Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lærisveinarnir deila

Lærisveinarnir deila

Kafli 115

Lærisveinarnir deila

FYRR um kvöldið kenndi Jesús postulunum fagra lexíu í auðmýkt með því að þvo fætur þeirra. Eftir það stofnaði hann til minningarhátíðarinnar um yfirvofandi dauða sinn. Nú á sér stað óvænt atvik, einkum í ljósi þess sem á undan er gengið. Postularnir fara að hnakkrífast um það hver þeirra sé talinn mestur! Eftir öllu að dæma er þarna að taka sig upp langvinnt deiluefni þeirra í milli.

Eftir að Jesús ummyndaðist á fjallinu deildu postularnir líka um hver þeirra væri mestur. Og Jakob og Jóhannes fóru meira að segja fram á háar stöður í Guðsríki sem varð tilefni enn frekari deilna meðal postulanna. Jesús hlýtur að hryggjast mjög við að sjá þá munnhöggvast enn einu sinni, síðasta kvöldið sem hann er með þeim! Hvað gerir hann?

Í stað þess að skamma postulana fyrir hegðun þeirra rökræðir hann aftur við þá með þolinmæði: „Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn. En eigi sé yður svo farið . . . Því hvort er sá meiri, sem situr til borðs, eða hinn, sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs?“ Síðan minnir hann þá á fordæmi sitt og segir: „Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn.“

Þrátt fyrir ófullkomleika sinn hafa postularnir staðið með Jesú í prófraunum hans, svo hann segir við þá: „Yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér.“ Þetta er persónulegur sáttmáli milli Jesú og tryggra fylgjenda hans sem veitir þeim hlutdeild í konunglegri stjórn hans. Aðeins takmarkaður hópur, 144.000, fær aðild að þessum sáttmála um ríki.

Enda þótt postulunum sé veitt sú stórkostlega von að eiga hlutdeild með Kristi í stjórn Guðsríkis eru þeir andlega veikir sem stendur. „Á þessari nóttu munuð þér allir hneykslast á mér,“ segir Jesús. Hann segir Pétri að hann hafi beðið fyrir honum og hvetur svo: „Styrk þú bræður þína, þegar þú ert snúinn við.“

„Börnin mín,“ segir Jesús, „stutta stund verð ég enn með yður. Þér munuð leita mín, og eins og ég sagði Gyðingum, segi ég yður nú: Þangað sem ég fer, getið þér ekki komist. Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan. Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“

„Herra, hvert ferðu?“ spyr Pétur.

„Þú getur ekki fylgt mér nú þangað sem ég fer, en síðar muntu fylgja mér,“ svarar Jesús.

„Herra, hví get ég ekki fylgt þér nú?“ spyr Pétur. „Ég vil leggja líf mitt í sölurnar fyrir þig.“

„Viltu leggja líf þitt í sölurnar fyrir mig?“ spyr Jesús. „Sannlega segi ég þér: Nú í nótt, áður en hani galar tvisvar, muntu þrisvar afneita mér.“

„Þótt ég ætti að deyja með þér, þá mun ég aldrei afneita þér,“ andmælir Pétur. Hinir postularnir taka allir í sama streng og Pétur gortar: „Þótt allir hneykslist á þér, skal ég aldrei hneykslast.“

Jesús minnir postulana nú á það þegar hann sendi þá í boðunarferð um Galíleu án pyngju og mals og spyr: „Brast yður þá nokkuð?“

„Nei, ekkert,“ svara þeir.

„En nú skal sá, er pyngju hefur, taka hana með sér,“ segir hann, „og eins sá, er mal hefur, og hinn, sem ekkert á, selji yfirhöfn sína og kaupi sverð. Því ég segi yður, að þessi ritning á að rætast á mér: ‚með illvirkjum var hann talinn.‘ Og nú er að fullnast það sem um mig er ritað.“

Jesús er að tala um þann tíma þegar hann verður staurfestur með illvirkjum og benda á að fylgjendur hans verði ofsóttir grimmilega eftir það. „Herra, hér eru tvö sverð,“ segja þeir.

„Það er nóg,“ svarar hann. Og eins og við sjáum síðar gefa þessi sverð Jesú tækifæri til að kenna þeim aðra mikilvæga lexíu. Matteus 26:31-35; Markús 14:27-31; Lúkas 22:24-38; Jóhannes 13:31-38; Opinberunarbókin 14:1-3.

▪ Af hverju kemur deila postulanna á óvart?

▪ Hvernig bregst Jesús við?

▪ Hverju áorkar sáttmálinn sem Jesús gerir við lærisveina sína?

▪ Hvaða nýtt boðorð gefur Jesús og hve mikilvægt er það?

▪ Hvernig ofmetur Pétur sjálfan sig en hvað segir Jesús?

▪ Af hverju gefur Jesús önnur fyrirmæli nú en áður um pyngju og mal?