Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jesús lifir!

Jesús lifir!

Kafli 128

Jesús lifir!

ÞEGAR konurnar finna gröf Jesú tóma hleypur María Magdalena af stað til að segja Pétri og Jóhannesi frá. Hinar konurnar bíða greinilega átekta við gröfina. Skömmu síðar birtist þeim engill og býður þeim inn í gröfina.

Þar sjá konurnar annan engil og annar þeirra segir við þær: „Þið skuluð ekki óttast því ég veit að þið leitið að Jesú sem var staurfestur. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn, þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: ‚Hann er upp risinn frá dauðum.‘“ Konurnar hlaupa af stað, bæði óttaslegnar og yfir sig glaðar.

María er komin til Péturs og Jóhannesar og segir við þá: „Þeir hafa tekið Drottin úr gröfinni, og vér vitum ekki, hvar þeir hafa lagt hann.“ Postularnir tveir hlaupa strax af stað. Jóhannes er fótfrárri en Pétur enda greinilega yngri en hann, og er á undan honum til grafarinnar. Konurnar eru nú farnar þannig að þar er enginn. Jóhannes beygir sig niður, rýnir inn í gröfina og sér línblæjurnar en fer ekki inn.

Þegar Pétur kemur þangað fer hann hiklaust inn í gröfina. Hann sér línblæjurnar liggja þar og dúkinn sem hafður var um höfuð Jesú liggja samanvafinn á öðrum stað. Jóhannes fer nú líka inn í gröfina og trúir orðum Maríu. En hvorki Pétur né Jóhannes átta sig á að Jesús sé upprisinn þótt hann hafi sagt þeim margsinnis að svo yrði. Ráðvilltir halda þeir heimleiðis en María, sem er komin aftur að gröfinni, verður eftir.

Hinar konurnar flýta sér til að segja lærisveinunum að Jesús sé upprisinn eins og englarnir sögðu þeim að gera. Þær hlaupa eins og fætur toga en þá kemur Jesús á móti þeim og segir: „Heilar þið!“ Þær falla fram fyrir honum og veita honum lotningu. Þá segir Jesús: „Óttist ekki, farið og segið bræðrum mínum að halda til Galíleu. Þar munu þeir sjá mig.“

Áður, þegar jarðskjálftinn varð og englarnir birtust, urðu hermennirnir, er gættu grafarinnar, svo skelkaðir að þeir lágu sem dauðir væru. Þegar þeir náðu sér flýttu þeir sér til borgarinnar og sögðu æðstuprestunum hvað gerst hafði. Eftir að hafa ráðfært sig við „öldungana“ meðal Gyðinga var sú ákvörðun tekin að reyna að þagga málið niður með því að múta hermönnunum. Þeim var sagt: „Segið þetta: ‚Lærisveinar hans komu á næturþeli, meðan vér sváfum, og stálu honum.‘“

Þar eð rómverskir hermenn gátu átt dauðarefsingu yfir höfði sér ef þeir sofnuðu á verðinum lofuðu prestarnir: „Ef þetta [sú saga að þeir hafi sofnað] berst landshöfðingjanum til eyrna, skulum vér sefa hann, svo að þér getið verið áhyggjulausir.“ Mútuféð var nógu mikið til þess að hermennirnir gerðu eins og þeim var sagt. Þar af leiðandi var sú sögusögn borin út meðal Gyðinga að líkama Jesú hefði verið stolið.

María Magdalena, sem bíður enn við gröfina, er buguð af sorg. Hvar gat Jesús verið? Hún hallar sér fram og lítur inn í gröfina og sér þá englana tvo í hvítu klæðunum sem hafa birst á ný! Þeir sitja þar sem líkami Jesú lá, annar til höfða og hinn til fóta. „Kona, hví grætur þú?“ spyrja þeir.

„Þeir hafa tekið brott Drottin minn, og ég veit ekki, hvar þeir hafa lagt hann,“ svarar María. Að svo mæltu snýr hún sér við og sér einhvern sem endurtekur spurninguna: „Kona, hví grætur þú?“ Síðan spyr hann: „Að hverjum leitar þú?“

Hún heldur að þetta sé grasgarðsvörðurinn og segir við hann: „Herra, ef þú hefur borið hann burt, þá segðu mér, hvar þú hefur lagt hann, svo að ég geti sótt hann.“

„María!“ segir hann þá. Og hún þekkir þegar í stað af kunnuglegu ávarpinu að þetta er Jesús. „Rabbúní!“ (sem merkir „meistari“) hrópar hún upp yfir sig. Hún er svo óstjórnlega glöð að hún grípur í Jesú, en hann segir: „Snertu mig ekki! Ég er ekki enn stiginn upp til föður míns. En farðu til bræðra minna og seg þeim: ‚Ég stíg upp til föður míns og föður yðar, til Guðs míns og Guðs yðar.‘“

María hleypur þangað sem postularnir og aðrir lærisveinar eru samankomnir. Hún segir þeim frá því að hún hafi séð Jesú upprisinn, líkt og hinar konurnar hafa sagt frá. En karlmennirnir, sem trúðu ekki hinum konunum, trúa Maríu greinilega ekki heldur. Matteus 28:3-15, vers 5 samkvæmt NW; Markús 16:5-8; Lúkas 24:4-12; Jóhannes 20:2-18.

▪ Hvað gerir María Magdalena eftir að hún finnur gröfina tóma og hvað sjá hinar konurnar?

▪ Hvernig bregðast Pétur og Jóhannes við þegar þeir finna gröfina tóma?

▪ Hvað hendir hinar konurnar þegar þær eru á leiðinni til lærisveinanna að segja þeim að Jesús sé upprisinn?

▪ Hverju urðu hermennirnir, sem stóðu vörð, vitni að og hvernig bregðast prestarnir við frásögn þeirra?

▪ Hvað gerist meðan María Magdalena er ein við gröfina og hvað finnst lærisveinunum um frásagnir kvennanna?