Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jesús leitar týndra sauða

Jesús leitar týndra sauða

Kafli 85

Jesús leitar týndra sauða

JESÚ er mikið í mun að leita og finna auðmjúka menn sem vilja þjóna Guði. Hann talar því um Guðsríki við alla sem hann getur, þeirra á meðal alkunna syndara. Slíkt fólk kemur nú til að hlýða á hann.

Farísear og fræðimenn sjá það og gagnrýna Jesú fyrir að leggja lag sitt við fólk sem þeir telja óverðugt þess. Þeir mögla: „Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim.“ Sjálfir myndu þeir aldrei lúta svona lágt! Farísear og fræðimenn líta á almenning eins og skítinn undir fótum sér. Þeir tala fyrirlitlega um þetta almúgafólk og kalla það ‛am ha’aʹrets sem á hebresku merkir „fólk landsins [jarðarinnar].“

Jesús sýnir hins vegar öllum virðingu, góðvild og meðaumkun. Margt af þessu lítilsvirta fólki, þeirra á meðal fólk sem er alþekkt fyrir rangt líferni sitt, hlustar því hugfangið á hann. En hvað um gagnrýni faríseanna á Jesú fyrir að sinna fólki sem þeir álíta ósæmandi að hjálpa?

Jesús svarar andmælum þeirra með dæmisögu. Hann talar séð frá bæjardyrum faríseanna sjálfra, rétt eins og þeir séu réttlátir og óhultir í sauðabyrgi Guðs, en hinir fyrirlitlegu ‛am ha’aʹrets hafi villst og séu týndir. Hann spyr:

„Nú á einhver yðar hundrað sauði og týnir einum þeirra. Skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í óbyggðinni og fer eftir þeim, sem týndur er, þar til hann finnur hann? Og glaður leggur hann sauðinn á herðar sér, er hann finnur hann. Þegar hann kemur heim, kallar hann saman vini sína og nágranna og segir við þá: ‚Samgleðjist mér, því að ég hef fundið sauðinn minn, sem týndur var.‘“

Síðan heimfærir Jesús söguna og útskýrir: „Ég segi yður, þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem gjörir iðrun, en yfir níutíu og níu réttlátum, sem ekki hafa iðrunar þörf.“

Farísearnir álíta sig réttláta og ekki iðrunarþurfi. Þegar einhverjir þeirra fundu að Jesú tveim árum áður fyrir að matast með tollheimtumönnum og syndurum sagði hann þeim: „Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara.“ Hinir þóttafullu farísear, sem sjá ekki að þeir þurfi að iðrast, valda engum fögnuði á himni eins og iðrunarfullir syndarar gera.

Jesús segir aðra dæmisögu til að leggja áherslu á að það sé mikið gleðiefni þegar týndur syndari snýr frá villu síns vegar: „Eða kona, sem á tíu drökmur og týnir einni drökmu, kveikir hún þá ekki á lampa, sópar húsið og leitar vandlega, uns hún finnur hana? Og er hún hefur fundið hana, kallar hún saman vinkonur sínar og grannkonur og segir: ‚Samgleðjist mér, því að ég hef fundið drökmuna, sem ég týndi.‘“

Jesús heimfærir þessa dæmisögu á sama hátt: „Ég segi yður: Þannig verður fögnuður með englum Guðs yfir einum syndara, sem gjörir iðrun.“

Ástrík umhyggja engla Guðs fyrir týndum syndurum, sem snúa frá villu síns vegar, er eftirtektarverð, einkum þegar haft er í huga að þessir lítilsvirtu ‛am ha’aʹrets fá að lokum sæti í himnesku ríki Guðs. Þeir fá því æðri stöðu á himnum en englarnir! En í stað þess að verða öfundsjúkir eða þykja sér misboðið viðurkenna englarnir auðmjúklega að þessir syndugu menn hafi átt í og sigrast á vandamálum í lífinu til að þeir geti verið samúðarfullir og miskunnsamir konungar og prestar á himnum. Lúkas 15:1-10; Matteus 9:13; 1. Korintubréf 6:2, 3; Opinberunarbókin 20:6.

▪ Af hverju leggur Jesús lag sitt við þekkta syndara og hvaða gagnrýni fær hann frá faríseunum?

▪ Hvernig líta farísearnir á almenning?

▪ Hvaða dæmisögur segir Jesús og hvað lærum við af þeim?

▪ Af hverju er fögnuður englanna eftirtektarverður?