Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jesús svarar ákærendum sínum

Jesús svarar ákærendum sínum

Kafli 30

Jesús svarar ákærendum sínum

ÞEGAR trúarleiðtogar Gyðinga saka Jesú um að brjóta hvíldardagshelgina svarar hann: „Faðir minn starfar til þessarar stundar, og ég starfa einnig.“

Hvað sem farísearnir segja, banna hvíldardagslögin ekki þau verk sem Jesús er að vinna. Prédikun hans og lækningar eru verkefni frá Guði, og í samræmi við fordæmi Guðs vinnur hann við þau alla daga. En Gyðingar reiðast enn meir við svar Jesú og vilja drepa hann. Af hverju?

Af því að nú finnst þeim Jesús bæði vera að brjóta hvíldardagshelgina og eins að guðlasta með því að segjast vera Guðs eigin sonur. Jesús er hins vegar óhræddur og svarar þeim ítarlegar um náið samband sitt við Guð. „Faðirinn elskar soninn,“ segir hann, „og sýnir honum allt, sem hann gjörir sjálfur.“

„Eins og faðirinn vekur upp dauða og lífgar, þannig lífgar og sonurinn þá, sem hann vill,“ heldur Jesús áfram. Sonurinn er reyndar þegar byrjaður að reisa upp dauða á andlegan hátt! „Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim, sem sendi mig,“ segir hann, „er . . . stiginn yfir frá dauðanum til lífsins.“ Svo bætir hann við: „Sú stund kemur og er þegar komin, að hinir dauðu munu heyra raust Guðs sonarins, og þeir, sem heyra, munu lifa.“

Enn sem komið er hefur Jesús ekki reist nokkurn bókstaflega upp frá dauðum svo vitað sé, en hann segir ákærendum sínum að slík bókstafleg upprisa dauðra muni eiga sér stað. „Undrist þetta ekki,“ segir hann. „Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans og ganga fram.“

Þetta er bersýnilega í fyrsta sinn sem Jesús lýsir mikilvægu hlutverki sínu í tilgangi Guðs svona skýrt og greinilega fyrir opnum tjöldum. En ákærendur hans hafa meira en vitnisburð hans sjálfs um þetta. Jesús minnir þá á að þeir hafi ‚sent menn til Jóhannesar og hann hafi borið sannleikanum vitni.‘

Aðeins tveim árum áður hafði Jóhannes skírari sagt þessum trúarleiðtogum Gyðinga frá þeim sem eftir hann kæmi. Jesús minnir þá á hve mikils þeir hafi einu sinni metið Jóhannes, sem nú situr í fangelsi, og segir: „Þér vilduð um stund gleðjast við ljós hans.“ Jesús vekur athygli þeirra á því í von um að hjálpa þeim, já, bjarga þeim. En hann er ekki háður vitnisburði Jóhannesar.

„Verkin, sem ég vinn [meðal annars kraftaverkið sem hann er nýbúinn að gera], bera mér það vitni, að faðirinn hefur sent mig.“ Og Jesús heldur áfram: „Faðirinn, sem sendi mig, hann hefur sjálfur vitnað um mig.“ Guð bar til dæmis vitni um Jesú við skírn hans er hann sagði: „Þessi er minn elskaði sonur.“

Ákærendur Jesú hafa eiginlega enga afsökun fyrir því að hafna honum. Ritningarnar, sem þeir segjast rannsaka, bera vitni um hann. „Ef þér tryðuð Móse, munduð þér líka trúa mér,“ segir Jesús, „því um mig hefur hann ritað. Fyrst þér trúið ekki því, sem hann skrifaði, hvernig getið þér þá trúað orðum mínum?“ Jóhannes 5:17-47; 1:19-27; Matteus 3:17.

▪ Hvers vegna er Jesús ekki að brjóta hvíldardagshelgina með starfi sínu?

▪ Hvernig lýsir Jesús mikilvægu hlutverki sínu í tilgangi Guðs?

▪ Hvaða vitnisburð bendir Jesús á til að sanna að hann sé sonur Guðs?