Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lærum af freistingum Jesú

Lærum af freistingum Jesú

Kafli 13

Lærum af freistingum Jesú

STRAX eftir skírnina leiðir andi Guðs Jesú út í Júdeueyðimörk. Hann hefur margt um að hugsa því að ‚himnarnir opnuðust‘ þegar hann skírðist þannig að hann gat skilið það sem himneskt er. Hann hefur sannarlega margt að hugleiða!

Jesús er 40 daga og 40 nætur í eyðimörkinni og borðar ekkert á meðan. Hann er því sársvangur þegar djöfullinn kemur til að freista hans. Djöfullinn segir: „Ef þú ert sonur Guðs, þá bjóð þú, að steinar þessir verði að brauðum.“ En Jesús veit að það er rangt að vinna kraftaverk til að fullnægja sínum eigin löngunum. Hann lætur því ekki freistast.

En djöfullinn gefst ekki upp. Hann reynir aftur. Hann skorar á Jesú að kasta sér ofan af musterisveggnum og láta engla Guðs bjarga sér. En Jesús lætur ekki freistast til að sýna sig og vekja athygli. Hann vitnar í Ritninguna og bendir á að það sé rangt að freista Guðs með þessum hætti.

Í þriðju freistingunni sýnir djöfullinn Jesú öll ríki heims á einhvern undraverðan hátt og segir: „Allt þetta mun ég gefa þér, ef þú fellur fram og tilbiður mig.“ Enn sem fyrr neitar Jesús að láta freista sín til að gera það sem rangt er. Hann vill heldur vera Guði trúr.

Við getum lært ýmislegt af þessum freistingum sem Jesús varð fyrir. Þær sýna til dæmis að djöfullinn er ekki bara illskan sem slík eins og sumir segja, heldur raunveruleg, ósýnileg persóna. Freistingarnar sýna einnig að djöfullinn ræður yfir öllum ríkisstjórnum heims. Tilboð hans hefði ekki verið nein freisting fyrir Krist ef hann hefði ekki ráðið yfir þeim í alvöru.

Og hugleiddu líka að djöfullinn sagðist vera fús til að launa Jesú fyrir eina tilbeiðsluathöfn, jafnvel gefa honum öll ríki heims. Djöfullinn reynir kannski að freista ­okkar á svipaðan hátt, hugsanlega með því að stilla upp lokkandi tækifærum til að eignast peninga, fá völd eða komast í einhverja stöðu í heiminum. En það væri viturlegt af okkur að fylgja fordæmi Jesú með því að vera Guði trú, hverju sem okkar er freistað með Matteus 3:16; 4:1-11; Markús 1:12, 13; Lúkas 4:1-13.

▪ Hvað hugleiðir Jesús líklega þá 40 daga sem hann er í eyðimörkinni?

▪ Hvernig reynir djöfullinn að freista Jesú?

▪ Hvað getum við lært af freistingum Jesú?