki,“ svarar hann.

Fólkið fer nú með manninn, sem áður var blindur, til trúarleiðtoga sinna, faríseanna. Þeir taka líka að spyrja hann hvernig hann hafi fengið sjónina. „Hann lagði leðju á augu mín, ég þvoði mér, og nú sé ég,“ svarar maðurinn.

Farísearnir ættu auðvitað að samgleðjast betlaranum en í staðinn fordæma þeir Jesú. „Þessi maður er ekki frá Guði,“ fullyrða þeir. Hvers vegna segja þeir það? „Hann heldur ekki hvíldardaginn.“ En aðrir farísear velta fyrir sér ‚hvernig syndugur maður geti gert þvílík tákn.‘ Það verður því ágreiningur með þeim.

Þess vegna spyrja þeir manninn: „Hvað segir þú um hann, fyrst hann opnaði augu þín?“

„Hann er spámaður,“ svarar hann.

Farísearnir neita að trúa því. Þeir eru sannfærðir um að Jesús og maðurinn hafi komið sér leynilega saman um að blekkja fólk. Til að fá botn í málið kalla þeir á foreldra betlarans til að spyrja þá út úr. Jóhannes 8:59; 9:1-18.

▪ Hvers vegna er maðurinn blindur en hver er ekki ástæðan?

▪ Hver er nóttin þegar enginn getur unnið?

▪ Þegar maðurinn læknast, hver eru þá viðbrögð þeirra sem þekkja hann?

▪ Hvaða ágreiningur verður með faríseunum um lækningu mannsins?