Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jesús lýkur öllu sem Guð fól honum

Jesús lýkur öllu sem Guð fól honum

Kafli 133

Jesús lýkur öllu sem Guð fól honum

ÞAÐ verður ólýsanlegt gleðiefni þegar herkonungurinn Jesús Kristur ryður Satan og ranglátum heimi hans úr vegi! Loksins hefst friðsæl, þúsund ára stjórn Jesú.

Undir stjórn Jesú og meðkonunga hans ryðja þeir sem komast gegnum Harmagedón rústirnar eftir þetta réttláta stríð. Líklega eignast þetta fólk líka börn um tíma, og þau taka þátt í því unaðslega verki að rækta jörðina og breyta henni í yndisfagran lystigarð.

Er fram líða stundir reisir Jesús óteljandi milljónir manna úr gröfum sínum til að njóta þessarar fögru paradísar. Þannig uppfyllir hann fyrirheit sitt: „Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu . . . ganga fram.“

Illvirkinn, sem dó við hlið Jesú á kvalastaurnum, verður meðal þeirra sem hann reisir upp. Þú manst að Jesús lofaði honum: „Sannlega segi ég þér í dag, þú skalt vera með mér í paradís.“ Þessi maður fer ekki upp til himna til að ríkja sem konungur með Jesú, og Jesús verður ekki maður á ný til að búa með honum í paradís á jörð. Jesús verður með þessum fyrrverandi illvirkja í þeim skilningi að hann reisir hann upp til lífs í paradís og sér til þess að bæði líkamlegum og andlegum þörfum hans sé fullnægt eins og myndin á næstu síðu lýsir.

Hugsaðu þér! Undir kærleiksríkri handleiðslu Jesú öðlast allt mannkyn fullkomleika — þeir sem komast gegnum Harmagedón, börn þeirra og þúsundir milljóna manna sem reistir verða upp frá dauðum og hlýða honum. Fyrir atbeina sonar síns, konungsins Jesú Krists, mun Jehóva búa í andlegum skilningi meðal mannanna. Jóhannes heyrði rödd af himni segja: „Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ Enginn jarðarbúi veikist eða þjáist framar.

Við lok þúsund ára stjórnar Jesú verður ástandið alveg eins og Guð ætlaðist til í upphafi þegar hann sagði fyrstu mannhjónunum, Adam og Evu, að margfaldast og uppfylla jörðina. Já, jörðin fyllist réttlátu, fullkomnu mannkyni vegna þess að lausnarfórn Jesú hefur verið notuð í allra þágu. Dauðinn vegna syndar Adams verður ekki til lengur!

Jesús hefur þá fullgert allt sem Jehóva fól honum. Þess vegna afhendir hann föður sínum ríkið og fullkomið mannkyn eftir að þúsund árunum lýkur. Guð leysir þá Satan og illa anda hans úr dauðadái athafnaleysis í undirdjúpinu. Til hvers?

Flestir sem lifa í paradís við lok þúsund áranna verða upprisnir menn. Trú þeirra hefur aldrei verið reynd. Áður en þeir dóu þekktu þeir ekki fyrirheit Guðs og gátu þar af leiðandi ekki sýnt trú á þau. Síðan, eftir að þeir voru reistir upp og kennd sannindi Biblíunnar, áttu þeir auðvelt með að þjóna Guði í paradís því að þar var engin andstaða. En myndu þeir reynast hollir í prófraun ef Satan fengi tækifæri til að reyna að fá þá til að hætta að þjóna Guði? Satan verður sleppt til að fá svar við því.

Opinberunin, sem Jóhannesi var gefin, sýnir að Satan tekst að snúa ótilgreindum fjölda manna frá þjónustu við Guð eftir að þúsund ára stjórn Jesú lýkur. En þegar lokaprófraunin er afstaðin verður Satan tortímt ásamt illum öndum sínum og öllum sem honum tekst að leiða afvega. Fullreyndir, drottinhollir menn lifa hins vegar áfram til að njóta blessunar föður síns á himnum um alla eilífð.

Ljóst er að Jesús hefur gegnt og á eftir að gegna þýðingarmiklu hlutverki í því að hrinda dýrlegum tilgangi Guðs í framkvæmd. Við getum notið stórkostlegrar framtíðar vegna alls þess sem hann, hinn mikli, himneski konungur Guðs, áorkar. En við getum ekki heldur gleymt öllu því sem hann gerði meðan hann var maður.

Jesús kom fúslega til jarðar og kenndi okkur margt um föður sinn. Með fordæmi sínu endurspeglaði hann stórkostlega eiginleika Guðs. Hjörtu okkar eru snortin þegar við íhugum einstakt hugrekki hans og karlmennsku, óviðjafnanlega visku hans, frábæra kennsluhæfileika hans, óttalausa forystu hans og blíða umhyggju og meðaumkun. Og hjörtu okkar hljóta að fyllast þakklæti þegar við rifjum upp hve gríðarlegar þjáningar hann leið þegar hann greiddi lausnargjaldið sem er eina leiðin fyrir okkur til að öðlast líf!

Þessi rannsókn okkar á ævi Jesú hefur sýnt okkur hvílíkur maður hann var. Hann var augljóslega mikilmenni. Við finnum okkur knúin til að enduróma orð rómverska landshöfðingjans Pontíusar Pílatusar: „Sjáið manninn!“ Já, hann var sannarlega ‚maðurinn,‘ mesta mikilmenni sem lifað hefur!

Ef við tökum við lausnarfórn Jesú er hægt að létta af okkur byrði syndar og dauða sem við erfðum frá Adam, og Jesús getur orðið „Eilífðarfaðir“ okkar. Allir sem vilja öðlast eilíft líf verða að afla sér þekkingar, ekki aðeins á Guði heldur einnig syni hans, Jesú Kristi. Megi lestur og rannsókn þessarar bókar hjálpa þér að afla þér slíkrar lífgandi þekkingar! 1. Jóhannesarbréf 2:17; 1:7; Jóhannes 5:28, 29; 3:16; 17:3; 19:5; Lúkas 23:43, NW; 1. Mósebók 1:28; 1. Korintubréf 15:24-28; Opinberunarbókin 20:1-3, 6-10; 21:3, 4; Jesaja 9:6.

▪ Hvaða gleðileg sérréttindi öðlast þeir sem komast gegnum Harmagedón og börn þeirra?

▪ Hverjir fá að lifa í paradís auk þeirra sem komst gegnum Harmagedón og barna þeirra, og í hvaða skilningi verður Jesús með þeim?

▪ Hvernig verður ástandið í lok þúsund áranna og hvað gerir Jesús þá?

▪ Af hverju verður Satan leystur úr undirdjúpinu og hvað verður að lokum um hann og alla sem fylgja honum?

▪ Hvernig getur Jesús orðið „Eilífðarfaðir“ okkar?