Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jesús mettar þúsundir með kraftaverki

Jesús mettar þúsundir með kraftaverki

Kafli 52

Jesús mettar þúsundir með kraftaverki

POSTULARNIR tólf hafa verið á viðburðaríkri boðunarferð um Galíleu. Skömmu eftir aftöku Jóhannesar koma þeir aftur til Jesú og segja frá því sem drifið hefur á daga þeirra. Jesús sér að þeir eru þreyttir og að fjöldi fólks er stöðugt að koma og fara þannig að þeir hafa ekki einu sinni næði til að matast. Hann segir því: ‚Förum á óbyggðan stað þar sem þið getið hvílst.‘

Þeir fara um borð í bátinn, sennilega í grennd við Kapernaum, og taka stefnu á afskekktan stað austan Jórdanar og handan við Betsaídu. En margir sjá þá fara og aðrir frétta af því. Þeir hlaupa meðfram ströndinni og þegar báturinn leggur að landi bíður fólkið eftir þeim.

Þegar Jesús stígur á land og sér mannfjöldann kennir hann í brjósti um fólkið því það er eins og sauðir án hirðis. Hann læknar því sjúka og tekur að kenna fólkinu margt.

Tíminn líður hratt og lærisveinar Jesú koma að máli við hann og segja: „Hér er engin mannabyggð og langt á daginn liðið. Lát þá fara, að þeir geti náð til býla og þorpa hér í kring og keypt sér eitthvað til matar.“

En Jesús svarar: „Gefið þeim sjálfir að eta.“ Jesús veit hvað hann ætlar að gera þannig að hann spyr Filippus til að prófa hann: „Hvar eigum vér að kaupa brauð, að þessir menn fái að eta?“

Frá sjónarhóli Filippusar eru þeim allar bjargir bannaðar. Þarna eru um 5000 karlmenn, svo að sennilega eru þar um 10.000 manns að meðtöldum konum og börnum! Filippus svarar því: „Brauð fyrir tvö hundruð denara [denar var daglaun] nægðu þeim ekki, svo að hver fengi lítið eitt.“

Andrés ætlar sér kannski að sýna fram á hve fráleitt það sé að þeir geti mettað allan þennan fjölda og segir: „Hér er piltur, sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska, en hvað er það handa svo mörgum?“

Þetta er rétt fyrir páska vorið 32 og gras er vel sprottið. Jesús lætur því lærisveinana segja fólkinu að setjast í grasið í 50 og 100 manna hópum. Hann tekur brauðin fimm og fiskana tvo, lítur til himins og þakkar Guði. Síðan tekur hann að brjóta brauðin og skipta fiskunum, réttir lærisveinunum og þeir dreifa meðal fólksins. Svo furðulegt sem það er nægir það til að metta alla!

Síðan segir Jesús við lærisveinana: „Safnið saman leifunum, svo ekkert spillist.“ Þeir gera það og fylla tólf körfur með brauðleifum! Matteus 14:13-21; Markús 6:30-44; Lúkas 9:10-17; Jóhannes 6:1-13.

▪ Hvers vegna vill Jesús fara á afvikinn stað með postulunum?

▪ Hvert fer Jesús með lærisveinana og hvers vegna geta þeir ekki hvílt sig eins og til stóð?

▪ Hvað hvetja lærisveinarnir Jesú til að gera þegar kvöldar, en hvað gerir hann fyrir mannfjöldann?