Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jesús skírist

Jesús skírist

Kafli 12

Jesús skírist

JESÚS verður þrítugur um sex mánuðum eftir að Jóhannes byrjar að prédika og kemur þá til hans að Jórdanánni. Til hvers? Aðeins í vinarheimsókn? Langar hann bara til að sjá hvernig Jóhannesi gengur starf sitt? Nei, Jesús biður Jóhannes að skíra sig.

En Jóhannes andmælir: „Mér er þörf að skírast af þér, og þú kemur til mín!“ Jóhannes veit að Jesús, frændi hans, er sérstakur sonur Guðs. Jóhannes hafði meira að segja tekið viðbragð af gleði í móðurkviði þegar María kom í heimsókn meðan hún var ófrísk að Jesú. Elísabet, móðir Jóhannesar, hefur áreiðanlega sagt honum frá því. Og hún hefur örugglega líka sagt honum frá tilkynningu engilsins um fæðingu Jesú og um englana sem birtust fjárhirðunum nóttina sem hann fæddist.

Jóhannes er því ekkert ókunnugur Jesú. Og Jóhannes veit að skírn hans er ekki fyrir Jesú. Hún er ætluð þeim sem iðrast synda sinna, en Jesús er syndlaus. En þrátt fyrir mótmæli Jóhannesar situr Jesús við sinn keip: „Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.“

Hvers vegna er rétt af Jesú að láta skírast? Vegna þess að skírn Jesú er ekki iðrunartákn heldur er hann að bjóða sig fram til að gera vilja föður síns. Jesús hefur verið trésmiður en nú er tíminn kominn fyrir hann til að hefja þjónustuna sem Jehóva Guð sendi hann til jarðar til að gegna. Heldurðu að Jóhannes búist við einhverju óvenjulegu þegar hann skírir Jesú?

Jóhannes segir síðar: „Sá er sendi mig að skíra með vatni, sagði mér: ‚Sá sem þú sérð andann koma yfir og nema staðar á, hann er sá sem skírir með heilögum anda.‘“ Jóhannes býst því við að sjá anda Guðs koma yfir einhvern sem hann skírir. Kannski kemur það honum alls ekki á óvart að sjá „anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir“ Jesú þegar hann stígur upp úr vatninu.

En fleira gerist við skírn Jesú. ‚Himnarnir opnuðust‘ honum. Hvað þýðir það? Bersýnilega að um leið og Jesús skírist er honum gefið að muna eftir lífi sínu á himnum áður en hann kom til jarðar. Núna man Jesús greinilega eftir lífi sínu sem andasonur Jehóva Guðs, þar á meðal öllu sem Guð sagði honum á himnum áður en hann varð maður.

Við skírn Jesú heyrist líka rödd af himni sem segir: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.“ Hver er það sem talar? Jesús sjálfur? Vitanlega ekki! Það er Guð sem talar. Jesús er auðvitað sonur Guðs, ekki Guð sjálfur eins og sumir segja.

En Jesús er mennskur sonur Guðs alveg eins og fyrsti maðurinn, Adam. Lærisveinninn Lúkas skrifar eftir að hafa lýst skírn Jesú: „Jesús var um þrítugt, er hann hóf starf sitt. Var hann, eftir því sem haldið var, sonur Jósefs, sonar Elí, . . . sonar Davíðs, . . . sonar Abrahams, . . . sonar Nóa, . . . sonar Adams, sonar Guðs.“

Jesús er mennskur ‚sonur Guðs‘ alveg eins og Adam hafði verið. Jesús er mesta mikilmenni sem lifað hefur — það er ljóst þegar við rannsökum ævi hans nánar. En við skírn sína eignast Jesús nýtt samband við Guð og verður líka andlegur sonur hans. Guð kallar hann nú aftur til himna ef svo má segja með því að leiða hann inn á braut sem verður til þess að hann leggur mannslíf sitt í sölurnar að eilífu sem fórn í þágu fordæmds mannkyns. Matteus 3:13-17; Lúkas 3:21-38; 1:34-36, 44; 2:10-14; Jóhannes 1:32-34; Hebreabréfið 10:5-9.

▪ Hvers vegna er Jóhannes ekki ókunnugur Jesú?

▪ Af hverju lætur Jesús skírast fyrst hann er syndlaus?

▪ Hvað veit Jóhannes um Jesús sem gerir að verkum að hann er kannski ekkert undrandi að sjá anda Guðs koma yfir hann?