Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jesús og stjörnuspekingarnir

Jesús og stjörnuspekingarnir

Kafli 7

Jesús og stjörnuspekingarnir

HÓPUR manna er kominn frá Austurlöndum. Þetta eru stjörnuspekingar sem telja sig geta túlkað ýmis mál eftir stöðu stjarnanna. Heima í Austurlöndum höfðu þeir séð nýja stjörnu og hafa fylgt henni mörg hundruð kílómetra leið til Jerúsalem.

Þegar stjörnuspekingarnir koma til Jerúsalem spyrja þeir: „Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga? Vér sáum stjörnu hans renna upp og erum komnir að veita honum lotningu.“

Heródes konungur í Jerúsalem kemst í mikið uppnám er hann heyrir þetta. Hann kallar því saman æðstuprestana og spyr hvar Kristur eigi að fæðast. „Í Betlehem,“ svara þeir og byggja svar sitt á Ritningunni. Heródes lætur sækja stjörnuspekingana og segir þeim: „Farið og spyrjist vandlega fyrir um barnið, og er þér finnið það látið mig vita, til þess að ég geti einnig komið og veitt því lotningu.“ Í raun réttri ætlar Heródes að finna barnið til að drepa það!

Undarlegur atburður á sér stað eftir að þeir fara. Stjarnan, sem þeir sáu meðan þeir voru í Austurlöndum, fer á undan þeim. Þetta er greinilega engin venjuleg stjarna heldur skín hún sérstaklega til að leiðbeina þeim. Stjörnuspekingarnir fylgja henni uns hún staðnæmist yfir húsinu þar sem Jósef og María búa.

Stjörnuspekingarnir ganga inn í húsið og finna þar Maríu og drenginn hennar, Jesú. Þeir falla allir fram fyrir honum og draga fram gjafir af gulli, reykelsi og myrru. Eftir þetta, þegar þeir eru í þann mund að snúa aftur til Heródesar til að segja honum hvar barnið sé að finna, fá þeir bendingu frá Guði í draumi um að gera það ekki. Þeir fara því aðra leið heim í land sitt.

Hver heldurðu að hafi látið stjörnuna lýsa og hreyfast á himni til að leiða stjörnuspekingana? Mundu að stjarnan leiddi þá ekki beint til Jesú í Betlehem heldur til Jerúsalem. Þar komust þeir í samband við Heródes konung sem vildi drepa Jesú. Og það hefði hann gert ef Guð hefði ekki skorist í leikinn og varað stjörnuspekingana við að segja Heródesi frá dvalarstað Jesú. Það var óvinur Guðs, Satan djöfullinn, sem vildi fyrirfara Jesú, og hann notaði þessa stjörnu til að reyna að koma fram vilja sínum. Matteus 2:1-12; Míka 5:1.

▪ Hvað sýnir að stjarnan, sem stjörnuspekingarnir sáu, var engin venjuleg stjarna?

▪ Hvar er Jesús þegar stjörnuspekingarnir finna hann?

▪ Hvernig vitum við að stjarnan, sem leiddi stjörnuspekingana, var frá Satan?