Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lærisveinarnir tína kornöx á hvíldardegi

Lærisveinarnir tína kornöx á hvíldardegi

Kafli 31

Lærisveinarnir tína kornöx á hvíldardegi

INNAN tíðar snúa Jesús og lærisveinar hans aftur frá Jerúsalem til Galíleu. Þetta er að vori og korn stendur á ökrum. Lærisveinarnir eru svangir svo að þeir tína kornöx og borða. En það er hvíldardagur og þetta fer ekki fram hjá mönnum.

Trúarleiðtogarnir í Jerúsalem höfðu rétt áður viljað drepa Jesú vegna þess að þeir telja hann hafa brotið hvíldardagshelgina. Nú koma farísearnir með ákæru: „Lít á, lærisveinar þínir gjöra það, sem ekki er leyft að gjöra á hvíldardegi,“ segja þeir ásakandi.

Farísearnir halda því fram að lærisveinarnir séu að uppskera og þreskja þegar þeir tína kornöx og núa þeim milli handa sér svo að hismið losni frá korninu. En hin stranga túlkun þeirra á því hvað sé vinna hefur gert hvíldardaginn að þungri byrði, enda þótt dagurinn hafi átt að vera ánægjulegur og andlega uppbyggjandi. Jesús svarar því með dæmum úr Biblíunni til að sýna fram á að Jehóva Guð ætlaðist aldrei til að hvíldardagslögum hans yrði beitt af slíkri ósanngirni.

Jesús segir að Davíð og menn hans hafi komið við í tjaldbúðinni og borðað skoðunarbrauðin þegar þá hungraði. Þessi brauð höfðu verið tekin af borðinu frammi fyrir Jehóva og ný látin í staðinn, en að öllu jöfnu máttu aðeins prestarnir borða þau. Undir þessum kringumstæðum voru Davíð og menn hans ekki fordæmdir fyrir að borða þau.

Jesús nefnir annað dæmi: „Hafið þér ekki lesið í lögmálinu, að prestar vanhelga hvíldardaginn í musterinu á hvíldardögum, og eru þó án saka?“ Já, jafnvel á hvíldardögum slátra prestarnir dýrum og vinna önnur störf í musterinu við að undirbúa dýrafórnirnar! „En ég segi yður: Hér er meira en musterið,“ segir Jesús.

Hann heldur áfram og ávítar faríseana: „Ef þér hefðuð skilið, hvað felst í orðunum: ‚Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir,‘ munduð þér ekki hafa sakfellt saklausa menn.“ Síðan segir hann: „Því að Mannssonurinn er herra hvíldardagsins.“ Hvað á Jesús við með því? Hann er að tala um þúsund ára friðarstjórn sína.

Mannkynið hefur nú þrælað í 6000 ár undir oki Satans djöfulsins. Ofbeldi og styrjaldir hafa verið daglegt brauð. Hin mikla hvíldardagsstjórn Krists hefur aftur á móti í för með sér hvíld frá öllum slíkum þjáningum og kúgun. Matteus 12:1-8; 3. Mósebók 24:5-9; 1. Samúelsbók 21:1-6; 4. Mósebók 28:9; Hósea 6:6.

▪ Hvað eru lærisveinar Jesú sakaðir um og hvernig svarar Jesús?

▪ Hvernig setur Jesús ofan í við faríseana?

▪ Á hvaða hátt er Jesús „herra hvíldardagsins“?