Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kennsla í fyrirgefningu

Kennsla í fyrirgefningu

Kafli 64

Kennsla í fyrirgefningu

JESÚS virðist enn vera í húsinu í Kapernaum með lærisveinunum. Hann hefur verið að ræða við þá hvernig taka skuli á vandamálum bræðra í milli þannig að Pétur spyr: „Herra, hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínum, ef hann misgjörir við mig?“ Trúarleiðtogar Gyðinga leggja til að menn fyrirgefi allt að þrisvar þannig að Pétur álítur sig sennilega mjög göfuglyndan að stinga upp á „sjö sinnum.“

En það er rangt að halda slíkt bókhald. Jesús leiðréttir Pétur og segir: „Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö.“ Hann er að benda Pétri á að hann eigi alls ekki að setja því nokkur takmörk hve oft hann fyrirgefi bróður sínum.

Jesús segir nú dæmisögu til að innprenta lærisveinunum að þeim sé skylt að fyrirgefa. Hún fjallar um konung sem vill gera upp reikninga við þjóna sína. Þjónn er færður til hans sem skuldar honum gríðarlega fjárhæð, 60.000.000 denara. Hann hefur ekki nokkurn möguleika á að greiða skuldina. Jesús segir því að konungurinn hafi fyrirskipað að þjónninn, kona hans og börn skuli seld upp í skuldina.

Þá fellur þjónninn til fóta herra sínum og sárbænir hann: „Haf biðlund við mig, og ég mun borga þér allt.“

Konungurinn kennir í brjósti um þjóninn og sýnir honum þá miskunn að gefa honum upp þessa gríðarlegu skuld. En hann er ekki fyrr búinn að því, segir Jesús, en þjónninn hittir samþjón sinn sem skuldar honum aðeins 100 denara. Maðurinn tekur hann kverkataki og segir: „Borga það, sem þú skuldar!“

Þjónn þessi getur hins vegar ekki greitt skuldina. Hann fellur því til fóta hinum þjóninum og sárbænir hann: „Haf biðlund við mig, og ég mun borga þér.“ En þjónninn er ekki miskunnsamur eins og herra hans og lætur varpa samþjóni sínum í fangelsi.

Jesús segir að samþjónar þessara manna hafi séð hvað fram fór og segi konunginum frá. Hann kallar þá þjóninn fyrir sig reiður í bragði. „Illi þjónn,“ segir hann, „alla þessa skuld gaf ég þér upp, af því að þú baðst mig. Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum, eins og ég miskunnaði þér?“ Konungurinn er svo reiður að hann afhendir fangavörðunum miskunnarlausa þjóninn uns skuldin er að fullu greidd.

Síðan segir Jesús: „Þannig mun og faðir minn himneskur gjöra við yður, nema hver og einn yðar fyrirgefi af hjarta bróður sínum.“

Þetta er frábær lexía í fyrirgefningu. Í samanburði við hina háu syndaskuld, sem Guð hefur fyrirgefið okkur, er sérhver synd kristins bróður gagnvart okkur ósköp smá. Og Jehóva Guð hefur fyrirgefið okkur mörg þúsund sinnum. Oft gerum við okkur ekki grein fyrir að við höfum syndgað gegn honum. Getum við þá ekki fyrirgefið bróður okkar nokkrum sinnum, jafnvel þótt við höfum réttmætt tilefni til að kvarta undan honum? Munum að Guð fyrirgefur „vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum,“ eins og Jesús kenndi í fjallræðunni. Matteus 18:21-35; 6:12; Kólossubréfið 3:13.

▪ Hvert er tilefni spurningar Péturs um fyrirgefningu, og hvers vegna telur hann sig kannski göfuglyndan að vilja fyrirgefa bróður sínum sjö sinnum?

▪ Hvernig bregst konungurinn við beiðni þjónsins um miskunn, ólíkt viðbrögðum þjónsins við samþjón sinn?

▪ Hvað lærum við af dæmisögu Jesú?